Stúlkurnar í brasilíska kvennaþorpinu allar í karlmannsleit

Dreymir þig um að dansa meðal kvenna? Kaupa inn í skjóli frá áleitnum augum karla? Langar þig að eyða meiri tíma með kynsystrum þínum? Ertu jafnvel karlmaður og þyrstir í kynni við konu? Ef svo er, gæti Novia Do Cordeiro, smábær í suðvesturhluta Brasilíu verið kjörinn áfangastaður.

Þorpið er hvorki meira né minna en himnaríki kvenna sem hafa fengið nóg af hinu kyninu, en íbúar þorpsins eru flestallir af mýkra kyninu og sumar þeirra, ótrúlegt en satt, þrá tilbreytingu frá því sem þær segja einræna tilveru með sama kyni.

Þannig sagði hin 23 ára gamla Nelma Fernandes í viðtali við breska miðill Telegraph sem fjallaði um þorpið fyrir skemmstu að hún þráði að upplifa ástina.

Ég hef ekki verið kysst í langan tíma. Ég held að mér sé óhætt að segja að öllum dreymi okkur um ást og hjónaband. En flestum okkar líður vel hérna og engri þyrstir í að yfirgefa þorpið. Ætli við séum ekki allar í leit að körlum sem hafa getu og vilja til að kasta öllu frá sér og gæða litla og friðsæla þorpið okkar meira lífi; flytja til okkar stelpnanna í stað þess að reyna að tæla okkur á brott. En þeir karlmenn sem voga sér inn fyrir línuna og hafa hugrekki til að ganga í hjónaband með konu sem er búsett hér yrði líka að sættast á að það erum við sem leggjum línurnar hér í þorpinu. Hér ráða konur ríkjum og karlarnir verða að fylgja okkur. Ekki við þeim.

Reyndar eru nokkrar konur sem búsettar eru í þorpinu, giftar karlmönnum en allir eiga þeir það þó sameiginlegt að starfa í ríflega 90 km fjarlægð frá þorpsmörkunum og koma jafnvel einungis heim um helgar.

En hvernig er þá lífið í litla þorpinu þar sem konurnar ráða ríkjum? Í umfjöllun Telegraph segir að konurnar þrái meira samneyti við karlmenn og þá innan veggja þorpsins þó ekki væri nema bara til að geta létt af þeim erfiðustu verkunum í daglegu lífi.

Ekki eru þó allir íbúarnir á sama máli. Hin 49 ára gamla Rosalee Fernandes segir þannig konur skipulagðari en karlmenn, samviskusamari og snyrtilegri.

Konur skara fram úr karlmönnum á svo ótal mörgum sviðum. Bærinn okkar er fallegri, snyrtilegri, skipulagðari og friðsælli en hann væri ef karlmenn réðu ríkjum hér. Hugsið ykkur bara; þegar vandamál koma upp, þá setjumst við á rökstóla og reynum að finna raunhæfar lausnir á þann hátt sem einungis konur geta gert, í stað þess að deila um lausnir.

Svo virðist því vera sem konurnar sem búa í litla þorpinu í suðvesturhluta Brasilíu hafi myndað með sér eins konar anarkískt himnaríki allra mannfræðinga, þó sumar þeirra viðurkenni fúslega að þær þyrsti oftlega í félagsskap karla, undir þeim formerkjum að návist strákana sprengi ekki upp friðsældina sem ríkir í þessu annars sérstaka samfélagi andans.

Sérstakt, ekki satt?

SHARE