Óvirðing gagnvart gömlu fólki!

Það er alveg á hreinu að  inni á öllum ellistofnunum okkar er unnið geysigott starf. Starfsfólk er að langmestu leyti alveg prýðisfólk, ég hef mína eigin reynslu af því þar sem ég hef sjálf unnið þetta starf og þar voru margir sem voru til fyrirmyndar í sínu starfi. En auðvitað er innan um og samanvið fólk sem ætti að borga fyrir að koma ekki nálægt þeim sem geta ekki varið sig. Og gamalt fólk inni á stofnun getur einfaldlega ekki varið sig. Umönnunarstörfin eru láglaunastörf og þau eru erfið andlega og líkamlega. Finnst þér annars ekki merkilegt að störfin í samfélagi okkar sem snúa að varnarlausasta fólkinu okkar, börnum og gamalmennum skuli vera eins illa launuð og þau eru? Er það kannski vísbending um viðhorfin til þessara hópa?

Ég held að samtal starfsmanna við gamalt fólk sé oft vanhugsað. Ég var t.d. eitt sinn sem oftar stödd með ömmu minni hjá langömmu minni sem var orðin mjög öldruð og dvaldi á ónefndri stofnun þar sem var ágætlega um hana hugsað. Hún þurfti að fá aðstoð við að fara fram á snyrtingu. Ung og brosandi stúlka kemur inn og segir: eigum við að koma fram að pissa? amma mín sem alin var upp við að framkvæma þessa aðgerð í einrúmi svaraði að bragði: Já, farðu endilega fram að pissa ef þú þarft að gera það.  Stúlkan var ekki að tala við tveggja ára barn heldur konu á níræðisaldri. Einu sinni var ég með ömmu minni í matvöruverslun þar sem hún var að versla í matinn, þegar við komum að kassanum spyr afgreiðslukonan mig “vill HÚN poka” .. uuu spurðu hana!!
Annað dæmi.. þá var afi minn, sem var alla tíð virtur viðskiptamaður og frumkvöðull, orðinn mjög veikur og lá inni á spítala, þetta var rétt áður en hann dó, hann þurfti að fara á snyrtinguna og var búinn að hringja bjöllunni nokkuð oft, mamma mín (yngsta dóttir hans) sat hjá honum en hún var kasólétt svo hún treysti sér ekki í að fara með hann á klósettið, ásamt barnabarni hans. Þegar starfsmaður kemur loksins inn segir hún “það er bara svo mikið að gera hjá okkur, þú ert með bleyju, pissaðu bara í hana” fyrir framan dóttur hans og barnabarn, smekklegt?

Orð eru nefnilega ansi vandmeðfarin. Við höfum til skamms tíma látið orðið ellilaun líðast í vitund okkar. Hér er vísað til eftilauna sem vinnandi fólk hefur lagt inn fyrir samkvæmt kjarasamningum. Þegar kemur að starfslokum vegna aldurs tekur fók eftirlaun. Það er ekki flóknara. En það þurfti marga samræðufundi og bréf til að breyta þessu heiti sem skiptir máli að sé rétt.

Það fer fyrir brjóstið á sumu gömlu fólki þegar yngra fólk ávarpar það sem „væna mín“, „elskan mín“ o.s.frv.  Þessi ávörp eru áreiðanlega af góðum huga einum. En myndir þú ávarpa t.d. handboltakappa eða forsetann sem væni minn? Myndir þú klappa Ólafi Ragnari á herðarnar og segja: við skulum nú labba fram í sal, væni minn?   Ég veit fyrir víst að mörgu gömlu fóki finnst eitthvert yfirlæti í þessu en í aðstæðunum verður það að sætta sig við aðkomuna. Mætti ekki alveg eins segja t.d. það er kominn matur. Hvað segirðu um að koma fram með mér?

Gömlu fólki finnst oft að umhverfið sýni því ekki mikla þolinmæði eða tillitssemi. Svo getur það nú verið og það er kannski ágætt að hugsa til þess að flest verðum við einhverntímann gömul og gamla fólkið er fólkið sem hefur reynslu fram yfir okkur og hjálpaði til við uppbyggingu þess samfélags sem við lifum í í dag. Eldra fólk á skilið virðingu og því á að líða vel inn á stofnunum sem það neyðist oft til að fara á, það velja það fáir.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here