Sýnir Einhyrninginn á Northern Wave

Marsibil Sæmundardóttir, kvikmyndagerðarkona, hefur átt velgengni að fagna með stuttmyndum sínum síðastliðin ár og ber sú nýjasta í röðinni heitið Einhyrningurinn. Hún verður sýnd á Northern Wave á Grundarfirði um helgina en það er kvikmyndahátíð sem Marsibil segir vera eina af sínum uppáhalds.

Hún.is náði tali af Marsibil rétt áður en hún hélt af stað vestur á kvikmyndahátíðina sem hefst í dag til að forvitnast meira um Einhyrninginn, Northern Wave og það sem er framundan hjá þessari athafnasömu konu.

Svört tragíkómedía

“Einhyrningurinn er saga um Símon sem er staddur á hvíldarheimili með Pétri stuðningsfulltrúa sínum þar sem hann þarf að rifja upp þá örlagaríku atburði sem leiddu hann þangað. Myndin er svört tragíkómedía umvafin blæ töfraraunsæis,” segir Marsibil um stuttmyndina en með aðalhlutverk í myndinni fara Davíð Guðbrandsson, Hannes Óli Ágústsson og Baltasar Breki Baltasarsson.

“Fiskveisla og heljarinnar skemmtun”

Marsibil segist vera að fara í fimmta sinn á kvikmyndahátíðina Northern Wave og finnst alltaf jafn gaman. “Ég fór fyrst árið 2010 og varð ástfangin af hátíðinni. Ákvað að þetta myndi ég gera á hverju ári og ég hef staðið við það. Stemmningin er svo yndisleg, það er ekkert betra en að vera í úti á landi heila helgi með yndislegu fólki á kvikmyndahátíð sem er skipulögð eins og Northern Wave. Þetta er heljarinar skemmtun, fullt af góðu bíói, ball og tónleikar, fiskiveisla og margt fleira,” segir Marsibil.

marsibil

Mörg járn í eldinum

Það er nóg um að vera hjá Marsibil þessa dagana en hún framleiddi þáttaseríuna Drekaflugan fyrir ISTV í sumar og vinnur nú að nýjum verkefnum. “Ég var bara að klára Einhyrninginn og þarf að ákveða hvað ég ætla að gera við þessa elsku í framhaldinu. Ég er eins og er að vinna að tveimur myndum í fullri lengd með sitthvorum framleiðendunum. Annars vegar er það heimildarmyndin um manninn á bak við “Double Rainbow” YouTube myndbandið sem er rosalega spennandi verkefni. Hins vegar er ég að byrja vinna að hrollvekju í fullri lengd með öðrum framleiðendum þar sem ég skrifa handritið og leikstýri. Það er líka hrikalega spennandi, vægast sagt,” segir Marsibil að lokum.

Nánari upplýsingar og dagskrá Northern Wave kvikmyndahátíðarinnar má finna á vefnum Northernwavefestival.com

Hægt er að fylgjast nánar með stuttmyndum Marsibilar á facebook síðunni Arcus Film

 

Northern Wave

SHARE