Það fer alveg endalaust í taugarnar á mér að það séu komnir stöðumælar við spítalana. Hvað er það!!!??? Örugglega einhver „frábær“ skýring á því eins og: jú sjáðu til það þurfa að koma peningar inn til þess að halda bílastæðunum við, mála línurnar og svoleiðis…. ok æðislegt. En mér finnst það ótrúlegt að þeir sem eru að heimsækja veika ættingja eða vini þurfi að vera með augun á klukkunni af því þau gætu fengið sekt.

Ég heimsótti vin minn um daginn sem er í meðferð vegna hvítblæðis og ég borgaði í stöðumæli. Svo fór ég upp til hans og fattaði það rétt áður en tíminn var búinn að ég þyrfti að fara, og viti menn, stöðumælavörðurinn var við það að fara að sekta mig þegar ég kom út.

Annað dæmi er þegar ég fór með 7 ára gamla dóttur mína á slysó því barnið var að drepast í hnénu og var farin að haltra. Við mætum niðreftir og ég borga í mælinn, tek 2 klst og reikna með að miðað við tíma og dag séum við ekki að fara að þurfa að bíða lengi. Ég var með eindæmum bjartsýn.

Við fórum fyrst á þessa hefðbundnu biðstofu og sátum þar ásamt nokkrum öðrum en eina sem hægt var að gera þarna var að horfa á mjög óspennandi sjónvarpsefni því það er ekki lengur boðið upp á tímarit á biðstofunni. Af hverju? Af því það er smithætta af blöðunum, fólk með sýkla á höndunum sem smitast milli manna. (Mín skoðun á þessu er: Mér finnst þetta rugl, því ég held að sýklarnir séu alveg jafnmikilir á örmum sætanna sem þú situr á, borðinu hjá gjaldkeranum, hurðarhúnum, salernum og fleira. En þetta er aukaatriði, varð bara að koma þessu að :))
Já við semsagt bíðum á biðstofunni en erum svo kallaðar inn í herbergi þar sem einhver kom og kíkti á dóttur mína og benti okkur svo á að fara á aðra biðstofu til að bíða. Við gerðum það og vorum núna komnar á annan stað á spítalanum. Við biðum aftur. Seinna kom læknir og talaði við okkur og skoðaði stelpuna mína og sagði okkur að við ættum að fara upp í röntgen, allt í góðu. Við fáum beiðni og förum „upp í röntgen“. Þar var þessi fína biðstofa með kubbum og fleira og stelpan mín fer að dunda sér.

Mér verður litið á klukkuna sem var á veggnum og hugsa með mér hvað þetta taki allt saman langan tíma og þá allt í einu rann upp fyrir mér, að tíminn í stöðumæli er að renna út. Ég segi við stelpuna mína, sem er vel að mynda hölt, að ég þurfi að fara út og borga meira í stöðumæli. Hún var frekar lítil í sér og vildi alls ekki bíða ein og mér finnst það alveg eðlilegt enda var lítið á þessum gangi nema við. Hjúkrunarkonan sem tók á móti okkur var hvergi svo ég þurfti bara að koma mér niður og út aftur með halta barnið mitt og beiðnina um að koma í röntgen. Ég, þessi litla stelpa, þurfti að halda á stelpunni minni, 7 ára, niður um allt og út á bílastæði, en þar var að sjálfsögðu stöðumælavörðurinn í góðum gír að sekta fólk sem einhverra hluta vegna var ekki með nóg á mælinum og ég rétt náði því að bæta í mælinn hjá mér. Að þessu loknu þurfti ég að ryðja mér svo leið aftur inn á spítalann og á röntgendeildina en þá var að sjálfsögðu búið að kalla á okkur og við ekki á staðnum.

Mér finnst stöðumælar við spítala óviðeigandi og eiga engan rétt á sér. Það fer enginn á spítala til að skemmta sér. Það er enginn að fara að leggja á bílastæði spítalans bara af því að það er besta ókeypis stæðið í bænum. Hvers á fólk að gjalda sem á aðstandendur sem liggja lengi á spítala? Er þetta Ísland í dag?

 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here