Sjálfstæðisbaráttan „Terrible two“ – 4. hluti

Agaðu barnið

Til þess að hægt sé að kenna barni muninn á réttu og röngu og veita því öruggt umhverfi þá þarf það aga.  Öll börn þurfa aga, en það er alveg einstaklingsbundið hve mikinn aga þau þurfa.  Sum börn þurfa ramma sem þau mega alls ekki stíga út fyrir, meðan önnur þola sveigjanleika betur.  Þrátt fyrir að agi sé mikilvægur þá er nauðsynlegt að gefa börnum lausan tauminn annað slagið.  Þau þurfa svigrúm til að finna sig sjálf og þurfa að læra að taka eigin ákvarðanir.

Besta leiðin sem ég hef fundið til að halda í sjálfstæði barnanna án þess að allt fari í vitleysu á hverjum degi er að gefa þeim tvo valkosti af því sem í boði er.  T.d. hvort viltu fara í Rauðu buxurnar og kanínubolinn eða gráa kjólinn og sokkabuxur, eða hvort viltu epli eða mandarínu þegar við komum heim úr leikskólanum.  Ég forðast að gefa þeim opnar spurningar sem getur aukið á pirringinn því kisubuxurnar eru í þvottavélinni eða af því að sælgæti er ekki í boði.

Þó að aldursbilið frá tveggja til fjögurra ára geti tekið vel á foreldrana þá er þetta mikilvægt tímabil í lífi barns til að þróa sjálfstæði þess.  Er því mikilvægt að halda þessu tímabili eins jákvæðu og skemmtilegu og hægt er.  Gefðu barninu frelsi en um leið hjálpaðu því ef það þarf á þér að halda.  Ef þú sérð að barnið er að pirrast hjálpaðu því að finna leið til að komast yfir pirringinn áður en skapofsakastið tekur yfir.  Komdu því úr aðstæðum með því að fara með það á rólegan stað, farðu í göngu eða hlaup til að fá útrás fyrir reiðinni eða gefðu því faðmlag ef það er það sem barnið þarf.  Barnið mun búa að því að hafa lært á eigin tilfinningar á unga aldri.

 

Tengdar greinar:

Sjálfstæðisbaráttan „Terrible two“ – 3. hluti

Sjálfstæðisbaráttan „Terrible two“ – 2. hluti

Sjálfstæðisbaráttan „Terrible two“ – 1. hluti

 

SHARE