Það að veita barninu ekki athygli og leyfa því að gráta/væla heima hjá sér er auðveldara að framkvæma en þegar ber á skapofsakasti á fjölförnum stað.  Það er bæði stressandi og mörgum finnst skammarlegt að lenda í þessu fyrir framan múg og margmenni.  Það er samt fullkomlega eðlilegt að barnið missi stjórn á sér á fleiri stöðum því barnið getur lent í því að pirrast hvar sem er.  Það að eiga stjórnlausa barnið í búðinni gerir þig ekki að óhæfu foreldri og í raun hafa flestir foreldrar lent í svona atviki og skilja þig því mætavel.

Ég hef nokkrum sinnum lent í svona atviki, eitt sinn lenti ég í því að barnið mitt lá á gólfinu í mjólkurkælinum í Bónus í frekjukasti því það fékk ekki eitthvað sem það langaði í, hafði ekki fullkomna stjórn á aðstæðum svo það lagðist í gólfið og sparkaði höndum og fótum í allar áttir og öskraði.  Ég átti mjög erfitt með mig og sá að fólk var farið að horfa á mig á milli hillnanna í kælinum.  Ég var með yngra barnið mitt með mér, fulla innkaupakörfu af vörum og veskið neðst í körfunni og hafði því ekki tök á að færa barnið úr aðstæðum þannig að ég bara beið.  Þetta tók tíma, svita og smá glott en svo áttaði barnið sig á því að ég var ekkert að fara að breyta skapi né skoðun svo á endanum sá það ekki ástæðu til að halda þessu áfram sem betur fer.

Önnur leið ef möguleiki er á er að taka barnið úr aðstæðum með því að taka það upp og fara með það á rólegan stað, eins og út í bíl eða á baðherbergið ef það er til staðar.  Haltu barninu þéttingsfast með faðmlagi svo enginn meiði sig alveg þangað til að barnið hefur náð að róa sig niður.

Aldrei gefa eftir með því að gefa barninu það sem hóf  skapofsakastið til að byrja með því þá ertu að umbuna fyrir slæma hegðun og barnið fær röng skilaboð og mun að sjálfsögðu aftur haga sér eins í næstu búðarferð. Ræðið svo við það eins og þið mynduð gera heima um það hvað hafði gerst en munið að vera róleg og með yfirvegaðan tón í röddu.

 

Tengdar greinar: 

Sjálfstæðisbaráttan „Terrible two“ – 1. hluti

Er til hin eina rétta uppeldisaðferð? – Áhugaverðir þættir um mismunandi uppeldisaðferðir

Næturvæta er algengari en fólk grunar

SHARE