Öryrki sem er að gefast upp

ATH. Þessi grein er aðsend. Lesendum er frjálst að senda inn greinar undir nafnleynd í Þjóðarsálina, en þær skoðanir sem birtast hér í Þjóðarsálinni endurspegla hvorki ritstjórnarstefnu né skoðanir HÚN.IS

Sæl Ríkisstjórn.

Ég er öryrki og mig langar að vita hvort þú gætir kennt mér að lifa á því sem ég fæ. Ég fæ 117.986 eftir skatt frá lífeyrissjóð og svo 89.596 frá Tryggingastofnun eftir skatt, samtals 207.582 íslenskar krónur. Svo koma reikningarnir, leiga 170 þús leigubætur 46.200, þannig að eingöngu eftir að greiða leigu og fá leigubætur þá standa eftir 83.782. svo þarf að borga rafmagn það er 8.791. kr þá á ég eftir 74.991 kr.

Öll erum við með síma og net, ég leyfi mér að vera með stöð 2 til að hafa einhverja afþreyingu og er með þetta hjá 365 miðlum þ.e.a.s heimasíma,net og stöð 2 og það kostar 12.358 kr (það er ódýrara en að vera með net annarsstaðar og stöð 2 líka) og svo gsm síma sirka 2.000 kr, þá er eftir 60.633 kr, ekki fer ég í bíó, út að borða eða neitt slíkt, þess vegna leyfi ég mér þetta.

Þá á eftir að leysa út lyf sem kosta sirka mánaðarlega um 15 þúsund krónur þar sem sjúkratryggingar taka ekki þátt í öllum lyfjum sem ég er á (er með mjög flókna kvíðaröskun) og margt fleira, okei 15 þús mínus 60.633 þá standa eftir 45.633 kr. Ég er með eitt skuldabréf, sem ég reyndar er að klára í desember sem er 17 þúsund á mánuði þá á ég eftir 28.633 krónur til að lifa á út mánuðinn. Sem þýðir, deilt í 30 daga, er samtals um 955 kr á dag og þetta er ekki alveg teljandi listi því ég er með flókinn sjúkdóm og á, í rauninni, að fara til lungna, hjarta, meltinga og innkirtlasérfræðings á ca. 3 mán fresti og það kostar slatta sem ég á ekki til. Ég verð því að sleppa því að fara og hitta læknana, heyri helst í þeim í síma. þá ætti ég líka að vera í sjúkraþjálfun lágmark 3x í viku vegna gigtar en hef ekki efni á því og það bara versnar ástandið á líkama mínum.

Getur þú sagt mér hvernig ég á að lifa af? Myndir þú lifa af á þessum peningum og geta ekki gert neitt, varla farið að heimsækja móður þína vegna þess að það er ekki til peningur fyrir bensíni á bíl, sem ég á nú ekki en gæti tekið þátt í að borga bensín hjá börnunum mínum, ekki ætlast ég til þess að þau keyri mig út um allt og ekki er ódýrt að fara með strætó sem ég reyndar get ekki út af meltingarvandamáli og móðir mín býr úti á landi.

Segðu mér hvernig mér á að líða vel og hvernig ég á að lifa af vegna þess að ég er að gefast upp það er svo einfalt. Þið skuluð bara hafa það hugfast að maður velur ekki að verða öryrki, fótunum er kippt undan manni og maður verður bara fangi á sínu heimili. Og svo eru jólin að bresta á og kvíðinn magnast upp hjá manni af því að maður á ekki fyrir jólamatnum og ég tala nú ekki um einhverjar litlar gjafir handa börnum og barnabörnum.

Kveðja frá örykja sem er að gefast upp.

SHARE