“Ojj vinnur þú við að skeina gömlu fólki? Guð, það er ógeðslegt”

“Ojj vinnur þú  við að skeina gömlu fólki? Guð, það er ógeðslegt” er setning sem ég fæ mjög oft að heyra þegar fólk ræðir við mig um vinnuna mína.

Ég er stelpa um tvítugt sem starfa á dvalar- og hjúkrunarheimili og finnst ég óendanlega heppin að fá það tækifæri að vinna á svoleiðis stofnun. Ég er einnig menntuð í þessu fagi og er nýlega búin að klára sjúkraliðann.
Þegar fólk ræðir við mig um vinnuna mína virðist það halda að það eina sem ég geri sé, eins og það orðar það, sé að “skeina gömlu fólki”. Og yfirleitt fær maður pistilinn tengdan því, um hvað það sé ógeðslegt, viðbjóðslegt, fólk kúgist við tilhugsunina og svo endalaust fleira. Að vinna á öldrunarstofnun er svo miklu meira en það. Auðvitað er það partur af starfinu að aðstoða fólk á klósettið en það er svo algjörlega ekkert að því. Við störfum jú við það að veita fólkinu sem auðveldast líf á sínum seinustu árum og hjálpa því við ADL (athafnir daglegs lífs) og ekki eru allir sem geta hjálpað sér sjálfir á snyrtinguna. Fólk tjáir sig ekki um að skipt sé á ungabörnum og þeim sé veitt aðstoð, þetta er eins með sumt aldraða fólkið, það hefur ekki tök á að hjálpa sér sjálft.
Að starfa með öldruðum er svo miklu meira en að skeina þeim, og fólk virðist ekki skilja það. Vinnan er yndisleg á allan hátt! Þú færð að eiga samskipti við fólk sem er ekki af þinni kynslóð, færð að kynnast miklum kærleik og hlýju frá skjólstæðingum þínum, færð visku frá fólkinu sem mun fylgja þér alla þína ævi, lærir mannleg samskipti enn betur og
ég gæti endalaust talið upp kostina við þetta starf. Auðvitað eru erfiðir einstaklingar inná milli, en þú lærir vel á að takast við þá.

Vinnan mín gerir mig hamingjusama, ég tel mig svo heppna að fá að vinna í svona vinnu, maður gefur svo mikið af sér og fær svo helling til baka! Fátt yndislegra en þegar gamla fólkið tekur utan um mann og segist þykja vænt um mann eftir að maður hefur hjálpað því. Eftir hvern vinnudag kem ég heim með eitthvað nýtt í farteskinu sem mun fylgja mér til æviloka. Mér finnst dásamlegt að vita að ég sé að bæta seinustu ár fólksins til muna með því að hjálpa því við sín daglegu störf!

Einnig heyri ég reglulega sagt við mig :”Eyddiru virkilega 3 árum í að læra skeiningar?”. Ég verð svo reið, svo innilega reið við að heyra þetta! Ég valdi yndislega vinnu, ég valdi vinnu sem ég gef af mér, valdi vinnu sem maður lærir eitthvað nýtt á hverri vakt! Svo halda einnig margir að sjúkraliðastörf séu bara unnin á öldrunarstofnunum, en það er svo ekki svoleiðis.

Ég tel vinnuna mína gera mig að betri persónu.

Mér finnst að fólk mætti hætta að tala illa um sjúkraliðastarfið og aðhlynningarstarfið. Tökum frekar ofan fyrir þessum störfum!

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here