Sérhver reynsla er dýrmæt

Ég var spurð að því um daginn hvort ég væri svona athyglissjúk af því ég skrifa svo oft pistla út frá eigin reynslu. Ég leit á viðkomandi og sagði:

„Þeir sem þekkja mig vita að ég er með öllu athyglissjúk og nýt þess að hafa hátt, en pistlarnir mínir fara út í cosmosið með þá von í hjarta að þeir hjálpi einhverjum.“

Ég tel mig vera lánsama konu að hafa fengið að lifa svona fjölbreyttu og á köflum erfiðu lífi. Ég hef fengið allskyns verkefni upp í hendurnar sem hafa bæði verið erfið og þroskandi, já og það hafa komið tímabil þar sem mér hefur fundist lífið vonlaust og hreinlega ekki nennt þessu veseni.

Ég er svo heppinn að vera þannig gerð að ég hika ekki við að leita mér hjálpar ef ég þarf á henni að halda og það er að ég tel einn mesti styrkur sem ég bý yfir. Það að gefast ekki upp heldur vinna sig í gegnum erfiðu verkefni lífsins er stór gjöf, það hefur gert mig að því sem ég er og gefið mér skilning sem ekki allir fá.

Oft hefur reynsla annarra hjálpað mér og þar sem ég hef bæði nýtt mér fagaðstoð sem snýr að því að fólk með sömu reynslu kemur saman í grúppuvinnu og vinnur þannig með þau verkefni sem verið er að takast á við og verið fagaðili sem er með fólk í þesskonar meðferðarvinnu.

Ég hef svo líka alla tíð alveg frá því ég lærði að skrifa nýtt mér pennann til þess að vinna úr mínu og með auknum þroska hef ég lært að horfa á verkefni lífsins sem þroskandi áskoranir.

Í hjarta mínu er ég þakklát þeim sem gáfu mér af sinni reynslu, von, hugrekki og styrkin til þess að halda áfram.

Lífið er ekki alltaf létt en með jákvæðu hugarfari má létta mjög erfið verkefni og með þakklæti í huga má sjá birtuna gægjast fram.

Alveg sama hvað lífið er snúið og erfitt er eitthvað þakkarefni sem getur hjálpað manni að halda í jákvæðar hugsanir.

Lifið heil og njótið.

SHARE