Það er allt í lagi að líða allskonar

Eins og margir lesendur vita þá greindist maðurinn minn í sumar með krabbamein í fjórða sinn og í þetta sinn á 4. stigi sem er ólæknandi. Hér er smá hugleiðing sem rennur í gegnum mig, aðstandandann.

Það er svo ótrúlega gott að fá staðfestingu á því að það sé í lagi að upplifa það sem maður upplifir sem aðstandandi krabbameinssjúklings.

Ég er svo þakklát fyrir aðstandendanámskeiðið í Ljósinu, þar fæ ég ásamt öðrum aðstandendum fræðslu og við fáum að tjá okkur.

Fyrir mig hefur verið rosalega gott að heyra að það er eðlilegt að ég sem aðstandandi sýni allskonar áfallseinkenni eins og síþreytu, minnisleysi og hrikalega mikla sorg.

Innst inni veit ég þetta auðvitað en þegar maður hefur alltaf verið sterkur og já líka unnið við að styrkja annað fólk þá er ótrúlega erfitt og snúið að missa styrk sinn og þurfa aðstoð annarra við að byggja sig upp. Maður þarf að játa sig sigraðan og vera fús til að taka leiðsögn, hljómar auðvelt en trúið mér, það er það ekki.

Ég hef til dæmis átt mjög erfitt með að sættast við það að minn sjúkdómur, vefjagigtin, fór í hæðstu hæðir þegar áfallið reið yfir og ég hef verið þreytt, þreytt og þreytt, verkjuð, verkjuð og verkjuð og þó ég viti sem fagaðili að það er eðlilegt að undirliggjandi veikindi nái sér á strik þegar áfall ríður yfir þá er þetta erfitt ferli að játa sig sigraða. Að viðurkenna að ég er með sjúkdóm sem mun aldrei læknast en ég get með bjargráðum haldið honum niðri en hann mun alltaf blossa upp þegar áfall eða streita yfirtaka líf mitt. Ég sem var orðin svo góð af vefjagigtinni að ég var næstum búin að gleyma henni.

Staðreyndin er sú að það gerir það að verkum að ég á nóg með mig og mitt hlutverk í barráttunni við krabbamein makans míns. Ég á ekki dropa af orku í meira, jú nú er ég of dramatísk. Það gerir mér gott að gera það sem mér finnst skemmtilegt og þannig taka frí frá þessum tveimur sjúkdómum sem eru í gangi á bænum.

Ég hef barið á mér reglulega og hugsað sem svo að ég væri nú meiri auminginn að vera ekki að vinna með þessu, bara í ótímabundnu sjúkraleyfi samkvæmt læknisráði. Ætli læknirinn minn viti ekki hvað hann er að gera með því að senda mig í leyfi, uhhhh jú hann er sérfræðingur á sínu sviði. Ég er með ótrúlega flottan lækni svo hvernig dettur mér í hug að efast um það þegar hann sendir mig í sjúkraleyfi, ja eða hvað er það í mér sem er svona klikkað að halda að ég sé góður starfskraftur þegar ég man ekki hvað ég gerði fyrir 3 mínútum eða ég er svo verkjuð að mig langar að æla.

Alveg er það magnað hvað það hjálpar manni að heyra að þetta sé eðlilegt og að ég er ekki eini aðstandandinn sem upplifi mig sem aumingja en ég er að leita mér að hjálp einmitt til að kasta þessum ranghugmyndum út. Jafningjastuðningur er frábær leið til þess að sækja sér styrk og fá speglun á tilfinningar sínar.

Umhverfið mitt er ekki að segja mér að ég sé aumingi, nei miklu frekar að ég heyri sagt:

„Gott að þú ert ekki að vinna og gott að þú ert að sinna þér“

Já og ég er líka svo lánsöm að vera umvafinn góðu fólki sem fattar hvað það er gott fyrir mig að gera eitthvað skemmtilegt svo ég fæ gjarnan boð um að koma að gera eitthvað gaman. Það er ómetanlegt ekki bara af því það er gaman að gera gaman nei heldur af því það er mjög heillandi að einangra sig bara heima í litla þægindaboxinu, helst á náttfötunum.

En auðvitað er líka önnur hlið á þessu, ég finn að sumir forðast að hafa samband. Ekki af mannvosku því trúi ég ekki, heldur eflaust af því að fólk veit ekki hvað það á að segja og gera. Það á ekki að segja neitt sérstakt eða gera neitt sérstakt, stundum er best bara að vita að fólk er þarna og hlustar eða hlær með manni. Það er svo eðlilegt að einhverjir dragi sig í hlé. Þetta er jú alger viðsnúningur á tilverunni og eðlilegt að fólk sé hrætt við að trufla, segja vitlaust og sumir ósköp einfaldlega afneita bara stöðunni.

Kjarni málsins er samt sá að lífið heldur áfram og við erum enn sama fólkið en auðvitað hefur tilveran gefið okkur nýjan þroska og sorgin hefur verið til staðar og allskonar tilfinningar, kvíðin kíkir reglulega við en hláturinn er líka að kíkja og hláturinn er gott meðal.

Hlæjum saman og höfum gaman en munum að það er eðlilegt að upplifa tilfinningar og stundum þarf maður bara að gráta og það er allt í lagi.

Tár eru demantar sálarinnar.

SHARE