Réttu viðbrögðin við spurningum barna um holdafar

Ég rakst á grein inn á íslenska vefmiðlinum Pjatt.is þar sem móðir sagði frá reynslu sinni þegar 9 ára barnið hennar spurði hvort hún væri með mikla fitu.

Viðbrögð móðurinnar við spurningu barnsins vöktu upp hjá mér spurningar um það hvernig væri best að bregðast við í svona aðstæðum.

Nú er ég ekki mamma en ég á litlar frænkur sem líta upp til mín og ef þær myndu spyrja mig slíkt hið sama þá vil ég geta gefið þeim uppbyggilegt svar.Ég hef glímt við búlimíu og geri mér því mjög vel grein fyrir því hversu viðkvæmt mál þetta er.

Móðirin á Pjatt.is brást við eftir bestu getu og með mikilli umhyggju en eins og hún segir þá var þetta bara tímaspurmál hvenær þessi spurning kæmi því íslenskt samfélag er mjög litað af umræðum um megranir, offitu, þyngd og útlit.

Á breska vefmiðlinum bbc.co.uk rakst ég á góða grein, sem var skrifuð eftir að dálkahöfundur hjá tímaritinu The Times greindi frá því að hún hafi neyðst til að taka dóttur sína úr balletttímum þegar dóttir hennar neitaði að borða.
Fyrsta ráðið sem greinin á vef BBC gefur foreldrum, er að einblína frekar á það af hverju barnið sé að spyrja um það hvort það sé of feitt, frekar en að fara beint í það að tala barnið ofan af því að það sé feitt.
„Hvað veldur þessari breytingu hjá barninu að það er farið að hafa áhyggjur af holdafari sínu?“
Stundum getur það verið að eitthvað hafi gerst í skólanum eða barnið hafi séð eitthvað í sjónvarpinu sem vakti upp slíkar spurningar. Þyngdaráhyggjur barna geta einnig verið tímabundnar.

Höfundur greinarinnar bendir á að stúlkur líta upp til mæðra sinna. Það gerir það að verkum að viðhorf mæðra til síns eigin líkama geti endurspeglast í viðhorfum barna þeirra.
Þrátt fyrir að ég sé ekki móðir sjálf þá hvet ég alla foreldra til að fræða sig um þessi mál því það getur skipt sköpum hvernig hlutir eru orðaðir sérstaklega þegar það kemur að jafn viðkvæmu málefni og þessu.

SHARE