Öll áheit hlaupara renna í neyðarsöfnun – Fjöldi barna sem flúið hafa Sýrland er kominn yfir 970.000

Enn eykst neyðin í Sýrlandi – Öll áheit hlaupara renna í neyðarsöfnun.

Fjöldi barna sem flúið hefur Sýrland er kominn yfir 970.000 UNICEF útvegar allt hreint vatn í næststærstu flóttamannabúðum í heimi þar sem yfir 60.000 börn dvelja Þörfin fyrir frekari hjálp er gríðarleg Öll áheit til UNICEF í Reykjavíkurmaraþoninu renna til neyðaraðgerðanna
Flóttamannastraumurinn frá Sýrlandi eykst stöðugt og fleiri en 970.000 börn hafa nú verið skráð sem flóttamenn í nágrannaríkjunum eða bíða formlegrar skráningar. Auk þess þjást yfir þrjár milljónir barna innanlands í Sýrlandi vegna átakanna.

Stærstu flóttamannabúðirnar í Jórdaníu hýsa nú meira en 120.000 manns. Þar dvelja yfir 60.000 börn. Zaatari-búðirnar eru næststærstu flóttamannabúðir í heimi – og jafnframt næststærsta borg Jórdaníu í dag.

UNICEF útvegar allt vatn í búðunum og dreifir þangað samtals 4 milljónum lítra af hreinu vatni á dag. Miklu magni hjálpargagna hefur enn fremur verið dreift og börnum veittur sálrænn stuðningur. Hjálparstarfið gengur vel en þörfin fyrir frekari aðstoð er gríðarleg. Línurnar eru því enn opnar í neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi og öll áheit til UNICEF í Reykjavíkurmaraþoninu um þar næstu helgi munu renna til neyðaraðgerðanna. Hjálparstarfið er samhæft fyrir allt svæðið – í áðurnefndum flóttamannabúðum, innanlands í Sýrlandi og öðrum nágrannaríkjum.

„UNICEF er Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og við höfum þungar áhyggjur af framvindunni í Sýrlandi. Börn eru meirihluti þeirra sem eru á flótta – og flest þeirra eru mjög ung. Við ákváðum því að láta áheit hlaupara í ár renna til neyðaraðgerðanna. Margir hér heima hafa haft samband við okkur, eru áhyggjufullir og hafa spurt hvernig þeir geta styrkt hjálparstarfið í Sýrlandi. Almenningur getur því núna bæði hlaupið til styrktar börnum frá Sýrlandi og heitið á aðra sem gera það,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

„Það er vel hægt að hjálpa og við sjáum árangur af starfinu á hverjum einasta degi. Barnadauði í stærstu flóttamannabúðunum í Jórdaníu er sem dæmi miklu lægri en það sem við höfum séð þar sem neyðarástand af sömu stærðargráðu hefur ríkt. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hefur einnig tekist að koma í veg fyrir mæðradauða. Þetta eru góðar fréttir. Þegar fleiri flýja eykst þörfin fyrir aðstoð og við þurfum því að ná að auka viðbrögðin enn frekar.“

Barnaþrælkun og mansal

Mörg þeirra barna sem eru á flótta vegna átakanna hafa upplifað mikið umrót og orðið fyrir sálrænu áfalli. Það er þó einungis hluti af því sem þau standa frammi fyrir. Við þetta bætist sú ógn sem þeim stafar af barnaþrælkun, snemmbúnum giftingum og möguleikanum á mansali. UNICEF hefur af þessum sökum lagt gífurlega áherslu á barnavernd.

Af öðru má nefna að samtökin hafa útvegað 10 milljónum manna hreint vatn í Sýrlandi og nágrannaríkjunum, auk þess sem UNICEF og samstarfsaðilum hefur tekist að bólusetja nærri 2,5 milljónir barna gegn mislingum, lífshættulegum sjúkdómi. Þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður í Homs hefur UNICEF dreift hjálpargögnum í borginni – þar á meðal á þeim svæðum þar sem ástandið er ótryggast, svo sem í Al Waer.

Yfir 50 hjúkrunarteymi hafa auk þess farið um með færanlegar heilsugæslustöðar og komið sér fyrir á stöðum í Sýrlandi þar sem öryggi er lítið og fólk hrætt við að fara út úr hverfum sínum. Heilsugæslan er þannig færð í þeirra næsta nágrenni. Einungis það sem af er ári hafa teymin náð til yfir 180.000 barna.

 

Söfnunarsímanúmer UNICEF á Íslandi eru opin:

 

908-1000 (1.000 kr)

908-3000 (3.000 kr)

905-5000 (5.000 kr)

 

Einnig er hægt að senda sms-ið unicef í númerið 1900 til að gefa 1.500 kr.

 

SHARE