Sveppasýking – Hvað er til ráða?

Heilsa.is sérhæfir sig í að bjóða vörur sem stuðla að heilsu og velllíðan en eru líka með heimasíðu sem er með allskonar heilsutengdum greinum.

Candida albicans er gersveppur sem dafnar víða, m.a. í meltingarfærum, leggöngum og á húð. Undir eðlilegum kringumstæðum er þessum sveppi haldið í skefjum af bakteríum sem lifa á sömu slóðum. Verði bakteríurnar fyrir röskun, t.d. vegna fúkkalyfja getur sveppavöxturinn hins vegar farið úr böndunum.

Einkenni

Hjá konum eru algengustu einkenni candida ofvaxtar sveppasýking í leggöngum sem orsakar kláða, roða, sviða við þvaglát og óþef. Ofvöxtur sveppa getur einnig gert vart við sig í munni, á milli tánna og undir nöglum bæði fingra og táa. Mikið hefur verið ritað um sveppasýkingu síðustu 15 ár og hallast margir að því að hún geti verið orsök allnokkurra annarra sjúkdóma, m.a. truflana í meltingarfærum svo sem þembu, magakrampa og niðurgangs, en einnig hósta, hæsis, eyrnaverkja, kyndeyfðar, þunglyndis, ofnæmis og síþreytu, svo nokkuð sé nefnt.

Orsakir

Orsakir sveppasýkingar geta verið allnokkrar og er að mati þeirra sem hafa sérhæft sig í þessum sjúkdómi, oft að leita í sjúkrasögu eða öllu heldur lyfjasögu viðkomandi. Þeim sem notað hafa eitthvert eftirtalinna lyfja er hættara við sveppasýkingu en ella: steralyf (eins og kortison), langvarandi eða endurtekin notkun fúkkalyfja, magasárslyf og jafnvel eru getnaðarvarnalyf sögð auka hættu á þessum þráláta sjúkdómi. Óhófleg sykurneysla gefur þessum sjúkdómi einnig byr undir báða vængi, enda nærist sveppurinn á sykri. Oft eru fleiri samverkandi þættir valdir að sjúkdómnum, t.d. gæti sjúklingurinn verið kona sem er á pillunni, hugsanlega þurft að nota fúkkalyf um tíma og innbyrðir þar að auki hátt hlutfall af sykri í fæðunni (sykur er ekki aðeins í gosi, kökum og sætindum, heldur einnig afar mörgum unnum matvörum). Þetta er kjöraðstæður fyrir sveppasýkingu til að ná sér á strik. Einnig geta þættir sem veikja ónæmiskerfið skapað kjörlendi fyrir sjúkdóminn, svo sem lélegt fæði, sem fyrr segir óhófleg sykurneysla, mikil áfengisneysla, umhverfismengun, geislameðferð og streita.

Fæða og lífsstíll

Til að vinna á sjúkdómnum er mikilvægt að færa til betri vegar alla þá þætti sem stuðla að honum. Einkum ber að forðast sykur í öllu formi, sem innifelur þá einnig ávaxtasafa og niðursoðna ávexti, hunang og mjólkurvörur, en mjólkin inniheldur laktósa og er auk þess einn algengasti valdur að fæðuofnæmi. Áfengi er jafnframt á bannlista. Þó að candida albicans gersveppurinn sé allt annars eðlis en matvælager, ráðleggja læknar sem fást við þennan sjúkdóm, sjúklingum að forðast það sem inniheldur ger eða örvar gerjun, svo sem gerbakstur og áfengi. Mygla er einnig talin óæskileg, en matvælamyglu er t.d. að finna í ostum, þrúgum, sveppum, þurrkuðum ávöxtum og gerjaðri fæðu.

Lykilatriði er að endurheimta kröftugt ónæmiskerfi. Það er ekki gert með neinni töfralausn, heldur þarf að vinna að því með margþættum aðgerðum eins og æfingum, minnkaðri streitu, breyttri fæðu, og einnig því að byggja sig upp með bætiefnum og ráðast að sýkingunni með viðeigandi jurtum. Gott er að nota kókosolíu í leggöng ef konur eru gjarnar á að fá sveppasýkingu þar, best er að nota hreina kaldpressaða extra virgin kókosolíu.

