Söngvakeppnin 2014 – Siggi Gunnars fer yfir stöðuna

Þá er hún hafin, vertíð okkar sem höfum áhuga á Eurovision. Söngvakeppni Sjónvarpsins er á dagskrá RÚV í kvöld og munu íslenskar fjölskyldur sameinast yfir sjónvarpinu og keppast við að tala illa um lögin sem boðið er upp á, þeir allra hörðustu láta svo skoðunina í ljós á Facebook eða Twitter.

Sá háttur er hafður á í ár að boðið er upp á tvær undankeppnir, fimm lög taka þátt í hvorri og svo er úrslitakvöld. Það eru tvö lög sem komast áfram hvert kvöld og svo mun sérstök dómnefnd velja tvö til viðbótar sem fá að keppa á úrslitakvöldinu, en þau lög verða tilkynnt á seinna undaúrslitakvöldinu.

Í kvöld er boðið upp á hæfilega blöndu af þekktum lagahöfundum og þeirra sem eru kannski minna þekkir.

Dáðadrengirnir í StopWaitGo tefla fram stuðlagi sem nefnist “Dönsum burtu blús” sem Sverrir Bergmann syngur fyrir þá. Sverrir hefur góða reynslu af keppnum í söng en hann komst einmitt á kortið á sínum tíma eftir söngkeppni framhaldsskólanna. Margir höfðu bundið miklar vonir við þetta lag, enda sigruðu StopWaitGo drengirnir Bretland í fyrra með laginu Disco Love og hafa átt marga smellina á Íslandi undanfarin ár. Lagið er svosem fínt, en greinilegt að þeir hafa ekki tímt sinni bestu smíð í þessa keppni. Það verður þó að teljast mjög líklegt að lagið fljúgi áfram í úrslitin. Fyrirfram taldi ég StopWaitGo vera fara að sigra þetta, bara af því að þetta eru þeir, en er ekki svo viss núna!

Eftir sveiflupopp StopWaitGo manna er boðið upp á krúttpopp af bestu gerð,eftir tiltölulega óþekkta höfunda, þær Ástu Björg og Bergrúnu Írisi. Það er svo Gréta Mjöll Samúelsdóttir sem syngur, en hún gerði það gott á síðasta ári ásamt systur sinni í SamSam með lagið House. Þetta lag er svosem ekkert ósvipað því, mikið krúttpopp og ágætt uppfyllingarefni. En ekki er það líklegt til afreka á þessu sviði þrátt fyrir fínan flutning.

Næst er það svo “legend” bransanum, maðurinn á bakvið “Söknuð” eitt fallegasta lag íslenskrar tónlistarsögu sjálfur Jóhann Helgason. Hann mætir hér til leiks með mikla Josh Groban ballöðu með ítölsku yfirbragði (Bjöggi Halldórs hefði getur endurnýtt þetta lag í jólalag!). Tenórinn Gissur Páll syngur lagið óaðfinnanlega. Lagið er fínt, ekkert út á það að setja en svona lögum hefur ekki gengið vel í stóru keppninni úti. Það fer þó áfram í úrslitin hjá okkur, hvort sem það verður á vegum dómnefndar eða áhorfenda.

Næst á svæðið er frekar sérstakt lag sem mér fannst gjörsamlega út úr kú við fyrstu hlustun. En stóð sjálfan mig að því að syngja eða öllu heldur hrópa “Amour Amour Amour” á skrifstofunni það sem eftir var. Höfundurinn heitir Haukur Johnson og er eftir því sem ég best veit mikill Eurovision-aðdáandi og því eflaust draumur að eiga lag í keppninni. Mér finnst það ekki eins mikið út úr kú núna en ég sé það ekki gera neitt. Flytjandinn heitir Ásdís María, hún hefur ekki verið áberandi í íslensku tónlistarlífi til þess en hver veit nema þetta sé upphafið að einhverju meira. Hún hefur amk. Skemmtilega rödd!

Næsta flytjanda og lagahöfund þekkjum við vel. Ég er af þeirri kynslóð sem vill kalla hann “Vigga í Írafár” en yfirleitt gengur hann undir nafninu Vignir Snær.  Hann flytur hér bara svona lala lag. Hresst popp sem, eins og við heyrum hvert einasta ár í þessari keppni. Þetta lag er bara svona hvorki né, vel samið og hefur grípandi “oh, oh oh, ooooh” kafla í því. Þetta lag hefði pottþétt komið út á Svona er sumarið! Ég vil að það komist áfram og tel að það geri það!

Þannig hljómar hið heilaga guðspjall – Ég tel að StopWaitGo og Vignir Snær fari áfram í kvöld og svo fari Jói Helga áfram á dómnefnd. Reynið fyrst og fremst að eiga góða stund fyrir framan sjónvarpið og passið að vera ekki of reið á Facebook og Twitter!

Gleðilega Eurovision!

kepp1

Siggi Gunnars stjórnar Seinnipartinum á K100,5 alla virka daga frá 15-18.

SHARE