Ofnæmi fyrir snyrtivörum

Allflestir Íslendingar nota snyrtivörur. Til þessara vara teljast sápur, tannkrem, ýmis húðkrem, svitalyktareyðar, ilmvötn, rakspírar, varalitir, naglalökk, augnlitir, hárlitir, efni til hármótunar og sólvarnarkrem.

Þessar vörur hafa þýðingu fyrir vellíðan og heilsu þess sem notar þau og auka sjálfstraust í samskiptum við aðra.

Rannsóknir í Hollandi og Bretlandi hafa sýnt að 10-30 % þeirra sem nota snyrtivörur upplifa neikvæð áhrif við notkun þeirra.  Við ofnæmisrannsóknir á þessu fólki kom í ljós að mikill minnihluti þeirra var með ofnæmi fyrir viðkomandi snyrtivörum. Þetta sýnir að oft er um ertingu eða eins konar óþol að ræða þegar fólk fær óþægileg eða neikvæð viðbrögð við notkun snyrtivara.

Snyrtivörur geta valdið stingjum í húð, bruna eða ertingu án þess að um ofnæmi sé að ræða.

Ekki má blanda saman ertingu eða óþoli annars vegar og ofnæmi hins vegar.

Húð ertist ef að varnir hennar bresta eins og gerist til dæmis við mikla sápunotkun. Þessu fylgir oft roði og sviði.

Sumar snyrtivörur, sérstaklega krem, geta valdið stingjum í andliti hjá þeim með viðkvæma húð sem geta staðið allt að hálftíma.

Aðrir fá brunatilfinningu í húð, eða ertingu, frá sumum kremum. Í þessum tilfellum sést oft ekkert óeðlilegt á húðinni.

Húð manna er misviðkvæm og þar að auki er viðkvæmni húðar oft bundin við ákveðin efni hjá einstaklingum.

Ofnæmi fyrir snyrtivöru getur myndast þó hún hafi verið notuð án vandamála í langan tíma.

Í þeim tilfellum sem um ofnæmi er að ræða þá getur viðkomandi verið búinn að nota sömu vöruna lengi, jafnvel mörg ár, áður en ofnæmi myndast.

Það er útbreiddur misskilningur að ofnæmi fyrir snyrtivörum sé yfirleitt fyrir einhverju sem fólk er nýbyrjað að nota.

Einkenni snyrtivöruofnæmis

Algengast er að húðin verði rauð og klæi. Oft bólgnar húðin og í verstu tilfellunum myndast smáar vökvafylltar blöðrur.

Þetta eru snertiexem. Oft verður húðin svona 1-2 dögum eftir að hið ofnæmisvaldandi efni kemst í snertingu við húðina.

Snertiexem frá snyrtivörum kemur oft fram sem roði, bjúgur og væg hreisturmyndun kring um augu

Til er annars konar ofnæmissvörun sem myndast nokkrum mínútum eftir að viðkomandi efni kemst í snertingu við húðina.

Sú tegund ofnæmis lýsir sér með bólgu í húð, roða og kláða og getur hjaðnað á nokkrum klukkustundum. Þarna er um snerti-ofsakláða að ræða.

Snertiexem frá snyrtivörum kemur oft fram kring um augu jafnvel þá að skaðvaldurinn sé ekki í augnsnyrtivörum.

Skýringin á þessu er sú að fólk fer oft með fingur í andlitið og nuddar á sér auglokin og ber þannig efnin þangað.

Húðin kring um augun er mjög þunn og viðkvæm og bólgnar auðveldlega.

Jafnvel snyrtivörur sem notaðar eru sjaldan geta verið orsök ofnæmisexems.

Sé um snertiofnæmi fyrir snyrtivöru að ræða nægir oft að nota hana með 2 til 3 vikna fresti til að viðhalda exeminu.

Þannig getur maskari sem notaður er aðra hverja helgi eða sjaldnar verið orsök þráláts exems kring um augu og andlitsfarði sem einungis er notaður um helgar verið orsök exems í andliti.

 

Snyrtivörur sem valda oftast ofnæmi

Húðkrem, ilmvötn, rakspírar, maskarar, hárlitir og permanent efni eru helstu tegundirnar sem valda snertiexemi.

Í kremunum geta ýmis innihaldsefni valdið snertiofnæmi svo sem ilmefni, rotvarnarefni og ullarfeiti (Lanólín).

