Rauðir hundar

Rauðir hundar (Rubella) eru veirusjúkdómur alveg eins og mislingar og hlaupabóla en ekki stafar eins mikil smithætta af sjúkdómnum eins og af mislingum og hlaupabólu.

Óbólusettir fá yfirleitt mislinga snemma á lífsleiðinni en aftur á móti geta  óbólusettir fengið rauða hunda fram eftir öllum aldri. Hjá sumum er sjúkdómurinn svo vægur að hann greinist ekki sem rauðir hundar.

Í dag eru flest börn á íslandi bólusett gegn rauðum hundum og mislingum.

Hver er orsökin?

Veiran sem orsakar rauða hunda berst með úðasmiti, þ.e. smitast á milli manna með örsmáum dropum sem eru í útöndun. Droparnir berast til munnsins, hálsins og nefsins og þaðan um allan líkamann.

Hver eru einkennin?

  • Tíminn frá smiti þangað til sjúkdómurinn segir til sín er nokkuð langur, 2-3 vikur.
  • Áður en útbrotin myndast geta eitlarnir í hnakkanum bólgnað og orðið aumir.
  • Útbrotin lýsa sér sem litlir rauðir eða brúnleitir blettir á handleggjum og fótum. Útbrot í andliti og jafnvel á búk renna fljótlega saman.
  • Útbrotin byrja yfirleitt umhverfis eyrun en breiðast hratt um líkamann. Þetta getur gerst á klukkutíma. Þau hverfa aftur eftir 2-3 daga.
  • Sjúkdómseinkennin geta verið svo væg að viðkomandi finnur ekki fyrir þeim.

Hver er meðferðin?

Ekki er þörf á sérstakri meðhöndlun nema kannski að fólk hafi hægt um sig meðan sjúkdómurinn líður hjá. Þess ber að gæta að allir sem eru undir sama þaki og barnið eru í smithættu. Það ber að hafa í huga að sjúkdómurinn er smitandi strax á meðgöngutímanum. Mikil hætta er á smiti vikuna áður en útbrotin birtast og í viku eftir að þau eru horfin en mest þegar sjúkdómurinn nær hápunkti. Þú færð rauða hunda einungis einu sinni á ævinni.

Þrátt fyrir að ekki sé talið æskilegt að umgangast fólk með smitsjúkdóma má segja að rauðir hundar séu þar undantekning. Hins vegar er ekki æskilegt að óléttar konur umgangist sjúklinginn. Hvað stúlkur varðar er kostur ef þær hafa fengið rauða hunda fyrir gelgjuskeiðið.

Stafar hætta af rauðum hundum?

Rauðir hundar geta valdið fósturskaða. Hættan er það mikil á fyrstu þrem mánuðum þungunarinnar að mælt er með fóstureyðingu. Þetta hljómar óhugnanlega, en er sem betur fer ekki algengt þar sem flestar konur hafa verið bólusettar gegn rauðum hundum.

Hvern á að bólusetja?

  • Mikilvægt er að allar stúlkur séu bólusettar fyrir þungun gegn rauðum hundum. Í dag er öllum börnum boðin bólusetning gegn rauðum hundum.
  • Ekki er alltaf hægt að segja til um hvort fólk hafi fengið rauða hunda þar sem sjúkdómurinn gerir ekki alltaf vart við sig.
  • Ef vafi leikur á má skera úr um það með því að leita að mótefnum í blóðinu. Einnig getur læknir bólusett einstaklinginn.
  • Stúlkur sem eru bólusettar gegn rauðum hundum mega ekki verða óléttar næstu þrjá mánuðina.

Eru einhverjir fylgikvillar?

Rauðir hundar tengjast sjaldan fylgikvillum og óhætt er að hleypa börnum út um leið og þau hafa náð bata.

Fleiri flottar heilsutengdar greinar á doktor.is logo

Tengdar greinar:

Sjálfskoðun brjósta í fimm þrepum

Kynlíf og krabbamein

5 merki þess að þú ættir að hringja þig inn veika/n í vinnuna

Myglusveppur í íslenskum húsum hefur verið orsök hræðilegra veikinda hjá fólki

SHARE