Söfnunarátak fyrir Barnaspítala Hringsins á Bland.is

0

Dagana 15. – 20. febrúar býður Bland.is, stærsta sölu- og markaðstorg landsins á netinu, í samstarfi við meistaranema við Háskóla Íslands, einstaklingum og fyrirtækjum að taka þátt í til styrktar Barnaspítala Hringsins. Þetta umfangsmikla fjáröflunarátak ber heitið „Öll í einn hring“ og er tilgangurinn að safna fjármagni til tækjakaupa fyrir Barnaspítalann.

Meistaranemar í viðskiptafræðideild við Háskóla Íslands standa að baki fjáröflunarátakinu „Öll í einn hring“ í tengslum við námskeiðið „Samvinna og árangur“ undir handleiðslu Elmars H. Hallgríms lektors.

„Þetta er málefni sem snertir okkur öll og því er unnið að þessu verkefni af mikilli ánægju og áhuga. Við höfum einnig mætt gríðarlegum góðvilja almennings að taka þátt í þessu með okkur,“ segir Sigrún Halldórsdóttir, meistaranemi.

„Á þessum tilteknu dögum gefst notendum Blands að setja inn sérstaklega merktar auglýsingar eða uppboð á vefnum og geta þeir sem vilja taka þátt í að styrkja Barnaspítala Hringsins valið sérstakan hnapp inn á skráningarforminu þar sem viðkomandi leggur söfnunarátakinu til 500 krónur sem renna beint til söfnunarinnar. Þessar auglýsingar og uppboð verða merkt sérstaklega með merki söfnunarátaksins,“ segir Katrín Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Bland.

Verulegur kostnaður er við tækjakaup og rekstur á Barnaspítala Hringsins og því skiptir hver króna máli þegar um jafn nauðsynlega þjónustu er að ræða. Sölu- og uppboðsaðilar eru því hvattir til að láta gott af sér leiða dagana 15. – 20. febrúar og taka þátt í átakinu „Öll í einn hring“ á Bland.is

Nánari upplýsingar veitir Katrín Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Bland í síma 852 8852 Um Bland.is: Bland er stærsta sölu- og markaðstorg á Íslandi á netinu og hefur verið það um árabil. Bland.is er með yfir 200.000 skráða notendur sem er einsdæmi fyrir íslenskan vef. Hægt er að kaupa og selja allt milli himins og jarðar á sölutorgi Blands.

SHARE