Sársauki við samfarir

Karlmenn finna sjaldan fyrir sársauka við samfarir, nema þeir hafi of þrönga forhúð eða bólgur í blöðruhálskirtli eða eistum. Verkir við samfarir eru algengari hjá konum. Þeir eru flokkaðir eftir staðsetningu í ytri verki, ef þeir eru í legopi eða leggöngum – og innri verki umhverfis leg, eggjastokka og eggjaleiðara – eða jafnvel í öllum neðri hluta mjaðmagrindarholsins.

Um hvers konar verki getur verið að ræða?

 • Talað er um árekstrarverki. Það er sársauki, sem konan fær þegar limurinn rekst á aumt svæði í legopi eða í skeið – alltaf eða við ákveðnar stellingar.
 • Verkir sem koma við fullnæginguna.
 • Verkir, sem konan fær eftir á – jafnvel daginn eftir.

Hvað veldur sviða eða skerandi sársauka í legopi?

 • Ef verkir, sviði eða sárindi er í legopi og leggöngum gæti verið um að ræða sveppa- eða bakteríusýkingu í kynfærum eða þvagfærum. Læknisskoðun sker úr um hvernig á að meðhöndla þetta.

Hvað veldur verkjum og samdrætti í legopi?

 • Verkir og samdráttur í legopi, þegar vöðvarnir dragast saman og hindra samfarir, kallast vaginismus eða skeiðarkrampi. Þetta er ekki raunverulegur krampi. Aðeins ósjálfráðir vöðvasamdrættir sem koma oft í ljós í fyrsta sinn sem kynmök eru reynd og getur versnað við endurteknar misheppnaðar tilraunir, vegna þess að öryggisleysi og þverrandi sjálfstraust valda vaxandi samdrætti.
 • Ef þessi vandi kemur upp þarf konan að leita til heimilislæknis og hugsanlega kvensjúkdómalæknis ásamt maka sínum. Þetta er ekki bara vandamál konunnar heldur beggja aðila sem þurfa að vera saman.

Hvað er gert við sársauka og samdrætti í legopi?

 • Meðferðin er svokölluð sjálfsútvíkkun (autodilatation) eða útvíkkun með plaststautum sem eru misstórir og misþykkir og er honum stungið inn í leggöngin í rólegheitum heima og án þeirrar viðbótarspennu, sem fylgir kynlífi. Þegar konan hefur náð tökum á þessu, á kærastinn að reyna að tileinka sér þetta, því hann er að sjálfsögðu jafnhræddur og þú við sársaukafullar samfarir.
 • Víkkað er út án þvingunar og sársauka og tilgangurinn er að kenna vöðvunum í skeiðaropinu að slaka á þegar einhverju er stungið þar inn og á auk þess að örva sjálfstraustið og fá konuna til að trúa að þetta sé hægt.

Hvað veldur árekstrarverkjum?

 • Árekstrarverkir geta orsakast af sýkingu, vatnsblöðru á eggjastokki, afturbeygðu legi eða legslímuvillu (endometriosis).

Hvað veldur sársauka við samfarir og fullnægingu?

 • Sársauki við og eftir fullnægingu er yfirleitt staðbundin í aumum vöðvum í grindarholsbotninum. Vöðvum sem konan er ekki sjálf fær um að meta og þreifa á og nær ekki að stjórna eins og öðrum vöðvum, með því að spenna þá eða slaka á.
 • Staðbundnar breytingar í snípnum eða leginu eru einnig mögulegar orsakir.
 • Til dæmis eru verkir algengir fylgifiskar móðurlífsbólgu. Bólgurnar geta hjaðnað á viku, en verkir í legi halda áfram – og ekki síst við samfarir.

Hvernig eru vöðvaverkir við samfarir meðhöndlaðir?

 • Ef mikið álag er vegna vinnu, fjölskyldumála eða kynferðismála er eðlilegt að bregast við með því að spenna vöðva, ómeðvitað, í móðurlífinu. Í samförum verður álagið of mikið og kemur fram sem krampakenndir verkir í samförum eða á eftir þeim – einnig daginn eftir.
 • Verkja- og gigtarlyf geta linað þrautirnar, en lækna ekki kvillann.
 • Það er áríðandi að láta kvensjúkdómalækni skoða sig. Slík skoðun gæti tekið af grun um að verkirnir stafi af sjúkdómi eða sjúklegu ástandi, og læknirinn getur þá vonandi sannfært konuna um að hún sé aum í vöðvunum.
 • Heldur flóknara er að leita orsaka verkjanna. Oftast má finna ástæðuna utan líkamans. Það þarf líka að læra að beita vöðvunum rétt og markvisst sjúkraþjálfari eða leiðbeinandi í slökun sem læknirinn vísar á, gæti bent á rétta leið.

 

Fleiri heilsutengdar greinar á doktor.is logo

SHARE