Systur syngja um stríðið í Sýrlandi -senda umheiminum skilaboð

Tvær systur ákváðu að fara öðruvísi að til að vekja athygli á því sem er að gerast í Sýrlandi, Írak, Lebanon og Palestínu án þess að birta ofbeldisfullt myndefni. Þær gerðu myndbandið To Our Countries sem hefur fengið yfir miljón áhorf á youtube á aðeins tveimur vikum.

Einfaldleikinn áhrifaríkur

„Við vinnum með andstæður. Sorg og von, söng og tal, svartan klæðnað með hvítum bakgrunni,“ sögðu systurnar við sænska vefmiðilinn ETC á dögunum. Ástæðan fyrir áhrifamætti myndbandsins telja þær vera einfaldleikann. „Margir hvöttu okkur til þess að sýna sterkt myndefni úr stríðinu í myndbandinu, en við vissum að merking orða okkar myndi duga ein og sér. Myndirnar eru þegar til staðar í hugum fólks.“

Systurnar Faia og Rihan Younan eru fæddar í Sýrlandi en eru búsettar í bænum Södertälje í Svíþjóð. Þær voru 11 og 12 ára þegar þær komu til Svíþjóðar með foreldrum sínum og eru í dag 22 og 23 ára. Rihan starfar sem blaðamaður og Faia nemur viðskiptafræði.

Þær segjast hafa fengið hugmyndina að myndbandinu þegar stríðið í Sýrlandi og á Gaza ströndinni geisaði sem hæst í ágúst. Segjast þær hafa upplifað vonleysi og vanmátt og viljað koma með eigið framlag til að auka von um lausn á ástandinu.

Í dreifingu á alþjóðavísu

Í myndbandinu er farið stuttlega yfir sögu þeirra fjóru landa, sem deila sameiginlegum menningararfi og sem hafa farið verst út úr stríðinu.

„Ung stúlka búsett í Sýrlandi skrifaði okkur og sagðist hafa fundið fyrir von eftir að hafa horft á myndbandið okkar. Það er erfitt að útskýra hversu gefandi það er að finna að þetta er að hafa áhrif. Við erum mjög stoltar, segir Faia Younan við ETC. 

En viðbrögðin hafa ekki eingöngu verið af jákvæðum toga.

„Sumir spurja hvort tvær syngjandi stelpur geti leyst eitthvað. Ég þoli það ekki. Auðvitað vitum við ekkert hvort þetta muni leysa nokkurn skapaðan hlut en maður verður samt að reyna. Við áttuðum okkur ekki á því að myndbandið myndi fá svona mikla athygli og dreifingu. Mamma sagði reyndar að við ættum von á stóru eftir að hún hafði séð myndbandið. Við erum ekki með neinn á bakvið okkur í þessari framleiðslu. Þetta erum bara við.“

SHARE