Sælla er að gefa en þiggja

Jólin, þessi dásamlegi tími,  tími sem á að minna okkur á kærleikann og þá sem minna mega sín.

Erum við að tapa innihaldi jólanna í markaðsetningu kaupmanna um kostakjör á einhverjum bráðnauðsynlegum hlutum, sem engin skyldi láta fara fram hjá sér og að sjálfsögðu getum við ekki lifað án allra þessara bráðnauðsynlegu hluta!

Eða hvað?

Snýst jólahátíðin um veraldlega hluti eða flottustu skreytingarnar eða einfaldlega að njóta samveru með sínum og láta örlítið gott af sér leiða?

Ég játa það skammlaust að hafa prófað bæði.

Jól þar sem ég eyddi um efni fram í flottar gjafir, jólaskraut og mat. Var marga mánuði að borga jólin sem stöldruðu við í stuttan stanz, bara jafnlengi og alltaf.

Ég hef líka kviðið jólunum og ekki vitað hvernig ég ætti að kaupa jólamat eða gjafir fyrir börnin.

En ég hef líka upplifað jólakraftaverk þar sem 1180 englar í mannsmynd lögðu saman í púkk fyrir fjölskylduna, þegar við áttum ekkert og krabbamein nr 3 át upp fjárhaginn.

Með auknum þroska (við nefnum ekki aldur) hefur þetta breyst og allt þetta bráðnauðsynlega veraldlega dót er orðið algerlega aukaatriði. Jólin ganga út á góða samveru með mínum, kærleiksverk og örlítið betri mat en venjulega. Það er aukaatriði hvort það sé ryk þar og drasl hér. Jólin mæta og þeim er sléttsama um smá drasl, andinn þeirra gengur út á gleði og kærleika.

Það er aðventan sem er aðalmálið hjá mér í dag, að njóta aðvetunnar og nýta hana vel til góðra verka. Ég legg mikið upp úr því að hitta börnin mín og barnabarn á þessum tíma, eiga gæðastund með bóndanum, tengjast betur vinum og rækta samband við stórfjölskyldu. Því það dýrmætasta í heimi hér er fólkið mitt og að skapa minningar með þeim.

Nú þegar hraðinn er svo mikill og samskiptaform svo breytt með tilkomu samfélagsmiðla þá eru það samverustundirnar sem eru bráðnauðsynlegar inn í mitt líf.  Svona alvöru samvera 😉

Að gefa samveru í jólagjöf er líka að mínu mati alger snilld t.d kaffihúsahitting eða bíóferð. Síðastliðin ár hef ég gefið til góðgerðamála fyrir jól og þá til einhverra sem aðstoða þá efnaminni við að halda jól og það eru stærstu gjafirnar mínar að geta gefið í slíkt. Þar sem við höfum upplifað jólakraftaverk þá er ég sannfærð um að ef ég gef áfram að einhver annar upplifi jólakraftaverk og það er ekkert stærra en að taka þátt í kraftaverki.

Það er ótrúlegt hvað margt smátt getur gert eitt stórt í lífi einhvers.

Ég hvet alla þá seem geta að gefa gjöf sem gefur betra líf.

Ást og friður

SHARE