Skyldulesning kvenna! Þetta er hjartans mál!

Mjöll Jónsdóttir sálfræðingur skrifaði pistil sem er á heimasíðunni Hjartalíf.isen pistilinn skrifaði hún í kjölfar fyrirlesturs Barbara H. Roberts, bandarísks hjartalæknis, en fyrirlesturinn var um hjartaheilsu kvenna og forvarnir gegn hjartasjúkdómum.

Dr. Roberts sagði frá því hvernig hjartarannsóknir gerðar í gegnum tíðina væru rannsóknir gerðar af karlmönnum og gerðar á karlmönnum og niðurstöður þeirra segðu því ekki sannleikann um konur. Það væri því mikilvægt að staldra við, vera opinn fyrir því að læra og aflæra og kynna sér hvað rannsóknir gerðar á konum segðu um hjartaheilsu kvenna. Enda hefur það almennt ekki þótt góð vísindi að alhæfa um niðurstöður rannsókna yfir á hópa sem ekki voru rannsakaðir.

Ég hlustaði á fyrirlesturinn af miklum áhuga. Það var óendanlega margt áhugavert sem þar kom fram, sumt sem ég vissi fyrir og annað ekki. Það er auðvitað erfitt að gera grein fyrir svo innihaldsríkum fyrirlestri í pistli án þess að hann verði mjög langur en mig langar segja ykkur frá nokkrum hlutum sem mér fundust áhugaverðir og höfðu áhrif á mig.

Einkenni kvenna geta verið önnur en karla

Mikilvægustu skilaboðin eru að einkenni kvenna þegar þær fá hjartaáfall geta verið önnur en einkenni karla. Konur geta auðvitað fengið hin þekktu einkenni eins og mjög slæman brjóstverk, svita og gríðarlega mæði en þær eru líklegri til að finna ekki þennan mikla brjóstverk sem karlar almennt fá heldur ógleði, verk í kjálka, baki, öxlum. Verk í maga og hálsi og jafnvel finna bara fyrir mikilli mæði og þreytu. Hin dæmigerða lýsing á hjartaáfalli á ekki endilega við þegar um er að ræða konu.

Því miður vita þetta ekki allir enda hefur það sýnt sig að konur leita læknis seinna en karlar þegar þær veikjast, þær þurfa að bíða lengur eftir meðferð þegar þær koma á spítala og eru líklegri en karlmenn til að deyja af veikindum sínum en þær veikjast líka að meðaltali 10 árum seinna en karlar. Tími skiptir sköpum þegar kemur að því að bjarga heilsu og lífi við hjartaáfall og því mikilvægt að taka verki og óþægindi alvarlega sem ekki kannski allir vissu að gætu verið einkenni frá hjarta.

Eitt af því sem kom mér á óvart í fyrirlestri Dr. Roberts um ólíkt eðli hjartasjúkdóma kvenna og karla var þegar hún sagði konur líklegri en karla til að fá hjartaverk í hvíld og á meðan þær sofa. Hér áður hafði manni alltaf verið sagt að hjartaverkur kæmi við álag og áreynslu, þess vegna færum við í áreynslupróf t.d. þegar verið væri að leita eftir einkennum hjartasjúkdóma. Svona eftir á að hyggja þá velti ég því fyrir mér hvort það hafi verið rannsakað hvort áreynslupróf sé þá rétta skimunartækið fyrir konur, eða hvort eitthvað annað sé mögulega betra? Ég veit það ekki og hún ræddi það ekkert hversu mikið það hefur verið rannsakað á konum. En hún sagði að konur væru líka líklegri til að fá brjóstverk við tilfinningalega eða andlega streitu.

Aðrir áhættuþættir

Dr. Roberts ræddi skaðleg áhrif of hás blóðþrýstings en sem konu sem hefur fengið háan blóðþrýsting tvisvar á meðgöngu brá mér nokkuð þegar Dr. Roberts sagði svo frá því að meðgönguháþrýstingur væri líka mikill áhættuþáttur fyrir hjarta- og æðasjúkdóma. Það að hafa fengið háþrýsting á meðgöngu væri einfaldlega merki um að eitthvað virkaði ekki eins og það ætti að virka og mælti hún með að þær konur ættu að láta hjartalækni fylgjast með hjartaheilsu sinni. Þá ræddi hún vanmat á verulegri aukningu á hættu á hjartasjúkdómum ef fólk greinist með sykursýki, hún ræddi hlut offitu í þróun hjartasjúkdóma og þess að þjást af efnaskiptasjúkdómi (metabolic syndrome) eða bólgum (inflammation). Allt áhugaverðir og mikilvægir þættir sem hægt er að hafa áhrif á með lífsstíl.

Niðurstaðan

Niðurstaða Dr. Roberts var mjög einföld um hvernig við ættum að bregðast við

  • Ef þú reykir, hættu þá
  • Ef þú ert með hátt kólesteról, náðu því þá niður og hækkaðu það góða
  • Ef þú ert með háan blóðþrýsting, náðu honum þá niður
  • Ef þú ert með háan blóðsykur, náðu honum þá niður
  • Ef þú ert þung, náðu vigtinni niður
  • Gerðu meðal erfiðar líkamsæfingar í 30 mínútur á dag
  • Borðaðu hollan mat
  • Veldu foreldra þín vel 🙂

Það besta sem við getum gert til að sporna gegn hjartasjúkdómum kvenna er heilbrigður lífsstíll. Við höfum valdið í okkar höndum því sama hvað við erfum eða hvaða áhættuþætti við búum við þá er það hegðun okkar sem stjórnar heilsufari okkar. Eins og hún orðaði það „genin hlaða byssuna en það er umhverfið sem tekur í gikkinn“. Við þurfum bara að horfast í augu við áhættuþætti okkar, skoða söguna okkar og hvernig fólki í okkar fjölskyldu hefur reitt af og bregðast við í samhengi við það.

Hér má lesa pistilinn í heild.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here