„Plís hættið að gaslýsa konur á breytingaskeiði sem hafa áhyggjur af fitusöfnun“

Það er svakalega gaman að fylgjast með og lesa pistlana hennar Röggu Nagla . Það er alveg óhætt að segja að hún „hittir oftast naglann á höfuðið“ þegar kemur að heilsu. Við rákumst á þennan frábæra og þarfa pistil um gaslýsingu kvenna á breytingaskeiðinu. Hægt er að lesa marga áhugaverða pistla á heimasíðu hennar ragganagli.com

Hæ! Getið þið plís hætt að gaslýsa konur á breytingaskeiði sem hafa áhyggjur af fitusöfnun að þær séu bara að hreyfa sig minna og borða meira.

Þegar estrógen, testósterón, estradiol lækkar í líkamanum á sér stað haugur af líffræðilegum og lífeðlislegum, sálrænum breytingum sér stað í skrokknum sem hafa áhrif á lífið það sem eftir er. Takk fyrir tíkall.

Líkaminn breytist oft í útliti og getu útaf hormónabreytingum.

Meiri fitusöfnun, kviðurinn gildnar, minna af vöðvum og erfiðara að halda skrokknum í formi.

Allt í einu virkar hreinlega ekkert sem þú gerðir áður.

Svo konur byrja að borða minna og æfa meira. Því það eru skilaboðin.

Estrógen lekur smám saman úr skrokknum eftir fertugt. En estrógen er anabólískt hormón (vöðvabyggjandi).
Þegar við rífum í járnið á sokkabandsárunum fyrir tíðahvörf hjálpar mikið magn estrógens að byggja og viðhalda vöðvum á grindinni.

Það er ekki bara estrógen og prógesterón sem verða miður sín á breytingaskeiðinu. Testósterón sem ekki var nú hátt fyrir hjá okkur kvensunum, dúndrast í sögulegar lægðir þegar hormónabreytingar taka yfir skrokkinn.

Í raun byrjar það að hríðlækka strax uppúr tvítugu.

Einkenni af lágu testósteróni í líkama kvenna eru:

Síþreyta
Orkuleysi
Skortur á hvata
Einbeitningarskortur
Hárlos
Minni vöðvastyrkur
Lækkuð kynhvöt
Þurrkur í kynfærum

Testósterón maskínan er í gangi á nóttunni eins og prentvélarnar hjá Mogganum.

Rannsóknir sýna að 67% kvenna segjast berjast við svefntruflanir. Þegar breytingaskeiðið mætir á svæðið uppúr fertugu fer svefninn oft enn lengra ofan í tojlettið. Hitaköst eins og Nixon í viðtali eftir Watergate trufla svefninn. Lækkað estrógen veldur svefnleysi, sem þýðir minni losun á vaxtarhormónum og það hefur áhrif á hvort líkaminn nær að jafna sig eftir æfingu með viðgerð á vöðvum til að gera þá sterkari og stærri.

Þegar svefninn er tættur og rofinn eins og hjá spörfugli, og þarf vökustaura til að halda augnlokunum opnum er erfitt að æfa af þeim krafti sem þarf til að ná árangri.

Á breytingaskeiði er líkaminn í streituástandi en of mikið Kortisól hefur áhrif á fitusöfnun á kvið því það er leið líkamans til að vernda fyrir mögulegri ógn.

Hátt kortisólmagn yfir langan tíma veldur hærri blóðsykri, hindrar niðurbrot á fitu og brýtur niður vöðva. Allt saman eitraður kokteill fyrir þá sem vilja missa mör af mallakút. Þær hamast eins og rolla á girðingarstaur í horuðum snæðingum og svitna eins og grís á teini í ræktinni, án þess að uppskera snefil af árangri.

Konur fara að fasta lengur og harðar, fjarlægja kolvetni og sleppa máltíðum sem eykur bara kortisólið, og hellir olíu á streitubálið sem þegar skíðlogar eins og áramótabrenna.

Þegar konur fá hormónauppbót og öðlast jafnvægi, byrja hlutirnir oft að rúlla og æfingaprógrammið og snæðingarnir fara að skila árangri.

Forbreytingaskeið og breytingaskeið er ekki endalok þess að vera fitt og í formi. Þetta er bara ný árstíð í lífinu og þar gilda aðrar reglur.

✅ Rífa í járnið. Til að byggja og viðhalda kjöti á grind þarf hormónabúskap eins og unglingur.

Rannsóknir sýna að hnébeygja með stöng losar mest af testósteróni í blóð og réttstöðulyftan nartar í hælana.

Í kjölfar viðskipta við stálið þarf testósterón að dúndrast upp, og hormónabúskapurinn í kvensunum verður í mun betra jafnvægi.

✅ Sofa í 7-9 tíma. Tileinkaðu þér góða rútínu fyrir svefn, keyrðu taugakerfið niður með rólegheitum, dimmt og ískalt svefnherbergi, magnesíum til að slaka á vöðvum og stuðla að dýpri svefni.

✅ Sprengiæfingar og lotuþjálfun. Konur missa sprengikraft hraðar með aldri en karlar, því við höfum lægra hlutfall af hvítu vöðvaþráðunum sem eru fyrir kraft og styrk. Þess vegna getur verið gott að skrúfa upp í ákefðinni í þolæfingum og hoppa og hamast í styttri tíma.

✅ Prótín í hverri máltíð. Fyrir viðgerð á vöðvum, viðhald á vöðvamassa, meiri seddutilfinningu yfir daginn. Konur þurfa meira af amínósýrum því þær nýta meira af þeim á æfingu en karlarnir.

✅ Prufa sig áfram með bætiefni eins og kreatín, L-theanine, Reishi sveppi, magnesíum, D-vítamín. Omega-3, Maca.

✅ Skoða hvort og hvaða hormónauppbót gæti hentað þér.

Settu tappa í eyrun og grímu fyrir augun næst þegar þér er innrætt samviskubit og sektarkennd yfir að gera ekki nóg.

SHARE