Bætiefni

Acidophilus. Fyrst og fremst þarf að byggja heilbrigðan gerlagróður meltingarfæranna upp á ný með acidophilus, bifidobaktería og öðrum mikilvægum meltingafæragerlum. Best er að nota fjölgerlahylki, þ.e.a.s. acidophilus með bulgaricus og fleiri gerlum, oft eru 4-5 gerlategundir saman í hylki.1

Greipaldinkjarnaþykkni hefur verið rannsakað af lyfjaeftirliti Bandaríkjanna, Pasteur stofnuninni í Frakklandi auk annarra stofnana og ótal lækna. Það hefur víðtæk jákvæð áhrif og vinnur m. a. á candida albicans. Fjöldi lækna hefur staðfest öfluga virkni þess á sjúkdóminn og má m.a. vitna í Dr. Leo Galland M.D. í New York, en af 297 candida tilfellum sem hann skráði, voru aðeins 2 þar sem þykknið gagnaðist ekki.2

Hvítlaukur er ekki einungis góður til að styrkja ónæmiskerfið og halda aftur af bakteríuvexti, heldur hefur hann
einnig gagnast vel í baráttunni við candida. Tilraunir, bæði á dýrum og í tilraunaglösum sýna að hvítlaukur er einstaklega virkur.1

Aloe vera eyðir Candida sveppnum og hefur einnig góð áhrif á sýrur í ristlinum sem bætir hreyfingargetu hans.3

Colon Cleanser. Gott er að hreinsa eða afeitra kroppinn með því að nota trefjar sem draga í sig mikinn vökva
eins og hýði af psyllíum fræum eða Glucomannan. Colon Cleanser inniheldur bæði acidophilus og syllíumhýði. Til að efla hreinsunina er gott að örva starfsemi lifrarinnar með mjólkurþistli.1

Mysuþykkni (Molkosan) inniheldur gerla í ætt við acidophilus og hefur reynst afar öflugt efni gegn sveppasýkingu.4

Spilanthes er upplausn úr jurt sem svissneski náttúrulæknirinn Dr. h.c. A. Vogel mælti eindregið með að fenginni reynslu, til útvortis notkunar gegn sveppasýkingu. Er það þá notað daglega til skiptis við Molkosan, annað á kvöldin og hitt á morgnana.4

Tetrésolía (Tea Tree Oil) er mjög virk gegn sveppum á húð og í nöglum. Hún er mjög sterk og þarf því að blanda hana nuddolíu áður en hún er borin á.1

Piparmyntuolía og óreganó olía hafa í tilraunum gefið einstaklega góða raun í baráttunni við sveppasýkingu,
reynst margfallt öflugri en mörg önnur efni sem notuð eru gegn sjúkdómnum. Þar sem þær geta valdið brjóstsviða við inntöku, er ráðlagt að nota húðaðar töflur eða hylki.1

Einnig eru ráðlagðar jurtir eins og Pau d’arco5 og Goldenseal1.

Í bókinni „Candida sveppasýking“ eftir Hallgrím Magnússon lækni og Guðrúnu G. Bergmann er heilmikill fróðleikur um sjúkdóminn og ráð við honum. Auk þess fást í sumum heilsuvöruverslunum og bókabúðum allnokkrar bækur á ensku með frekari upplýsingum fyrir candida sjúklinga, einnig uppskriftabækur fyrir þá.

  1. Encyclopedia of Natural Medicine eftir M. Murray og J. Pozzorno: Prima Publishing
  2. nutriteam.com/candida
  3. Candida sveppasýking eftir Hallgrím Magnússon og Guðrúnu G. Bergmann
  4. The Nature Doctor eftir Dr. h.c. A. Vogel
  5. The Natural Pharmacie eftir Skye Lininger og fleiri: Prima Publishing

Upplýsingar þessar eru samansafn fróðleiks um náttúrulegar lækningar. Þeim er ekki ætlað að koma í stað tilmæla eða ráðgjafar fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. Sjúklingar á lyfjum, einkum séu þeir haldnir alvarlegum sjúkdómum ættu að ráðfæra sig við lækni áður en þeir hefja neyslu bætiefna.

Heilsa á Facebook

SHARE