Ráðherra neitaði 6 ára dreng um örugga skólavist – „Við erum gjörsamlega að hrynja, líkamlega og andlega“

Móðir Ragnars Emils, hún Aldís Sigurðardóttir skrifaði þessa færslu á Facebook:

Þá er það komið á hreint, ráðherra neitaði syni mínum honum Ragnari Emil örugga skólavist í skólanum sínum. Þar hafið þið það, þið sem kusuð yfir okkur þessa nýju stjórn, þeim er skít, skít, skítsama um fólkið í þessu landi. Það eina sem þeir hugsa um eru völd, peningar og eiginhagsmunasemi. Greinilega það sem kjósendur þessara aula hugsa um líka. Ég bíð núna bara eftir því að sjálfstæða líf Ragnars og okkar fjölskyldunnar verði svipt frá okkur, líkurnar eru allavega ekki með okkur. Ég verð að búa mig undir það versta og veit hreinlega ekki hvernig við lifum þetta af, í alvöru talað, þetta er ekkert grín. Ég hef virkilegar áhyggjur af framtíð Ragnars og okkar hinna. Við erum gjörsamlega að hrynja, líkamlega og andlega. Ok, löngu hrunin reyndar og skil ekki hvernig við höldum okkur á floti. Bara svo þið vitið það, þið þröngsýna fólk, ég mun aldrei senda barnið mitt inn á stofnun, aftur. Hann er manneskja sem hefur fullan rétt á því að vera til í þessu samfélagi og fá að taka þátt í því líka. En miðað við fyrri reynslu virðist fólki vera skítsama, sérstaklega í ljósi þess hversu lítið af fólki sem ég þekki tekur upp hanskann fyrir fatlað fólk og samþykkir það sem er að gerast í þessu samfélagi. Það er í raun ógeðslegt. Opnið augun fólk, þessi mál koma okkur öllum við, við berum öll borgaralegar skyldur og siðferðislegar. Hvað er það í alvörunni sem stoppar ykkur?

Við hjá hún.is höfðum samband við Aldísi og sagði hún okkur að Ragnar Emil þarf aðstoð sérhæfðra hjúkrunarfræðinga sem fylgja honum í skólann svo öryggi hans sé ekki í hættu. Litli drengurinn notar öndunarvél og önnur tæki sem halda honum á lífi á hverjum degi. Það er mjög mikilvægt að vel sé fylgst með honum, allan sólarhringinn, því hann á auðvelt með að lenda í bráðum öndunarerfiðleikum.

Það gengur allt ótrúlega vel í skólanum, skólinn hefur tekið einstaklega vel á móti honum og fær hann mjög góða þjónustu þar. Vandamálið er öryggið sem hann þarfnast til þess að geta verið þar. Hjúkrunarþörfin er heilbrigðismál og fórum við á fund ráðherra, eftir margar aðrar leiðir sem við fórum og marga veggi sem við gengum á, og óskuðum eftir því að Ragnar fengi fjármagn til þess að ráða inn hjúkkur sem gætu farið með honum í skólann. Þetta er semsagt lífsspursmál. En ráðherra neitaði því og virðir skólaskyldu hans ekki að vettugi,“ segir Aldís.

„Í dag sendum við hjúkrunarfræðinga í skólann og ég fer á móti þeim en við greiðum þeim laun fyrir það með því að skerða verulega á öðrum þjónustusamning sem hann er með, þ.e. sólarhrings NPA samnings sem gerir eingöngu ráð fyrir ófaglærðu fólki. Þar með erum við að fá mun minni þjónustu en áður út af því að kostnaður við að ráða inn hjúkrunarfræðinga er hár og miklu hærri en samningurinn okkar gerir ráð fyrir,“ segir Aldís að lokum.

Hvað finnst ykkur lesendur góðir um svona mál?

 

 

SHARE