Í ilmvötnum eru það aðallega ilmefnin. Í maskara geta það verið litarefnin, og rotvarnarefnin ásamt kólófóníum (trjákvoðu efni).

Naglalakk veldur stundum exemi í andliti og á hálsi. Í flestum naglalökkum er ákveðið plastefni sem gefur þeim seiglu án þess að það brotni.

Naglalakksofnæmi getur komið fram sem exem á vörum hjá þeim sem naga neglur.

Varalitir valda stundum exemi á vörum og þá stundum vegna ofnæmis fyrir bragðefnum eða rotvarnarefnum.

Ofnæmi fyrir naglalakki kemur oft fram sem strikalaga exem á hálsi og roði og bólga kring um augu.

Ofnæmi getur myndast fyrir hárlitunarefnum bæði þeim sem notuð eru á hárgreiðlustofum og einnig þeim sem seld eru til almenningsnota.

Í slíkum tilfellum getur myndast exem í andliti, hársverði og á hálsi.

Permanent efni bæði þau sem notuð eru á hárgreiðslustofum og almenningi geta valdið snertiexemi.

 

Ofnæmisvaldar í snyrtivörum

Rotvarnarefni eru all algengur ofnæmisvaldur. Margar tegundir slíkra efna eru notuð og oft heitir sama efnið mörgum nöfnum.

Oftast eru efni þessi í lágum styrk í snyrtivörunum. Þau eru nauðsynleg til að hindra bakteríu og sveppavöxt í vörunum.

Hafi einstaklingur ofnæmi fyrir einhverju ákveðnu rotvarnarefni er mest hætta á exemi sé efnið í langri snertingu við húðina eins og við notkun krema.

Minni hætta er á myndun snertiexems sé efnið í vöru sem skoluð er af eins og sápu eða hársápu.

Algeng rotvarnarefni eru Paraben hópurinn, Kathon CG, Imidazolidinyl Urea, Diazolidinyl Urea og Quaternium 15.

Sum þessara efna gefa frá sér Formalín sem er algengur ofnæmisvaldur.

Ilmefni og rotvarnarefni eru algengustu ofnæmisvaldarnir í snyrtivörum.

Ilmefni eru nokkuð algengur ofnæmisvaldur. Um 3000 tegundir ilmefna eru þekktar.

Sum ilmefni eru unnin úr náttúrulegum hráefnum, oftast plöntum, en meirihluti ilmefna í dag er framleiddur í verksmiðjum.

Við ofnæmispróf er notuð blanda 8 þeirra ilmefna sem líklegust eru til að valda ofnæmi.

Talið er að líkur þess að finna ilmefnaofnæmi með þessari blöndu séu um 75 af hundraði hjá einstaklingi með raunverulegt ilmefnaofnæmi.

Í vellyktandi snyrtivöru geta verið tugir eða hundruð mismunandi ilmefni.

Snyrtivörur sem auglýstar eru sem ,,náttúrulegar” innihalda oft verksmiðjuframleidd ilmefni og rotvarnarefni.

Lanólín eða ullarfeiti er nokkuð algeng orsök snertiofnæmis.

Þetta er flókin lífræn afurð sem hefur vissa eiginleika sem verksmiðjuframleidd efni hafa ekki.

Til eru afbrigði Lanólíns sem hafa minni tilhneigingu til ofnæmismyndunar en hreint Lanólín.

Önnur efni í snyrtivörum geta valdið snertiofnæmi svo sem litarefni, kólófóníum, þráavarnarefni og sólvarnarefni.

 

Greining snyrtivöruofnæmis

Greining exema er oft mjög erfið. Útlit snertiexems og annara exema til dæmis flösuexems og barnaexems (atópísks exems) getur verið mjög líkt.

Þar að auki getur sami einstaklingur haft fleiri en eina tegund exems í einu. Sé grunur um snertiofnæmi fyrir snyrtivörum er oft framkvæmt ofnæmispróf.

Þetta próf fer þannig fram að límmiðar með álskálum eru límdir á bak viðkomandi einstaklings.

Í álskálarnar er sett lítið magn af mörgum mismunandi efnum sem þekkt eru fyrir að valda snertiofnæmi.

 

Oft er einnig haft með lítið magn af snyrtivörum þeim sem viðkomandi notar.

Ekki er þó hægt að prófa á þennan hátt ertandi efni sem innihalda sápur eða alkóhól.

Eftir ákveðinn tíma, oft 2 sólarhringa, eru límmiðarnir fjarlægðir og húðin undir miðunum skoðun.

