Skotið á hús á Eyrarbakka í nótt

Um klukkan 04:30 í morgun var tilkynnt um menn á svartri Volkswagen Golf fólksbifreið sem væru að ónáða íbúa í íbúðarhúsi við Eyrargötu á Eyrarbakka.  Skömmu síðar var aftur hringt og greint frá því að skotið hafi verið á húsið.  Lögreglumenn á Selfossi og sérsveit ríkislögreglustjóra fóru þegar að Eyrarbakka.

Sérsveitarlögreglumenn mættu Volkswagen bifreiðinni í Þrengslum og handtóku þar þrjá karlmenn og konu.  Í farangursgeymslu bifreiðarinnar var haglabyssa.  Einu skoti var hleypt af á húsið.  Höglin lentu á vegg við eldhúsglugga þess þar sem ungur karlmaður stóð fyrir innan gluggann. Má telja happ að höglin höfnuðu ekki í rúðunni með hugsanlega alvarlegum afleiðingum.

Fjórmenningarnir dvelja í fangageymslu lögreglunnar á Selfossi og bíða yfirheyrslu.  Tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sér um tæknirannsókn.  Þetta er mjög alvarlegt tilvik og rannsókn verður framhaldið í dag.  Síðar í dag verður metið hvort þörf er á að úrskurða einn eða fleiri í gæsluvarðhald.

Lögreglan á Selfoss biðlar til allra þeirra sem veitt geta upplýsingar um ferðir svörtu Volkswagen Golf bifreiðinnar á Eyrarbakka á milli klukkan 04:20 og 04:40 eða heyrðu skothvell að hafa samband í síma 480 1010.   Mjög áríðandi er að fá slíkar upplýsingar.  Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvað lá að baki skotárásarinnar og ekki hægt að upplýsa um stöðu rannsóknarinnar.

 

 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here