Óraunhæfar væntingar í nútíma þjóðfélagi

Í nútíma þjóðfélagi er algengt, að báðir aðilar vinni úti á vinnumarkaðnum og konur eru farnar í auknu mæli, að gegna ábyrgðafullum störfum jafnt og karlmenn. Maður getur ekki annað en spurt sig að því, hvernig fjölskyldur geta náð jafnvægi milli heimilis og vinnu. Þetta fyrirkomulag leggur mikla pressu á fjölskyldur, að allt heimilishald gangi upp, tími sé til að sinna heimanámi barnanna og yfir höfuð finna tíma til að gera eitthvað saman. Nýleg rannsókn gerð af samstarfsaðila Solarplexus, TCO Development í Svíþjóð, sýnir verulega aukningu á streitueinkennum hjá báðum kynjum, sem eru útivinnandi. Einnig sýnir hún aukningu veikindadaga kvenna og að konur eru almennt veikari en karlmenn. Því er ekki hægt að neita, að það er sífellt erfiðara að finna jafnvægi á milli þessara tveggja þátta, sem tvímælalaust eykur hættu á streitueinkenni einstaklinga vegna álags, ekki síst hjá barnafjölskyldum.

Sjá einnig: Gættu að áfengisnotkuninni ef þú ert undir álagi

Lífsgæðakapphlaupið er ríkjandi meðal Íslendinga, þar sem allir þurfa helst að eiga allt af öllu. Það reynist eflaust mörgum erfitt, að taka ekki þátt í því kapphlaupi, þar sem hraðinn er mikill og fáir virðast gefa sér tíma til að hugsa málin af skynsemi. Við viljum jú eignast þá hluti sem teljast „nauðsynlegir” og eru allar leiðir notaðar til að fjármagna það. Er ekki þess vegna vert að spyrja sjálfan sig, hvort þessir veraldlegu hlutir eru að gefa okkur þá hamingju og þann innri frið, sem við leitumst við að finna.

Ekki má gleyma „öllum þeim væntingum” sem við sjálf og einnig aðrir gera til okkar. Báðir aðilar eiga að sinna ábyrgðafullu starfi til að geta fylgt öllum eftir í lífsgæðakapphlaupinu og helst ferðast til útlanda 2 sinnum á ári. Ástarlífið blómstrar að sjálfsögðu á milli makanna og rómantíkin er viðhöfð á hverjum degi. Enginn ágreiningur er um hlutverk kynjanna, þar sem hlutverkaskiptingin er jöfn og báðir aðilar hjálpast að með bros á vör. Það þykir jú algjört „tabú” að einhver vandmál eða ágreiningur sé innan heimilisins. Heimilið verður að vera fallegt og hlaðið af glæsilegum húsgögnum og hlutum, sem eru annaðhvort sérhannaðir eða fluttir inn frá útlöndum. Einnig er mikilvægt að rækta tengslin við ættingja og vini og halda matarboð, þar sem eldaður er framandi matur, sem enginn hefur smakkað áður. Börnin eiga að vera vel uppalin og kurteis framar öllu. Báðir aðilar eru virkir í félagslífinu og eru í alls kyns nefndum t.d á vegum vinnunnar eða í gegnum skóla barnanna. Einnig á að vera tími til að vera í andlegum vexti og rækta okkar innri mann til að öðlast innri frið og hamingju.

Sjá einnig: Sorglegur sannleikur nútímans – Myndir

Væntingar geta verið ansi margar og óraunhæfar. Einstaklingar sem reyna að uppfylla of margar væntingar finna sjaldnast hamingjuna. Með tímanum fyllast einstaklingar gremju í stað hamingju, þar sem orka þeirra fer í hluti, sem reynist erfitt að öðlast.

Í stað þess að renna í blindni með straumnum, væri réttast að staldra aðeins við og spyrja sjálfan sig, hvað er mér mikilvægast í lífinu? Hvað veitir mér mestu gleði og hamingju ? Mikilvægt er að gefa sér tíma, til að fara í sjálfsskoðun og finna hvað er manni mikilvægast, til þess að geta sinnt því vel. Þegar öllu er á botninn hvolft, er það ekki nýi sófinn eða jeppinn sem veita manni innri ró og hamingju, heldur er það ræktun hinna andlegu og líkamlegu þarfa, sem til þarf. Þegar við ræktum okkar andlegu og líkamlegu þarfir, erum við betur undir búin, til að mæta þeim kröfum og álagi, sem einkenna nútímafjölskyldur í dag.

 

SHARE