Ómótstæðileg Oreobomba

Þessi ómótstæðilega kaka er svolítið tímafrek en hún er svo sannarlega hverrar mínútu virði. Hún inniheldur sykurpúðakrem, hvítt súkkulaði, rjómaost, rjóma, súkkulaði og Oreo kex. Ó, hvað þarf maður meira?

Sjá einnig: Dásamlega ljúffeng Oreo & Pipp ostakaka

Uppskriftin er fengin af blogginu hennar Tinnu Bjargar

IMG_2816

Ómótstæðileg Oreobomba

Súkkulaðibotnar

30 g suðusúkkulaði

60 g kakó

235 g heitt vatn

2 stór egg

2 eggjarauður

60 ml þeyttur rjómi

1 tsk vanilludropar

215 g hveiti

325 g ljós púðursykur

1 tsk matarsódi

1/2 tsk salt

225 g brætt smjör

 • Blandið súkkulaði og kakói saman við heitt vatn og hrærið þar til súkkulaðið er bráðið. Kælið í ísskáp í 20 mínútur. Hrærið saman í skál eggjarauðum, þeyttum rjóma og vanilludropum og leggið til hliðar.
 • Blandið hveiti, ljósum púðursykri, salti og matarsóda saman í stóra skál og hrærið eggjarauðublöndunni saman við.
 • Bætið við einu eggi í einu og því næst bræddu smjöri. Hrærið að lokum súkkulaðiblöndu saman við deigið.
 • Sníðið bökunarpappír ofan í tvö hringlaga kökuform og smyrjið þau. Hellið deiginu jafnt í formin og bakið við 175° í 30-40 mínútur.
 • Ég frysti botnana oftast að minnsta kosti yfir eina nótt því þá eru þeir mýkri þegar tertan er sett saman.

Sykurpúðakrem

2 eggjahvítur

340 g Golden sýróp

1/4 tsk salt

110 g flórsykur

1/2 msk vanilludropar

 • Þeytið eggjahvítur, sýróp og salt saman í a.m.k. 5 mínútur.
 • Blandið flórsykri saman við á hægari stillingu ásamt vanilludropum.

Ostakrem

sykurpúðakrem

250 g rjómaostur

fræ úr einni vanillustöng

5 dl þeyttur rjómi

2 dl flórsykur

100 g hvítt súkkulaði

6 matarlímsblöð

3 msk heitt vatn

1 pakki Oreo kex

 • Hrærið rjómaost, sykurpúðakrem og vanillufræ saman í stórri skál.
 • Bræðið hvítt súkkulaði, kælið aðeins og blandið saman við rjómaostablönduna.
 •  Látið matarlímsblöð liggja í vatni í 5 mínútur.
 • Setjið blöðin í skál og hellið sjóðandi heitu vatni yfir.
 • Hrærið þar til þau leysast upp og kælið örlítið.
 • Hellið matarlíminu saman við ostakremið í mjórri bunu og hrærið stanslaust á meðan.
 • Hrærið flórsykri saman við þeyttan rjóma og blandið varlega saman við ostakremið.
 • Kælið kremið í ísskáp í 1 klst.
 • Hvolfið öðrum súkkulaðibotninum á kökudisk og smyrjið þykku lagi af ostakremi ofan á hann.
 • Myljið Oreo kex og stráið yfir kremið á botninum.
 • Smyrjið öðru lagi af kremi yfir Oreo kexið og leggið hinn botninn ofan á.
 • Þekið kökuna með ostakreminu og kælið í ísskáp þar til kremið stífnar, um 4-5 klst.
 • Í Hagkaup er stundum hægt að fá tilbúið sykurpúðakrem sem heitir Jet Puffed. Ég kýs frekar að gera mitt eigið sykurpúðakrem því það er bragðmeira og þéttara þannig að ostakremið verður stífara.
 • Ef notað er tilbúið sykurpúðakrem þarf tvær dósir í uppskriftina.

Súkkulaðikrem

16 g kakó

35 ml heitt vatn

150 g mjúkt smjör

40 g flórsykur

örlítið salt

300 g suðusúkkulaði

 •  Hrærið kakói og heitu vatni saman í litla skál og kælið.
 • Bræðið suðusúkkulaði og kælið einnig.
 • Þeytið saman flórsykur, smjör og salt.
 • Bætið súkkulaðinu saman við og því næst kakóblöndunni.
 • Þekið tertuna með súkkulaðikremi þannig að ekkert sjáist í ostakremið.
 • Athugið að ef tertan er ekki kæld nógu lengi blandast ostakremið saman við súkkulaðikremið. Einnig getur fyllingin flætt út úr tertunni þegar hún er skorin. Það er því mikilvægt að kæla hana vel.

533090_10150707300742453_644007715_nb

SHARE