Orðnar mjög góðar vinkonur

Ása Bergný tók að sér læðuna Saffó fyrir þremur vikum, en hún er tíu ára og hafði dvalið í Kattholti í nokkra mánuði. Ekki er vitað hvað á daga hennar hefur drifið þangað til hún kom í Kattholt en Ásu Bergný finnst skemmtilegt að læðan eigi sér dulda fortíð. Þær náðu strax vel saman og sofa gjarnan í sama rúmi.

 

Ásu Bergnýju Tómasdóttur hafði dreymt um að eignast kött frá því hún var lítil stelpa. Draumurinn rættist loksins á dögunum þegar hún tók að sér tíu ára gamla læðu, Saffó, sem hafði verið í nokkra mánuði í Kattholti og vantaði gott heimili.

„Ég var búin að reyna að koma ketti inn á heimilið frá því ég var mjög lítil, en það var auðveldara núna því ég er flutt í risið hjá foreldrum mínum, og bý því ekki inni í íbúðinni hjá þeim eins og ég gerði,“ segir Ása Bergný um ástæðu þess að hún lét loksins verða af því að fá sér kött.

Fáir taka eldri ketti

Það var meðvituð ákvörðun hjá henni að fá sér frekar eldri kött en lítinn kettling, en og tvennt vó þyngst í þeirri ákvarðanatöku. „Ég er tæplega tvítug og veit ekki hvað er langt í að ég flytji út. Foreldrar mínir voru ekki mjög spenntir fyrir því að fá pínulítinn kettling inn á heimilið sem myndi kannski lifa í fimmtán ár í viðbót. Það hafði sín áhrif. En svo finnst mér bara mjög jákvætt að gefa fullorðnum ketti heimili, það eru svo fáir sem gera það. Hún var búin að vera í Kattholti í fjóra mánuði. Rosalega falleg og góð en þegar fólk frétti hvað hún var gömul þá hætti það við.“

Ber aldruinn vel

Vinkona Ásu Bergnýjar, sem starfar í Kattholti, var sérstaklega með Saffó í huga fyrir hana þegar hún kom að skoða ketti sem vantaði heimili. „Ég féll strax fyrir Saffó. Hún er mjög róleg, falleg og ern. Hún er frekar smágerð og feldurinn er ennþá mjúkur þannig hún ber aldurinn vel.“

Ása Bergný segir Saffó hafa fundist á vappinu í Breiðholti, hún virtist hvergi eiga heima og enginn saknaði hennar. „Ég veit því ekkert hvernig líf hennar var fram að því að hún kom hingað til mín. Mér finnst það alveg skemmtilegt að hún eigi sér dulda fortíð,“ segir hún kímin.

Héldu að hún ætti kött

Það tók Ásu Bergnýju og Saffó eðlilega smá tíma að kynnast, en sú fyrrnefnda var þó fljót að vinna sér inn traust þeirrar síðarnefndu. „Eins og við mátti búast var hún dálítið hrædd í fyrstu. Hún þurfti líka að fara í geldingu áður en hún kom til mín og var ennþá vönkuð eftir lyfin og haltraði. En nú eru komnar þrjár vikur síðan hún kom og hún er allt önnur, til í að kúra og kemur upp í rúm til mín. Okkur semur mjög vel. Ég held að ég geti talað fyrir okkur báðar og sagt að við séum orðnar mjög góðar vinkonur.“

Ása Bergný segir það hafa bætt líf sitt að eignast kött, enda langþráður draumur loks uppfylltur. „Þetta er akkúrat það sem mig langaði og er mjög ánægjulegt. Ég hef alltaf verið mikill dýravinur en sérstaklega hrifin af köttum. Og af því ég hef alltaf verið svo hrifin af köttum þá hafa margir haldið að ég ætti kött.“

Minni tími í uppeldi

Aðspurð segir hún foreldra sína ekki mikið skipta sér af Saffó. enda búa þær tvær saman í risinu. Pabbi hennar kíkir þó reglulega á kisu. Þrátt fyrir að foreldrarnir hafi ekki verið spenntir fyrir kettinum, útilokar Ása Bergný ekki að Saffó takist að heilla þau upp úr skónum.

Þá hvetur hún fleiri til að íhuga að taka að sér eldri ketti. „Ég mæli með sterklega með þessu. Þegar maður tekur kettling inn á heimilið þá þarf maður að kenna honum ýmislegt og ala hann upp, en Saffó þurfti engan tíma til að venjast kattasandi og slíku. Þegar maður fær sér eldri kött þá þarf maður að eyða minni tíma í það, sem getur verið kostur.“
Mynd/Rut

SHARE