Skipti um kyn á Facebook: Gerðist karlmaður á laugardegi

“Ég er orðin alveg hrikalega þreytt á auglýsingum um töfralausnir sem eiga að taka af mér tíu kíló á einni viku, tilboðum um brjóstastækkanir, æskumeðöl og buxur sem gera rassinn stinnari. Þess vegna skipti ég um kyn á Facebook” – þetta segir hin norska Linn Kristin Engø, borgarfulltrúi Verkmannaflokksins í samtali við norska miðilinn BT.

 

Skiftekjoenn2-S_hsemgdX1

 

Fyrir stuttu skrifaði hún eftirfarandi stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hún útskýrði ákvörðun sína:

 

 

Ég hef ákveðið að gerast karlmaður á Facebook. Ég er orðin ömurlega leið á auglýsingum sem staðhæfa að ég þurfi Botox, siliconfyllingar hér og þar, megrunarpillur og fjölbreytta megrunarkúra. Hafðu það gott, rafræna kvenkyn með öllu sem því fylgir. 

 

Og stöðuuppfærsla norska borgarfulltrúans sem skipti um kyn á Facebook fyrir skömmu, sem 130 notendur hafa skrifað athugasemdir við, gefa ljóslega til kynna að Linn Kristin njóti lífsins til fulls sem karlmaður á Facebook.

 

Ég er ekki í nokkrum vafa um að karlmenn fái líka sinn skerf af megrunarauglýsingum, en fram til þessa – og það eru bara nokkrir klukkutímar síðan ég skipti um kyn, hef ég bara móttekið auglýsingar um skemmtileg flugtilboð, kaffi og viðskiptafræðinám. Þetta þykir mér verulega aðlaðandi og skemmtileg tilbreyting frá tilveru minni sem kona á Facebook. 

 

Linn Kristin segist miður sín yfir hinum óraunhæfu væntingum sem konur virðast gera og hinum skaðlega heimi auglýsinga sem blasir við konum á öllum aldri gegnum Facebook í dag.

 

Með þessu auglýsingaflóði er verið að senda ungum konum skaðleg skilaboð; að það eitt að vera ánægð og sátt í eigin skinni sé óeðlilegt. Útlitsdýrkunin er fyrir löngu komin út fyrir öll eðlileg mörk og er orðin skaðleg, jafnvel hættuleg og áráttukennd. 

 

 

 

foerogetterFB-utaFgDhmd5

Það var meðal annars þessi auglýsing sem gerði útslagið fyrir Linn Kristin. 

 

Elskar kynskiptin á Facebook

En Linn Kristin er ekki sú eina sem hefur skipt um kyn á Facebook. Hin norska Marta Hofsøy er ein fjölmargra kvenna sem hefur sett hnefann í borðið og gerst karlmaður á Facebook. Hún breytti um kyn fyrir rúmri viku síðan og segist ekki hafa iðrast þeirrar ákvörðunar eina sekúndu.

 

Breytingarnar höfðu bara ótrúlegan létti í för með sér. Í stað þess að móttaka ógeðfelldar megrunarauglýsingar og tilboð um óeðlilegar lýtaaðgerðir fæ ég núna upplýsingar um bankaþjónustu, ferðatilboð og kaffi. Þetta er svo yndislegt að ég bara á ekki orð í eigu minni. 

 

Marta er ekki í nokkrum vafa um að auglýsingaflóðið hafi skaðleg áhrif á líðan kvenna og “normalisering” lýtaaðgerða sé óeðlileg með öllu – að konum lærist að útlit þeirra sé ekki eðlilegt, venjulegt eða jafnvel viðeigandi nema þær undirgangist dýrar og erfiðar aðgerðir til að lagfæra útlit sitt.

 

Þegar auglýsingaflóðið er orðið svona mikið, þá verður konum eðlislægt að treysta á staðhæfingar um líkamlegar endurbætur. Ég er á þeirri skoðun að þetta stanslausa auglýsingaflóð um líkamlegar breytingar hafi verulega neikvæð áhrif á konur yfir höfuð. Einnig finnst mér alveg hræðilegt að skoða svonefndar Fyrir og Eftir myndir af stúlkum sem litu jafnvel fyllilega eðlilega út á Fyrir myndinni og eru orðnar hálf afbakaðar á Eftir myndinni. 

 

Aðspurðar í viðtali við BT segjast báðar konurnar hiklaust mæla með því við kynsystur sínar að prófa að breyta um kyn á Facebook í þeim eina tilgangi að sjá og skoða hvaða áhrif það hefur á auglýsingarnar sem Facebook birtir:

 

Ekki spurning. Bara láta flakka. Þetta er mjög athyglisvert.  

SHARE