Ógeðfellt innbrot í tölvupóst: Karitas er heil á húfi!

„Já, síminn bara stoppar ekki og ég hef heyrt í fólki úr ansi mörgum áttum undanfarna klukkutíma. Sem hefur verið jákvætt fyrir marga parta því mörgum hafði ég ekki heyrt í lengi og því gaman að taka upp þráðinn með gömlum vinum. En tilefnið er auðvitað ekkert skemmtilegt. Ég er ekki týnd í Bristol, ég er heil á húfi í Reykjavík og hef hvorki glatað ferðatösku, kreditkorti né vegabréfi. Og þó svo væri myndi ég aldrei senda út svona bréf.”

Þetta segir Karitas Bergsdóttir, íslensk kona, sem varð fyrir þeirri hryllilegu lífsreynslu að brotist var inn á tölvupóst hennar í nótt sem leið. Upp komst snemma í morgun þegar þrjótarnir höfðu beinþýtt skelfilegt neyðaróp gegnum það sem virðist vera Google Translate og sárbænt um peningaaðstoð henni til handa, en Karitas er eina fullorðna konan með þessu nafni í Þjóðskrá íslands og því ekki vandi að geta um hvaða einstakling var að ræða.

Bréfið áframsendu þrjótarnir á alla þá sem hafa verið í rafrænum samskiptum við Karitas undanfarin sjö ár í gegnum netfangaskrá hennar á Gmail og varð í stuttu máli sagt allt vitlaust.

Svona hljómar textinn sem hundruðir manna og kvenna fengu í tölvupósti frá hinni fölsku „Karitas” í morgun:

 

Hjálp! 

Ég vona að þú færð þetta hratt, ég er í Bristol, Bretland og ég hafði töskuna mína stolið ásamt vegabréfi mínu og kreditkort í sendiráði it.The er reiðubúinn að láta mig fljúga án vegabréfið mitt. Ég er bara að borga miða og greiða fyrir hótel reikningana. Því miður hef ég enga peninga, kredit kortið mitt hefði hjálp en það er líka í pokanum. Ég hef nú þegar hafa samband tekið með bankanum mínum en þeir þurfa meiri tíma til að senda mér nýjan. Ég þarf að fá næsta flug. Ég vildi spyrja þig ef þú gefur mér £ 1350 lán eins fljótt og auðið er getur að ná kostnaði mínum, ég gef það til baka til þín þegar ég er þar. Féð frá MoneyGram er festa og besta möguleika ég hef núna. Ég get sent upplýsingar sem hægt er að senda mig money.You getur haft samband við mig með tölvupósti eða með því að hringja í afgreiðslunni á hótelinu Henbury Lodge Hotel + 447031704705

Ég bíða svar þitt.

 

Kveðja

Karitas Bergsdóttir

En þar með er ekki öll sagan sögð, því þegar sími Karitas hóf að hringja eldsnemma í morgun og áhyggjufullir vinir sem ættingjar að grennslast um hana, reyndi hún umsvifalaust að komast inn á Gmail sinn, með engum árangri. Það var engu líkara en að netfang hennar hefði aldrei verið til.

Það kostaði Karitas langan tíma, talsverða þrautsegju og miklar vangaveltur að endurheimta netfang sitt en með útsjónarsemi, lagni og nákvæmni í upplýsingagjöf tókst henni að lokum að ná sambandi við Google ytra sem opnaði reikning hennar aftur. Ekki fór þó betur en svo að öll bréfasamskipti Karitas eru horfin af reikningnum, en hún hefur verið með sama netfangið í sjö ár.

“Þegar ég loks komst inn á G-mailinn minn aftur, þá var búið að umsnúa öllu á hebresku. Það tók mig langan tíma að snúa póstinum yfir á rétt tungumál aftur en ég skildi bara hvorki upp né niður í neinu. Ég komst líka að því eftir stuttlega rannsóknarvinnu að búið var að stilla póstinn minn þannig að öll bréf til mín voru áframsend á annað netfang sem er ekki í minni eigu. Mér skilst að þetta sé mikið í gangi núna og kannski ágætt að ég segi frá þessu til þess að vara aðra við. Að skipta um lykilorð og gæta að öryggi sínu á netinu.”

Karitas tilkynnti lögreglu um málið, en ekki er hægt að aðhafast neitt þar sem enginn veit hver var að verki og IP tala sendanda er órekjanleg.

“Mér finnst full ástæða til að vara almenning við svona hrekkjum og ég vil hvetja fólk til að nota tvíþætta skráningu, jafnvel tengja GSM númer við reikning eða notast við aðra öryggismöguleika,” sagði Karitas að endingu í samtali við blaðamann HÚN. “Sjálf er ég með flókin og þung lykilorð og það er ekki langt siðan ég skipti um lykilorð sjálf. Vissulega kom þetta á óvart, en ljósi punkturinn er þó sá að ég hef heyrt í fólki í dag sem ég hef ekki rætt við í mörg ár.”

Ritstjórn hvetur lesendur til að huga vel að öryggi sínu á netinu og að bregðast ekki við í hugsunarleysi, berist einkennilegur póstur á netfang þeirra þar sem farið er fram á tafarlausa millifærslu að óathuguðu máli.

Upplýsingar um hvernig má tryggja öryggi notenda á Gmail má lesa á ensku HÉR

SHARE