Stofnanauppeldi

The wall
All in all you´re just another brick in the wall.

Nú eru ekki mörg ár síðan við foreldrar grunnskólabarna vorum börn sjálf í grunnskólum landsins. Hjá okkur var dagurinn þannig að við fórum í skóla að morgni, heim í hádeginu og mögulega vorum við bara búin þá, eða þurftum að fara í einhvern tíma eftir hádegi. Sum okkar áttu heimavinnandi mæður sem elduðu og önnur, afa og ömmur sem tóku þátt í uppeldinu og gættu barnanna. Eftir skóla var verið úti að leika sér í öllum veðrum, það var farið lengst upp á fjall, eða út í fjöru, eða klifrað á stillönsum, vaðið í djúpum vatnsfylltum húsgrunnum og reynt að troða sér ofan í holræsi.   Engar tölvur voru, engir símar, nema heimasímar og ef við þurftum að hittast, þá bara var ákveðinn staður og stund, eða bara farið út á leikvöll.

Íþróttir kostuðu sama og ekkert, og engir foreldrar komu með á pæjumótin í Eyjum.  Við æfðum líka bara í ódýrum stuttbuxum og þurftum ekki að kaupa rándýran búning á 25 þúsund með öllu. Við fengum lánaða notaða búninga fyrir mót með grasgrænu og fannst það bara flottast í heimi.

Í dag lifa börnin í borginni allt öðru lífi. Þau þurfa að hafast við í skólanum hvíldarlaust í 6-7 klst á dag. Fyrir það voru þau vistuð á leikskóla 8-9 klst á dag og frá eins árs aldri voru þau hjá dagmömmu. Og það telst bara eðlilegt. Klukkan fjögur eða seinna koma allir heim úr vinnu, frístund, skólum og eiga þá að fara að njóta þess að vera saman fram að háttatíma. Á mörgum heimilum eru einstæðir foreldrar kannski með nokkur börn eða efnalitlir foreldrar sem þurfa að vinna meira og vera lengur frá börnunum sínum til þess að skrimta fyrir himinhárri leigu eða húsnæðisafborgunum og lífinu. Svo er fólk jafn mismunandi og það er margt og mörg, mjög mörg börn eru að greinast með raskanir og passa ekki inn í kerfið. Það er svona „happa og glappa“ hvort þau fái viðeigandi aðstoð. Við heyrum um vaxandi neyslu Íslendinga á allskyns deyfandi lyfjum. Svefnlyf eru mest selda varan í apótekum landsins og „burnout“ er á allra vörum, vegna þess að fleiri og fleiri eru að upplifa það sjálfir.

Skólinn þegar við vorum yngri byrjaði í september og var búinn í maí. Það er búið að lengja skólaárið um rúman mánuð á 20 árum og enn lengist það. Svo í staðinn fyrir frí eru börn sett í frístundir meðan foreldrarnir neyðast til þess að vinna fyrir útgjöldum heimilisins.  Þetta er hamstrahjólið sem við erum á. Það þyngist sífellt byrðin og samfélagslegar kröfur og er nú komið á svo súrrealískt hámark að manni blöskrar. Það er verið að herða reglur um leyfi barna úr skólum og er það farið að þykja skrýtið ef börn fá meira en 10 leyfisdaga á heilu skólaári. Kennsludagar í venjulegum skóla eru 173 og þetta spannar 9 mánuði, auk þess sem þeim er sett fyrir heimanám í hverri viku og heimalestur, sumir kennarar eru meira að segja farnir að ganga svo langt að setja börnunum fyrir lestrarkeppni í öllum fríum. Álagið á sumum heimilum er gígantískt. Það myndast núningur á heimilum við að gera eitthvað sem ætti bara að skilja eftir í skólanum.

Á þessum fjórum klukkutímum sem okkur er úthlutað á dag með börnununum okkar vakandi, þurfum við að sjá til þess að þau fái hollan mat, læri, fái skjátíma, vinatíma og fari að sofa á réttum tíma, svo þau geti vaknað aftur daginn eftir og endurtekið það sama.

Frá eins árs aldri barna hafa foreldrar þvi margfalt minni tíma með börnunum sínum en stofnanir. Á skólatíma hafa kennarar 1211 klst með börnunum okkar meðan við fáum 692 klst, tæplega helmingi minni tíma. En ef þau eru í leikskóla eða frístund hafa þau börnin í 220 daga á ári meðan við fáum þau um helgar og í fríum, ca 145 daga fyrir okkur sjálf.

Það er hægt að setjast niður og reikna þetta allt út í þaula, en með þessu er mjög auðvelt að sjá að börnin okkar eyða meiri hluta tíma síns á stofnunum. Þau sofa 10-12 tíma og í raun fáum við foreldrar bara að svæfa, vekja og fæða. Þau eru alin upp af fólki sem fær illa greitt fyrir að sinna þeim, þau þurfa að borða þvældan, næringarskertan mötuneytismat á mettíma í allt of litlu rými, sem ekki var hannað sem mötuneyti, heldur sem salur skólans og því þurfa nemendur að skipta með sér matartíma og allir fá bara sitt korter, og ekkert tillit er tekið til sérþarfa.  Allir eiga að vera eins. Allir þurfa að borða sama matinn. Alltaf er áreiti.

Hvenær hætti það að vera ábyrgð foreldranna að ala börnin sín upp? Hver ákvað að taka af okkur börnin og láta stofnanir segja okkur fyrir verkum? Hvenær ætlum við að standa upp og heimta meiri tíma með börnunum? Er kannski öllum sama?  Nógu stutt er þetta líf okkar hérna á jörðinni og þessi yndi okkar eru svo fljót að eldast og fljúga frá okkur.

Erum við hægt og rólega að missa öll mannleg tengsl. Er þetta raunverulega það sem við viljum? Viljum við ekki meiri tíma með börnunum okkar?

Hér er lítið brot úr teiknimynd sem ég fann í sjónvarpinu fyrir löngu síðan. Hún hitti beint í mark.

 

 

SHARE