Samstarf postulínsverksmiðjunnar Kahla og Myndlistarskóla Reykjavíkur

Ljósmynd: Harpa Sif

Nemendur í Mótun við Myndlistarskóla Reykjavíkur hafa undanfarin ár farið í námsferð til Postulínsverksmiðjunnar Kahla í Þýskalandi með það að leiðarljósi að kynnast framleiðsluaðferðum á postulíni. Sú var líka raunin þetta árið og í framhaldi unnu nemendur verkefni í samstarfi við Kahla.

Postulínsverksmiðjan Kahla var stofnuð árið 1844 og er í dag ein sú tæknilegasta í heimi. Framleiðsla verksmiðjunnar á postulínsborðbúnaði hefur verið seld í gegnum tíðina víðsvegar um heiminn og þar á meðal hér á Íslandi. Samstarfið byggðist á að nemendur hönnuðu og þróuðu vöru úr postulíni fyrir verksmiðjuna sem tengdist vörulínunni Atelier sem Kahla framleiðir.
 Leitast var eftir frumlegri og persónulegri nálgun nemenda í hugmyndavinnunni en útkoman er vara úr postulíni sem hentar til fjöldaframleiðslu.
Markmið verkefnisins er að gefa nemendum tækifæri á að kynnast raunverulegum heimi hönnunar þegar kemur að fjöldaframleiðslu á postulíni ásamt því að vinna í samstarfi við fyrirtæki í fremstu röð í heiminum.

Mótun er tveggja ára diplómanám í keramiki þar sem lögð er áhersla á frjótt vinnuferli og að nýttir séu til hlítar margvíslegir möguleikar í efnum og aðferðum. Eins og segir á heimasíðu Myndlistarskóla Reykjavíkur þá er horft til framtíðar í náminu en aðferðir og hefðir fortíðar hafðar að leiðarljósi. Markmið námsins er að nemendur öðlist þá færni sem þarf til að  hasla sér völl sem sjálfstætt starfandi hönnuðir. Þá er horft til raunhæfra tengsla og tenginga við ýmsar greinar og fyrirtæki í atvinnulífinu, ásamt þekkingu á menningu og viðskiptaumhverfi samtímans. Í framhaldi af diplóma námi sínu gefst nemendum í Mótun kostur á framahldsnámi við samstarfsskóla erlendis til að ljúka BA námi.

SHARE