„Svo færðu niðurgang; þá er hreinsunin að byrja …”

Jú jú. Ég er alveg niðursokkin í pillurnar hérna í útlandinu. Tek feiknarinnar öll af pillum á hverjum degi og geri hiklaust verðsamanburð á ólíkum gerðum. Einhverjum verð ég að henda. Öðrum held ég til haga. En ég treð þessu upp í mig eins og enginn sé morgundagurinn. Milli þess sem ég kasta einhverju ógeðinu út, hofmóðug á svip.

Þannig fór Magnesíum út um gluggann fyrir stuttu. Ekki skil ég hvað fólk er að dásama þetta alla daga og alltaf hreint. Sumir segja Magnesíum hreinlega hafa bjargað lífi sínu og að án Magnesíum kæmi sólin varla upp.

Ég er ekki svo viss um það. Að vísu var ég forvitin í byrjun og reið á vaðið eftir áskorun kærrar vinkonu sem er annt um mig.

Gvöð, þú verður að prófa, Klara. Magnesíum er æðislegt.

Ég spurði heimilislækninn út í Magnesíum nokkrum dögum seinna. Hann brást voða hissa við og sagði mér að Magnesíum væri bara steinefni. Enginn lífselexír eða vítamín guðanna. Ég varð doldið svekkt þegar maðurinn svaraði mér svona fálega. Ég vildi Magnesíum. Það sem allir þrá. Ef ég skil þetta allt saman rétt hafa einhverjir öðlast sjón á öðru auga eftir fáeinar töflur og gott ef fótalausir hafa ekki bara gengið að nýju. Allt út af Magnesíum.

Hreinsunaráhrifin eru víst víðþekkt líka; niðurgangur og svona. En það er – samkvæmt vinkonu minni alla vega – bara í byrjun. Magnesíum, sagði hún mér, er alveg æðislegt lyf og hefur bjargað fólki frá drukknun. Nema hvað?

Ég veit þó ekki, krakkar. Ég lét til leiðast og keypti Magnesíum. Vegna fjölda áskorana. Festi kaup á krukku, borgaði formúu fjár fyrir og óð heim í eldhús. Sturtaði í mig tveimur töflum og stillti svo dollunni hljóðlát upp á skáp. Magnesíum. Ég. Eldhúsið. Í örfáar mínútur fannst mér einhvern veginn eins og allt væri orðið gott. Týnda púslið væri fundið og að ég hlyti að öðlast sjón. Ég er að vísu hvorki blind né veik, en fólk talar bara svo vel um Magnesíum að ég varð að prófa.

Það tók ekki nema tvo sólarhringa þar til einkennin fóru að láta á sér kræla. Fyrstur kom niðurgangurinn. Ég kippti mér lítið upp við það, enda hæstánægð með að geta sett upp örlítinn status:

Byrjuð á Magnesíum. Hreinsun að kikka inn. Heill sé þér, kúkur. Ég lifi.

Því næst tóku hitaköstin við. Ég er að öllu jöfnu ekki heitfeng og brá því örlítið þegar fyrsta bylgjan fór um mig. Það gerðist inni í matvörubúð. Ég reif mig úr flíspeysunni, hnykkti höfðinu aðeins til og færði mig til hliðar. Kannski væri bara svona heitt inni í búðinni.

En hitaköstin héldu áfram þegar heim var komið. Væg í byrjun. Svo ágerðust þau.

Næstur kom höfuðverkurinn og þá fyrst fór mig að renna í grun að ekki væri allt með felldu. Það tók mig fjóra sólarhringa að rekja orsökina til óhóflegrar vítamíninntöku, en þegar þar var komið sögu var ég orðin veik í vinnunni, lá svitastorkin fyrir uppi í sófa og slurkaði í mig norskri fiskiolíu sem er stúfull af A-, D- og E vítamíni og einhverjum voða fínum Omegasýrum sem mér skilst að allir þurfi á að halda.

Ég hélt í alvöru að vítamíneitrun væri bara eitthvað sem líkamsræktartröllin fá. Lið sem hrúgar í sig ofgnótt af pillum og étur þetta alveg í gríð og erg. Ég hélt að brjálæðingarnir sem maður les um í kennslubókum væru þeir sem fá vítamíneitrun, ekki erlendar húsmæður með börn á framfæri og símareikninga sem þarf að greiða.

Ég taldi víst að Magnesíum eitrun væri ekki til og að útlenskt Lýsi væri voða gott. Að ég gæti ekki fengið vítamíneitrun af svo lágum skammti, því allir hefðu dásamað þetta svo. Kom ekki einhver kona fram í fjölmiðlum fyrir skömmu og sagði að Magnesíum hefði bjargað lífi hennar?

Til að gera langa sögu stutta hurfu eitrunareinkennin á rúmum sólarhring; allt eftir að ég hætti að taka töflurnar. Í fyrstu var mér létt, því næst fylltist ég undrun og að lokum gekk ég full viðbjóðs inn í eldhús – greip bansett Magnesíum-glasið sem lúrði uppi á ísskáp og hló að mér og henti því í ruslið. Því næst fór ég full fyrirlitningar með norska lýsið út í tunnu. Einbeitt, glaðlynd og ákveðin.

Út skyldi Magnesíum og inn kæmi bjarta vorið.

Ég skrapp í blóðprufur nokkrum dögum seinna sem leiddu í ljós að ég er örlítið lág í járni. Konan í apótekinu sagði mér að ég yrði að taka C-vítamín með járntöflunum svo líkaminn ynni betur úr járninu. Það er allt í lagi, skilst mér, enda skilar líkaminn umframmagni af vatnslosanlegum vítamínum út ef of mikið magn er tekið. Innan skamms fer ég svo í aðra blóðprufu sem mælir árangur járnkúrsins. Þegar takmarki mínu er náð mun ég leggja járnið til hliðar, en um það mun næsta blóðprufa skera úr.

Ég hef fengið mig fullsadda af muldum ólívulaufum, sykurhúðuðum Magnesíumloforðum og rándýrum hárkúrum sem ekkert gagn gera. Þess í stað rígheld ég í blóðprufublaðið mitt – narta varfærnislega í D-vítamín og leyfi mér svo að njóta kaffibolla þegar kvölda tekur í útlandinu. Já, ég get sofnað þó koffein hafi verið haft um hönd.

Ég ætla þess í stað að treysta því sem fræðin segja; að líkaminn sé undursamleg vél sem er að öllu jöfnu fær um að reka sig sjálfur. Að heimilislæknirinn, sem af og til hakar við reiti á blóðprufubeiðni og sendir mig áfram, hljóti að vita betur en sölumenn sem hrista snákaolíu á götuhornum og garga MAGNESÍUM þegar vel ber upp.

Niðurgangur er alltaf varúðarmerki, gott fólk – í öllum bænum látið skynsemina ráða.

Tengdar greinar:

Hvað á að drekka mikið af vatni á dag?

6 ástæður fyrir því að egg eru hollasta fæðutegund heims – Betri næring

Vítamín og heilsa: Geta vítamín haft skaðleg áhrif?

SHARE