Óþolandi sviði á versta stað… hvað er til ráða?

Þetta er eitt af því sem ætti að vera bannað – að fá sveppasýkingu á einn næmasta stað líkamans sem á að vera frátekinn fyrir unað og ástarleiki, og já einstaka barneignir.

Leggöngin, Bínan, vinkonan, Dúllan eða hvaða nafn sem þú vilt nota yfir þína nánustu og bestu vinkonu geta verið útsett fyrir leiðindauppákomum svo sem eins og einhver brjálæðingur hafi hellt yfir hana bensíni og kveikt í. Skellt svo kláðaduft í sárið og rennt yfir með sandpappír. Óþolandi? Vissulega, yfirleitt eru þessi herlegheit tilkomin vegna þess að sveppur hefur náð sér á strik, og það er sem betur fer til fljótleg og áhrifarík lausn við því.

Til að losna við sýkinguna strax getur þú til dæmis keypt sveppalyf í apótekinu án lyfseðils, einn skammtur og vandamálið er fljótlega úr sögunni. En það borgar sig kannski að vita hvernig maður á ekki að koma fram við Bínu til að minnka líkurnar á því að lenda í þessu aftur og aftur.

Í fyrsta lagi, ef Bína er að að fá reglulegar heimsóknir á þessum viðkvæma tíma verður sá vinur „absolútt“ að vera með smokk. Annars geturðu lent í hringrás þar sem þú smitar hann og hann smitar þig svo aftur og aftur og aftur og aftur…. hvar var ég?

Svo verður Bína stundum að fá að vera frjáls og anda, alveg eins og við hinar. Sumum Bínum finnst kannski afskaplega gaman þegar fjötrar eru með í spilinu, en inn á milli þarf Bína að fá að anda, slappa af og láta ferska vinda leika um lokkana. Við mælum kannski ekki með því að þú stillir henni upp úti á götu, en það má kannski sleppa því að sofa í nærbuxum stöku sinnum.

Bína er líka þessi náttúrulega, lífræna týpa og alls ekki hrifin af sterkum ilmefnum, sápum og allt of mikilli afskiptasemi. Hún er nefnilega alveg frábær í því að þrífa sig sjálf, blessunin. Sumir hafa meira að segja líkt henni við sjálfhreinsandi ofn, þar sem góðu bakteríurnar, sem Bína á að hafa, framleiða sitt eigið sótthreinsiefni, vetnisperoxíð. Það á að duga, ásamt hreinu vatni, til að halda öllum óæskilegum aðskotahlutum í burtu, svo nægilegur tími og heilsa sé til að leika sér með skemmtilegri aðskotahluti.

Það mætti líka líta á það þannig að Bína, Dísa skvísa eða hvað þú vilt kalla hana sé sjálfstæð og sterk og sjái um sig sjálf. Ef við erum of duglegar við að skúra og spúla Bínu með alls kyns ilmum, sápum, spreyjum og óþarfa hreinsandi efnum, drepum við þessar góðu bakteríur sem eru bestu vinkonur Bínu, þannig að leiðindasveppir og bakteríur geta náð yfirhöndinni. Túrtappar, innlegg, dömubindi og hvaðeina rakadrægt sem er notað í óhófi geta líka gert Dísu skvísu lífið leitt.

Of mikið af því góða veldur því að slímhúðin getur þornað um of, sem þýðir að góðu bakteríurnar drepast. Dísa á að fá að vera rök og fín, þannig er hún heilbrigðust. Of mörg partý með of stuttu millibili geta líka valdið vandamálum. Sæði er nefnilega með allt annað sýrustig en leggöngin og getur haft þau áhrif að sýrustigið hækkar (verður minna súrt) og það ástand getur aftur valdið ofvexti sveppa. Leyfðu greyinu nú að ná andanum inn á milli!

Ef þú ert búin að prófa öll þessi venjulegu húsráð og jafnvel lausasölulyf, en ástandið kemur alltaf aftur og aftur gæti verið góð hugmynd að kíkja betur á matarræðið. Sykur er sérstaklega nærandi fyrir sveppi og gæti verið þjóðráð að sleppa honum fyrst um sinn. Kannski þarftu að taka góðan gerlakúr, en keyptu þá góða, vandaða blöndu sem seljandinn geymir inn í ísskáp. Gerlagaurar eru lifandi og þurfa að geymast við réttar aðstæður svo þeir séu stinnir og spriklandi. Ekki bjóða Bínu uppá eitthvað lint, dautt drasl, þú veist hún hefur ekki áhuga á svoleiðis.

Mundu svo líka eftir Bínu í þínu daglega lífi og hún mun verða þér ævinlega þakklát. Ef þú þarft af einhverjum ástæðum að taka sýklalyf, af hvaða gerð sem er, mundu þá að þau drepa líka góðu vinkonurnar í kjallaranum. Taktu alltaf góða gerlablöndu með sýklalyfjum, hugsaðu bara um það sem nauðsynlega „partýkokteilinn“ sem þarf til að halda uppáhalds skemmtistaðnum þínum heilbrigðum og góðum. Njóttu þess svo innilega að eiga flotta, hrausta og fína vinkonu og hún mun sjá þér fyrir góðri líkamsrækt og yndislegheitum næstu árin.

Góða skemmtun!

Unnur Alma Thorarensen, Hjúkrunarfræðingur.

SHARE