Rauðrófur – allra meina bót?

Hráar rauðrófur eru stútfullar af næringarefnum, þær innihalda meðal annars C og A-vítamín, magnesíum, fólinsýru, járn, kalíum, fosfór, trefjar og nítrat. Eins eru þær sneisafullar af andoxunarefnum. Rauðrófur innihalda mikið magn nítrata sem auka úthald og orku, rauðrófur eru því góður kostur fyrir þá sem stunda líkamsrækt. Neysla rauðrófna eykur blóðflæði, lækkar blóðþrýsting og með því að drekka 250 ml af rauðrófusafa daglega er hægt að minnka líkurnar á hjartasjúkdómum.

Betalain er litarefnið í rauðrófum og styður það við afeitrun líkamans. Andoxunarefnið betalain ýtir undir hreinsun blóðsins og lifrarinnar. Einnig hefur það góð áhrif á kólestról. Rauðrófur innihalda líka mikið af næringarefninu betaine. Betaine dregur úr bólgumyndun, eflir æðakerfið, verndar frumur líkamans og innri líffæri.

Hægt er að neyta rauðrófna á margvíslegan hátt. Það má borða þær hráar, sjóða, steikja, súrsa, setja út í drykki eða þeytinga og rífa þær yfir salat.

Birtist fyrst í amk, nýju fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE