Svona ÁTT þú að hugsa um barnið – Þetta er það BESTA fyrir barnið þitt

Það er yfirleitt engin vöntun á fólki sem telur sig vita hvernig á að gera hlutina rétt. Þetta fólk er alveg klárt á því að þeirra leið sé sú eina rétta. Ég held að það sé voðalega þægilegt að hugsa þannig að heimurinn sé annað hvort svartur eða hvítur. Maður þarf þá í það minnsta aldrei að efast um sjálfan sig. Ég trúi því þó ekki að við séum upp til hópa svo skyni skroppin að halda að lífið sé svo auðvelt að hlutirnir séu annað hvort réttir eða rangir.

Ég tala mikið við konur sem ganga með barn og konur sem eiga lítil eða uppkomin börn. Flestar eigum við það sameiginlegt að hafa hitt einhvern sem segir okkur hvernig hlutirnir verða hjá okkur og hvernig okkur ber að gera hlutina. Það er engin meðganga eins og börn eru einstaklingar, þau eru ólík og það sem hentar fyrir þig hentar kannski ekki fyrir mig og mitt barn. Flestir vilja vel en það er alveg hægt að vilja vel en fara samt yfir strikið. Ég hlusta alltaf á það sem fólk hefur að segja og ef einhver af þeim ráðum sem fólk gefur mér henta mér mun ég nota þau, ef ekki þá geri ég það bara ekki og það er allt í lagi.

Ég er svolítið þannig gerð að ég vil bara leyfa hlutunum að hafa sinn gang. Mér finnst ekki gott að ákveða of mikið fyrirfram og sér í lagi þegar kemur að barneignum. Ég ætla ekki að ofhugsa hlutina enda tel ég að það þjóni litlum tilgangi. Það er engin leið að vita nákvæmlega hvað tekur við þegar barn kemur í heiminn. Jafnvel þó ég hefði gert þetta allt saman áður er alls ekkert víst að hlutirnir yrðu eins með barn númer tvö. Við getum auðvitað gert okkur ágætis hugmynd um þetta allt saman, við þekkjum grunnþarfir barna, ég hef lesið mér til um tengslauppeldi og ýmislegt sem rannsóknir hafa sýnt fram á að sé gott fyrir barnið. Til dæmis þörf barna fyrir snertingu og annað. Það er allt gott og blessað en ég kýs að gera ekki ráð fyrir öðru en því að hlutirnir fái að hafa sinn gang. Það er engin bók sem kennir þér hvernig þú átt að ala barnið þitt upp þó að það sé alltaf gott að lesa sér til og hafa opinn huga. Ég ætla að kynnast mínu barni, á minn hátt og við munum, litla fjölskyldan gera hlutina eins og hentar okkur og okkar barni.

Það er hægt að gefa fólki alls konar ráð og segja fólki nákvæmlega hvernig það Á að gera hlutina. Sannleikurinn er bara sá að ekki hentar það sama öllum. Við þig kæri hugulsami aðili og heilbrigðisstarfsmaður sem sagði mér að ég mætti ekki nota neinar snyrtivörur, ilmvötn, förðunarvörur eða sjampó með lykt og ALLS ekki lita á mér hárið, borða sykur eða lakka á mér neglurnar, hef ég þetta að segja: Þú gleymdir alveg að spyrja mig og segja mér eitt af því mikilvægasta, þú gleymdir alveg að minnast á áfengi og sígarettur! En engar áhyggjur ég var vel meðvituð um þann part en ég held að það hefði verið gáfulegra að leggja áherslu á mikilvægu hlutina. Hitt er algjörlega þín skoðun og þú sýndir mér engar rannsóknir sem benda til þess að snyrtivörur eða annað slíkt valdi fóstrinu skaða. Það er finnst mér mjög mikilvægt að heilbrigðisstarfsmenn láti sínar hlutdrægu, persónulegu skoðanir ekki trufla sig í starfi sínu.

Við þig, kæri hugulsami aðili sem sagðir mér að ég ætti ekki að nota neitt annað en taubleyjur, vekja barnið á nóttunni til að drekka, láta barnið gráta bara þar til það sofnar ef það verður “erfitt”, eiga barnið án deyfingar vegna þess að það geri mig að sterkari konu, fara á námskeið til að læra að tengjast barninu og allt hitt sem ég Á að gera, hef ég þetta að segja:

Ég hef ekki ákveðið hvernig bleyjur ég mun nota en býst við að ég muni nota einnota bleyjur nema annað henti okkur betur, takk samt.

Nei, ég efast um að ég muni vekja barnið á nóttunni til að drekka. Barnið vaknar mjög líklega sjálft ef það er svangt, ef barnið er vannært og það þarf að vekja það til að koma í það næringu þarf kannski að gera aðrar ráðstafanir. Mér finnst þetta ráð galið ef allt gengur vel.

Nei, ég mun ekki láta barnið mitt liggja eitt inni í herbergi og gráta ef það sofnar ekki. Það er eitt af þeim hlutum sem ég veit fyrir víst og mér finnst ekki sniðugt að gefa mæðrum sem eru á leið að eiga sitt fyrsta barn þetta ráð, sér í lagi ef þú ert heilbrigðisstarfsmaður. Rannsóknir hafa sýnt fram á að þetta getur hreinlega verið skaðlegt fyrir börn og mér finnst ekki eðlilegt að skilja lítið barn eftir grátandi þegar eina leiðin sem þau hafa til að tjá sig er gráturinn.

Það að eiga barn án deyfingar gerir mig ekki að sterkari konu. Hvernig barnið kemur í heiminn er algjört aukaatriði að mínu mati. Það er það sem kemur í framhaldinu sem skiptir máli. Ég er alveg jafn sterk kona þó ég eigi allt öðruvísi fæðingu, hvort sem það er keisarskurður eða fæðing þar sem notaðar eru allar þær deyfingar sem til eru. Aðalatriðið er að þú fylgir því sem ÞÚ vilt, ekki einhverju sem einhver annar segir þér að gera.

Nei, ég ætla ekki á námskeið eða ganga í eitthvert teymi þar sem fólk gefur mér uppskrift af því hvernig ég á að tengjast barninu mínu, það getur verið að það gagnist mörgum vel og sumum finnst gott að fara á fundi með teymum þar sem margir ræða sín vandamál og það er hið fínasta mál. Ég er hins vegar ekki fyrir það og hef hvorki þörf né tíma fyrir það. Ég geri ekki ráð fyrir neinu öðru en að ég tengist barninu mínu, enda byrjuð á því nú þegar en ef það verða einhverjir erfiðleikar með það tek ég bara á því þegar að því kemur. Það er fáránlegt að mínu mati að gera ráð fyrir því að hlutirnir muni ekki ganga vel. Ef svo vill til að hlutirnir gangi ekki vel tekur maður bara á því þegar þar að kemur.

Munum það að enginn er eins. Fólk gerir það sem hentar þeim og þeirra barni best. Það sem hentaði þér hentar mér kannski ekki. Ég er þannig að ef ég vil fá ráð spyr ég og hika ekki við það. Fólk sem þekkir mig vel getur alltaf treyst því að ef ég vil fá ráð þá mun ég spyrja, ég er nokkuð viss um að það sama á við um marga aðra.

 

SHARE