Að innrétta lítið baðherbergi þannig að hver einasti fersentimetri nýtist sem best og að rýmið sé jafnframt smekklegt, kann hljóma eins og erfið áskorun. Einhverjum gæti jafnvel þótt þetta alveg vonlaust verkefni. En það er alls ekki raunin. Að innrétta lítið baðherbergi á smekklegan hátt krefst vissulega útsjónarsemi og ekki spillir gott hugmyndaflug fyrir. Þegar hafist er handa er fernt sem gott er að hafa í huga.

Settu upp hillur

Ekki reyna að koma fyrir lokuðum skápum á litlu baðherbergi. Það verður bara til þess að minnka rýmið enn frekar. Notaðu frekar hillur og leyfðu fallegum og litríkum handklæðum að njóta sín. Þetta gefur baðherberginu karakter og hlýleika. Háar stigahillur sem ná alveg niður í gólf eru til að mynda skemmtileg lausn. Að koma bastkörfum fyrir undir vaskinum og rúlla handklæðum fallega upp kemur líka vel út og nýting á plássi verður mjög góð.

Hugsaðu um notagildi

Notagildi er algjört lykilatriði þegar kemur að því að innrétta lítið baðherbergi. Of margir hlutir sem hafa engan tilgang geta valdið því að baðherbergið virðist ofhlaðið og það skapar óþarfa óreiðu. Hver hlutur skal hafa tilgang. Burt með alla óþarfa skrautmuni. Ef þú vilt ekki að persónlegir munir séu sjáanlegir á baðherberginu er um að gera að hafa hillurnar hátt uppi eða einfaldlega setja þá í lokuð box.

Málaðu í ljósum lit

Áður en þú hefst handa við að mála skaltu hafa í huga að ljósir litir láta baðherbergið virka stærra og bjartara. Hvíti líturinn er alltaf sá litur sem við tengjum við hreinleika og það er skynsamlegt að nota hann á lítil rými. En það er alltaf hægt að leika sér með áferð og mynstur þó litirnir séu ljósir og auka þannig dýptina.

Notaðu litríka hluti

Ef veggirnir á baðherberginu eru í ljósum hlutlausum litum er um að gera að lífga aðeins upp á rýmið með litríkum handklæðum eða sápum. Þá er líka skemmtilegt að hafa hillur og spegla í sterkum litum. Það gefur baðherberginu skemmtilegan svip.

 

Birtist fyrst í amk, nýju fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE