Skápatiltekt: Henda eða halda?

Er ekki gráupplagt að nýta komandi helgi í dálitla tiltekt í fataskápnum? Jú, það hefði ég haldið. Sjálf er ég safnari af verstu gerð – þeirri allra verstu. Sérstaklega þegar kemur að einhverju fatakyns. Ég á mjög erfitt með að losa mig við föt. Ég er alltaf handviss um að einn daginn komi tækifærið til þess að nota þau. Nú eða líkamsformið til þess að passa í þau. En árin (sem óþægilega fljótlega verða 30 talsins) hafa kennt mér að þessi dagur kemur yfirleitt ekki. Bara alls ekki.

Ég hef þess vegna nýlega tileinkað mér að taka reglulega til í öllum skápum og skúffum. Fara yfir allt. Henda, gefa eða selja.

Þessi spurningarlisti þykir mér ákaflega nytsamlegur í skápatiltektinni:

Hef ég farið í flíkina síðasta árið eða svo? Oprah vinkona mín Winfrey segir einmitt, ef þú hefur ekki notað það í ár, áttu aldrei eftir að nota það aftur.

Líður mér vel í þessu? Til hvers að eiga föt sem eru óþægileg eða láta manni líða illa á einhvern hátt. Lífið er of stutt fyrir svoleiðis bull.

Passa ég í þetta? Ah, já. Þessi ömurlega spurning. Til hvers að hafa flíkur í skápnum sem passa ekki? Tilgangslaust með öllu. Jú og almennt ferlega svekkjandi.

Í hvaða ásigkomulagi er flíkin? Ertu að halda upp á eitthvað götótt? Með biluðum rennilás? Íhugaðu vel og vandlega hvort þú komir einhvern tímann til með að láta laga það. Ef ekki – út úr skápnum með þetta.

Passar flíkin við eitthvað annað sem þú átt? Eða dúsir hún ávallt í skápnum af því hún passar engu öðru þar?

Farðu yfir fataskápinn með þessar spurningar að leiðarljósi. Ef svarið við einhverjum þeirra er neikvætt þá veistu hvað þú átt að gera. Ruslið (fyrir það sem á enga möguleika á framhaldslífi), Rauði Krossinn eða bás í Extraloppunni.

organized-closet

Tengdar greinar:

Svona skipuleggur þú skart og aðra fylgihluti í fataskápnum – Myndband

Svona brýtur þú handklæðin rétt saman – Myndband

SHARE