Rebekka Sif: „Ég gat aldrei ímyndað mér neitt annað en að syngja”

Rebekka Sif er 22 ára söngkona og lagasmiður, ættuð úr Garðabænum og gaf nýverið út lagið Dusty Wind sem er með blúsuðu rokk / poppívafi en hún er höfundur bæði laglínu og texta.

Rebekka mun koma fram á Off-venue á Icelandic Airwaves með hljómsveit sinni sem samanstendur af þeim Rebekku, Aroni Andra Magnússyni, Sindra Snæ Thorlacius og Helga Þorleikssyni. Í sumar gaf Rebekka einnig út lagið Our Love Turns to Leave sem fékk góðar móttökur en lagið tók Rebekka upp sjálf gegnum Skapandi sumarstörf í Garðabæ. Rebekka stundar nám við jazz- og rokksöng í Tónlistarskóla FÍH og leggur stund á bókmenntafræði í Háskóla Íslands en hún kennir söng samhliða öðru námi í Sönglist og Klifinu.

HÚN lagði nokkrar spurningar fyrir Rebekku og fékk að hlýða á nýútkomið lag hennar, Dusty Wind, sem einnig má heyra hér að neðan. Facebook síða Rebekku er HÉR, en við gefum Rebekku orðið:

1. Hversu snemma kviknaði söngáhuginn?

Ég var nú bara 6 ára þegar ég heimtaði að fara á söngnámskeið hjá Siggu Beinteins og Maríu Björk, fyrir það söng ég í hárbursta vinsælustu Britney Spears lögin. Þannig að áhuginn er í rauninni bara meðfæddur! Ég gat aldrei ímyndað mér að gera neitt annað en að syngja.

 

 

1947994_445461322248578_73620334_n

 Rebekka tók upp lagið Our Love Turns to Leave gegnum Skapandi Sumarstörf í Garðabæ 

2. Hvers kyns tónlist höfðar mest til þín og af hverju?

Það sem ég hlusta mest á er indie, folk, rokk, blús og popp. Ég er að fíla Hozier, Alt-J, The Black Keys og Arcade Fire mest í augnablikinu og hafði einmitt þann draum um að rokka tónlistina mína aðeins upp eins og má heyra í laginu Dusty Wind. Textar og fílingur skipta mig miklu máli þegar ég hlusta á tónlist, ég vil heyra eitthvað sem vekur áhuga minn og heldur honum. Raddir heilla mig einnig upp úr skónum, líkt og með Hozier, hann er með æðislega flotta blúsaða rödd og beitir henni svo skemmtilega.

10154991_478625355598841_7652711745908927457_n

Rebekka treður upp á Hlemmi: – „Without music life would be a mistake” — Nietzsche

3. Hvað er framundan – þú kemur fram á Airwaves – eru fleiri tónleikar í aðsigi?

Ég kem fram sjö sinnum Off-venue á Iceland Airwaves, þrisvar sinnum með bandi og fjórum sinnum aðeins með gítarleikara og þá mun ég sjálf spila á ukulele eða taka í tamborínuna. Ég er einnig að syngja á Jazz tónleikum á sunnudaginn á Forréttabarnum ásamt Aroni Andra og hljómsveit. ég er í FÍH og er því að syngja jazz til hliðar við frumsamda efnið mitt. Eftir allt brjálæðið í næstu viku ætla ég að leyfa mér að taka smá tónleikapásu, en svo eru jólatónleikar á dagatalinu hjá mér þann 8. desember á Rósenberg.

IAbanner

Hér má sjá ágrip af Off-venue tónleikum Rebekku á Airwaves í nóvember

 

4. Má reikna með útgáfu frá þér fljótlega?

Ætli það ekki! Draumurinn er að gefa út plötu á næsta ári ef allt gengur upp og ég fæ góðar viðtökur á Airwaves. Ég vil einnig gefa mér smá tíma í að útsetja lögin mín betur með hljómsveitinni og leyfa mér að gera smá tilraunir með tónlistina þar sem svo margir möguleikar hafa opnast nú þegar ég er komin með hljómsveit. Ég var alltaf bara ein að spila á gítarinn sjálf, þannig þetta er orðið allt annað líf! Ég er ekkert smá ánægð með þessa stefnu, en fyrstu tónleikarnir sem ég spilaði með bandi voru einmitt miðvikudaginn 29. október á Rósenberg.

 

Skúrinn2

Rebekka í hljóðveri ásamt hljómsveit sinni 

 

5. Um hvað fjallar lagið Dusty Wind – semur þú bæði texta og laglínu sjálf?

Dusty Wind samdi ég fyrir sirka ári þegar mig vantaði að losa mig við skugga úr fortíðinni sem voru að halda mér niðri. Ég var sérstaklega hrifin af líkingum og fyllti textann á laginu af þeim, lagið tekur mig inn í algjörlega annað umhverfi þegar ég syng það. Ég sem öll lög sjálf, bæði melodíu og texta. Það eru til ófá ljóð og sögur eftir mig sem ég skrifaði sem krakki og unglingur sem þróuðust svo í lög.

 Hér má hlýða á nýútkomið lag Rebekku, Dusty Wind: 

 

SHARE