Skógarmítill skýtur upp kollinum á Vesturlandi

Skógarmítill hefur tekið sér bólfestu í Snæfellsbæ og herjar á húsdýr. Þetta kemur fram á Skessuhorni, fréttavef Vesturlands, en þar segir jafnframt að kvikindið, sem er blóðsuga, hafi fest sig við heimiliskött ábúenda í Snæfellsbæ en engum sögum fer af því hvernig losna tókst við óværuna í það skiptið.

Eins og fram hefur komið í íslenskum miðlum að undanförnu varð skógarmítils vart hér á landi fyrir fáeinum misserum og virðist sníkjudýrið vera að sækja í sig veðrið hérlendis. Full ástæða þykir til að benda á hversu skaðlegt getur reynst að komast í snertingu við skógarmítilinn, en bit skógarmítils getur valdið taugasjúkdómi sem ber nafnið Lyme (Borella burgdorferi) og veldur í versta falli lömun og heilabólgum.

Skógarmítillinn heldur sig meðal annars í lágvöxnu kjarrlendi og á grasi vöxnu landi og getur þannig borist á klæði og líkama grandalausra ef ekki er varlega farið. Skógarmítill getur einnig herjað á dýr, krækt sig fastan í feld spendýra og þaðan yfir á fólk ef ekki er varlega farið, eins og í tilfellinu í Snæfellsbæ sem sannar að mítillinn er kominn til að vera.

Fróðir segja mannfólkið vera með sísta fæðuvali skógarmítla, sem herja að mestu á húsdýr en til allrar lukku er skógarmítillinn fremur stórvaxinn af skordýri að vera og er ekki erfitt að greina vágestinn með berum augum.

Á vef Skessuhorns er eftirfarandi lýsingu að finna á einkennum þeim sem fylgja biti skógarmítils:

Einkenni eftir bit skógarmítils eru augljós. Hringlaga roði myndist á húðinni en það getur tekið þrjá til þrjátíu daga fyrir roðann að dreifa sér. Stuttu síðar getur farið að bera á þreytu, hrolli og höfuðverk ásamt vöðva- og liðverjum sem varað geta vikum saman. Sýkingin getur jafnframt valdið viðvarandi liðbólgum. Sýklalyf eru gefin við sýkingunni, en ef hún svarar ekki við meðferðinni þarf stundum að gefa bólgueyðandi lyfjameðferð. Miklu skiptir hvernig paddan er fjarlægð af húð, verði hennar vart. Með að toga hana varlega út eða snúa henni um leið getur hún átt það til að spýta eitri inn fyrir húð viðkomandi. Sagt er að best sé að vefja pinsettu um pödduna og ná henni af húðinni með snöggri hreifingu. Gott er að bera feiti eða vaselín á pöddu sem byrjuð er að bora sér í húðina. Dettur hún þá jafnvel sjálf af húðinni.

Forsíðumynd: Alfons Finnsson fyrir Skessuhorn

SHARE