Ríkissaksóknari hefur ákært lögreglumann fyrir líkamsárás og harkalega handtöku

Fyrr í sumar birtum við myndband af lögreglumanni sem þótti beita konu miklu harðræði við handtöku. Myndbandið getur þú séð hér.

Vísir.is greinir frá því í dag að ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur lögreglumanninum. Lögreglumaðurinn hefur verið ákærður fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi. Íbúar á Laugarvegi náðu atvikinu á myndband. Myndbandið birtist á Facebook og gekk manna á milli þar til það rataði í alla helstu fréttamiðla landsins. Á myndbandinu má sjá lögreglumanninn draga konuna eftir götunni þar til hún skellur utan í bekk, því næst þrýstir hann hnénu í bak hennar og handjárnar hana.

Ákærði hefur ekki móttekið stefnuna og þar af leiðandi hefur honum ekki enn verið birt ákæran og því er ekki hægt að greina frekar frá innihaldi hennar.

Ekkert óeðlilegt við handtökuna – lögreglumaðurinn notaði norskt handtökukerfi

Formaður Landssambands lögreglumanna, Snorri Magnússon sagði í viðtali við Vísi fyrr í sumar að lögreglumaðurinn hefði beitt viðurkenndum aðferðum, hann talaði um að lögreglumaðurinn hefði notað norskt handtökukerfi og að það hafi verið óheppilegt að bekkurinn hefði verið þarna. Hann sagði að atvikið liti verr út á myndbandi en það í raun og veru var og að handtakan hafi ekki verið óeðlileg. Eftir þessi ummæli Snorra var mikið rætt um norsku aðferðina, sem er mjög umdeild.

 

SHARE