Ef um ofnæmi er að ræða breytist húðin á ákveðin hátt þar sem viðkomandi efni lá upp við húðina.

Einstaklingar geta einnig prófað krem, varaliti og aðrar snyrtivörur sem ekki erta húðina sjálfir.

 

Þeir sem hafa grun um ofnæmi fyrir ákveðnu kremi, andlitsfarða, og skyldri vöru geta gert próf á sjálfum sér.

 

Þá er til dæmis kremið borið í olnbogabót kvölds og morgna í 4 daga.

Ef roði og kláði myndast á svæðinu eftir 2-4 daga er líklega um ofnæmi að ræða fyrir einu eða fleirum innihaldsefnum kremsins.

 

Hvernig er hægt að forðast ofnæmisvaldandi snyrtivörur?

Margar snyrtivörur eru merktar sem ofnæmisprófaðar eða sem þær valdi sjaldan ofnæmi (hypoallergic).

Það er þó ekki til nein opinber skilgreining á því hvað slíkar merkingar þýða, og framleiðendur ákveða sjálfir hvort þeir merki vörur sínar á þennan hátt.

Þannig að þó snyrtivörur séu merktar á þennan hátt er erfitt að segja fyrir um líkur þess að fá ofnæmi fyrir þeim.

Hafa verður í huga að nánast öll efni í snyrtivörum geta valdið ofnæmisexemi, en sum þeirra efna gera það mun sjaldnar en önnur.

Nánast öll efni sem komast í snertingu við húðina geta valdið snertiofnæmi.

 

Hafi einstaklingur fengið ofnæmi fyrir ákveðnu efni, til dæmis rotvarnarefni getur hann fengið exem undan snyrtivörum sem innihalda þetta efni.

Það gerist þó ekki í öllum tilfellum vegna þess að einstaklingar eru misnæmir fyrir snertiexemi og einnig vegna þess að rotvörnin getur verið í það lágum styrk að hún valdi ekki exemi.

Að öllu jöfnu þarf lægri styrk ofnæmisvaldandi efnis til að valda exemi séu varnir húðarinnar skertar til dæmis vegna ertingsexems.

Sum efni er mjög erfitt að forðast eins og til dæmis Formalín.

Oft eru greinargóðar innihaldslýsingar á snyrtivörum, en alls ekki alltaf.

Það hefur verið skylda í Bandaríkjunum frá 1977 að merkja snyrtivörur með innihaldi, en ekki í Evrópu.

Það verður skylda í Evrópuríkjum frá lokum árs 1997 að innihaldsmerkja allar snyrtivörur.

Þessar innihaldslýsingarnar verða á ensku og latínu.

Á Íslandi er um innihaldsmerki snyrtivara og stór hluti þessarar vöru því vel merktur.

Ekki eru þó allar snyrtivörur hér á landi merktar og það er auðvitað slæmt fyrir marga sem hafa ofnæmi ýmsum innihaldsefnum þeirra.

 

 

Á Íslandi er í gildi reglugerð um að allar hreinlætis og snyrtivörur eigi að vera merktar með nákvæmri lýsingu á innihaldi.

 

Séu snyrtivörur innihaldsmerktar er mun auðveldara fyrir ofnæman einstakling að forðast viðkomandi ofnæmisvald.

Þeir sem hafa ofnæmi fyrir ilmefnum verða þó áfram í vandræðum með að finna ilmandi snyrtivörur sem þeir þola.

Þetta er vegna þess hve mörg ilmefnin eru og efnafræði þeirra flókin og þar að auki er samsetningin oft iðnaðarleyndarmál.

Þannig er og verður einungis gefið til kynna á umbúðum hvort varan innihaldi ilmefni en ekki nánari lýsing á þeim.

 

Samantekt

Algengt er að fólk fái einkenni frá ýmsum snyrtivörum. Samkvæmt rannsóknum er um ofnæmi fyrir vörunum í minnihluta þessara tilfella.

Ofnæmi fyrir snyrtivörum lýsir sér oftast með roða, kláða og stundum hreisturmyndun í húð.

Greinist einstaklingur með ofnæmi fyrir einhverju ákveðnu efni í snyrtivörum má oft forðast það með því að nota vörur með greinagóðri innihaldslýsingu.

 

Höfundur er Steingrímur Davíðsson húðlæknir

 

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á doktor.is logo

 

SHARE