Skráði sig í sambúð og þarf að borga tugi þúsunda í lyfjakostnað fyrir son sinn

Ég á 11 ára gamlan son sem greindist með ADHD þegar hann var 6 ára og hefur verið á  lyfinu Concerta síðan. Apótekið sem ég hef verslað við er alveg frábært og hef ég fengið lyfin hans frítt þar sem apótekið tók aðeins greiðslu frá ríkinu en ekki einstaklingum. Eins og langflestir vita þá varð breyting á niðurgreiðslu lyfja í maí síðastliðnum. Þegar ég mætti í apótekið 2 dögum eftir breytingu áttaði ég mig ekki á því að lyfið myndi kosta sitt, ég fór í apótekið og leysti út lyfið og þar er mér sagt að fyrsta greiðslan myndi vera tæplega 20.000 kr. önnur, þriðja og fjórða greiðsla um 5.000 kr. svo eftir 12 mánaðar tímabil myndi þetta byrja upp á nýtt, þannig að ég greiddi um 20.000 fyrir lyfið í maí

Þegar ég fór núna í ágúst og ætlaði að kaupa næsta skammt er mér hinsvegar tjáð að ég eigi að greiða tæpar 20.000 kr aftur. Þetta fannst mér eitthvað skrýtið og sagðist hafa greitt það í maí og ætti samkvæmt nýjum lögum að greiða um 5.000 kr. Apótekarinn fór að kanna málið og sá það hjá sér að ég hefði greitt þessa upphæð í maí en samkvæmt Tryggingastofnun ríkisins þá var eins og ég hefði ekki gert það.

Apótekarinn spurði mig hvort fjölskylduaðstæður hjá mér væru breyttar síðan í maí og ég sagði honum að ég væri komin í sambúð með manni. Þá sagði hann mér að það væri skýringin. Hjá Tryggingastofnun ríkisins er hver fjölskylda með fjölskyldunúmer og það væri kennitala hjá elsta fjölskyldumeðlimnum. Þar sem sambýlismaðurinn minn er eldri en ég þá er kennitala hans fjölskyldunúmerið okkar og allt það sem ég hef keypt af lyfjum á minni kennitölu er ekki lengur undir fjölskyldunúmerinu.

Nú er ég búin að tala við Tryggingastofnunina og það er búið að kanna málið, það var ekki galli í tölvukerfinu þeirra eins og þeir héldu í fyrstu og um engan miskilning er að ræða, heldur er það einfaldlega út af því að ég skráði mig í sambúð og fjölskyldunúmerið er breytt ég verð bara að gjöra svo vel að fara í apótekið og kaupa lyfin aftur og borga tæp 20.000 kr fyrir. Ég fæ þetta svo vonandi endurgreitt eða á inneign hjá þeim þegar búið er að skoða þetta allt betur en hefði kannski átt að skrá mig í sambúð á nýju sjúkratryggingaári .

 

 

SHARE