Tékklisti fyrir þá sem eru að fara að ferma

Við undirbúning fermingarveislunnar er gott að vera með allt sitt á tæru og passa að ekkert gleymist. Hér er einfaldur tékklisti yfir það sem algengt er að huga að fyrir fermingarveislur.

Veislan
Oft er búið að bóka sal fyrir veisluhöld með löngum fyrirvara. Aðrir kjósa að halda veisluna heima í stofu. Ef veislan er fjölmenn getur verið kostur að leita til nákominna um aðstoð eða kaupa tilbúinn mat. Búðu til tímaáætlun svo allt verði örugglega tilbúið þegar fyrsta gestinn ber að garði.

Fatnaður
Huga þarf að sparifötum fyrir fermingarbarnið og myndatökuna.

Hárgreiðsla
Það getur verið gott að tryggja sér tíma með góðum fyrirvara fyrir fermingardaginn.

Gjafir
Hvers óskar fermingarbarnið sér í gjöf? Gott að útbúa lista fyrir ættingja og vini. Algengt er að gestir séu óöruggir um hvað fermingarbarnið vill svo allar upplýsingar eru gagnlegar.

Myndataka
Margir pússa upp fjölskylduna og skella sér í myndatöku í tilefni fermingarinnar.

Skart
Verður fermingarbarnið með sérstakt hálsmen á fermingardaginn?

Boðskort
Prent- og ljósmyndaverslanir bjóða upp á þægilega þjónustu þegar að kemur að hönnun boðskorta.

Sálmabók
Margir láta skrautrita nafn fermingarbarnsins ásamt dagsetningu.

Servíettur
Langar þig að prenta texta á servíetturnar? Prentverslanir og blómabúðir bjóða upp á slíka þjónustu.

Fermingartertan
Það er gott að gefa sér tíma til að skoða úrval og verð á fermingartertum.

Skreytingar
Á að skreyta hlaðborðið með blómum eða borðum? Blómaverslanir og föndurbúðir eru með úrval af hugmyndum af fylgihlutum fyrir skreytingar.

Kerti
Fermingarkertið er oft skreytt með skrautskrift. Hægt er að föndra eigið eða kaupa tilbúið.

 

SHARE