Óléttri konu neitað um þjónustu í vínbúð í Reykjavík – Eðlilegt?

Núorðið er í mörgum löndum óheimilt að neita fólki um þjónustu á grunvelli  þjóðernis svo eitthvað sé nefnt. Í 180. grein almennra hegningarlaga kveður á um að hver sá sem í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi neitar manni um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli þjóðernis sæti sektum eða fangelsi.

Nú efast ég um að það sé algengt hér á landi að fólki sé neitað um þjónustu á þessum grundvelli. Maður heyrir samt um furðuleg dæmi af og til þar sem fólki er mismunað og það vakti athygli mína að tilraun var gerð til þess að neita óléttri konu um þjónustu í vínbúð í Reykjavík í gær. Konan, fór í Vínbúðina og ætlaði að kaupa “rútu” af bjór handa vini sínum. Hann hafði gert við bílinn hennar og hana langaði að færa honum eina rútu af bjór. Þegar konan kom að kassanum og beið eftir afgreiðslu tjáði starfsmaðurinn henni  að hann gæti ekki afgreitt hana.

Hún spurði hann hvers vegna hann neitaði henni um afgreiðslu og hann svaraði: “Ég sel óléttum konum ekki áfengi.”

Konunni var mjög brugðið og sagði honum að hún væri nú ekki að kaupa þennan bjór fyrir sig heldur vin sinn. Hún sagði honum að þetta kæmi honum einfaldlega ekki við og bað um netfangið hjá yfirmanni hans. Til að starfsmaðurinn sættist á að afgreiða konuna þurfti hún því að sannfæra hann um að hún ætlaði ekki að drekka bjórinn sjálf.  Það er alvitað að konum er ráðlagt að neyta ekki áfengis á meðgöngu, ég held að flestar íslenskar konur leggi það ekki í vana sinn að detta í það á meðgöngunni. Mér finnst við samt sem áður komin út á miklar villigötur ef afgreiðslufólk ætlar að fara að ákveða hver megi kaupa sér áfengi og hver ekki. Ætli þessi sami aðili neiti fólki sem á við áfengisvandamál að stríða um afgreiðslu? Kemur það óviðkomandi aðilum við hvað fullorðið fólk kaupir í búðinni?

Mega óléttar konur ekki bjóða upp á vín í matarboðum? Mega óléttar konur ekki kaupa vínflösku eða bjór og gefa makanum eða einhverjum sem þeim þykir vænt um? Er forræðishyggjan ekki komin út í aðeins of miklar öfgar ef fólk ætlar að fara að skipta sér af þessum málum?

Ég keypti til dæmis heila vodkaflösku um daginn, þvílík skömm, ólétt kona að kaupa vodaflösku, ég ætlaði að sjálfsögðu ekki að fá mér sjúss sjálf heldur var þetta gjöf sem ég fór með í matarboð til ömmu.

Að mínu mati hefði það í raun ekki skipt neinu máli þó þessi kona hefði verið að kaupa þennan bjór fyrir sig. Það er ekki hlutverk afgreiðslufólks að ákveða hver fær að kaupa sér áfengi og hver ekki nema auðvitað ef manneskjan er undir aldri en það er allt annað mál. Þá er starfsmaðurinn einfaldlega að fara að lögum og sinna sínu starfi vel. Það er hins vegar ekki ólöglegt fyrir fullorðinn einstakling að kaupa sér áfengi, hvort sem einstaklingurinn er með barni eða ekki. Það er engin leið fyrir starfsfólk að vita hvort konan sé að kaupa áfengið fyrir sig eða einhvern annan, enda kemur okkur það hreinlega ekki við. Það er mjög eðlilegt að hafa skoðanir á hlutunum og flestum er illa við að vita til þess að kona sem gengur með barn drekki áfengi en þegar maður sinnir afgreiðslustörfum getur maður ekki látið skoðanir sínar hafa áhrif á hvernig maður sinnir starfinu. Það er ekki ólöglegt fyrir fullorðna manneskju að kaupa áfengi og þar með höfum við ekki rétt á því að neita manneskju um þjónustu á grundvelli þess að hún sé ólétt og að hún hafi ekki gott af þessu. Þá er í raun verið að mismuna fólki á grunvelli kyns þar sem karlmenn geta jú ekki orðið óléttir.

Ég hef sjálf sinnt afgreiðslustörfum og sinnti afgreiðslustörfum á hverjum degi eftir skóla og um helgar þegar ég var unglingur. Ég man alveg eftir atvikum þar sem mig langaði til að skipta mér af en það var bara ekki mitt að gera.

Þessi kunningjakona mín hefur sent inn kvörtun og segir mér það að yfirmaður starfsmannsinns hafi beðist afsökunar á þessari hegðun. Ég vona að yfirmenn sjái sér fært að ræða þessi mál og útskýra það að þetta sé ekki eðlilegt. Það geta allir gert mistök og þarna hafa mistök átt sér stað. Mig langar að geta farið í ríkið án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að fá ekki afgreiðslu vegna þess að ég er ólétt kona. Mér finnst samt rétt að taka það fram að ég er á móti áfengisneyslu á meðgöngu og er ekki að mælast til þess að konur drekki áfengi á meðgöngu. Ég vil ekki að komið sé fram við mig eins og ég sé að fremja lögbrot ef ég ákveð að fara sjálf í ríkið fyrir næsta matarboð.

 

SHARE