Það er alveg pláss fyrir makann í fyrsta sæti líka – Þó við séum foreldrar erum við par líka

Mig langar að koma skoðunum mínum á framfæri en ég ætla að tjá mig um hluti sem ég þori vanalega ekki að minnast á. Mig langar að vita hvort að fleiri hugsi eins og ég eða hvort ég sé bara furðuleg. Þannig er mál með vexti að ég á þrjú börn og þau eru öll á skólaaldri, ég þarf og get í raun ekki lýst því nægilega vel með orðum hversu mikið ég elska börnin mín, það vita allir foreldrar hvernig sú ást er sem við berum til barnanna okkar. Ég var með þau öll heima fyrst um sinn og þau fóru ekki á leikskóla fyrr en þau voru um 3 ára gömul. Það voru yndislegir tímar en þeir tóku auðvitað á. Börnin mín eru líf mitt og yndi og ég myndi gefa líf mitt fyrir þeirra hvenær sem er. Það sem mig langar hisnvegar að tala um er að ég á líka maka sem ég elska mjög heitt. Samband mitt við makann minn skiptir mig miklu máli enda er hann minn sálufélagi og við höfum gengið í gegnum súrt og sætt saman.

Mér finnst mikilvægt að við ræktum okkar samband og eyðum tíma saman. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt og oft er lítill tími sem við getum eytt saman eins og gengur. Það er oft sem að talað er um að maður eigi alltaf að setja börnin í fyrsta sæti. Það má þá vera að sumir foreldrar hreinlega skammist sín fyrir að setja samveru með maka sínum af og til í forgang eða hreinlega að rækta sjálfa sig. Ég held og mér finnst ég verða betri mamma þegar ég fæ að rækta sjálfa mig og sambandið við makann. Mér finnst allt í lagi að við sleppum stundum vídjókvöldi með börnunum á föstudegi og leyfum þeim að fara í dekur til ömmu og afa meðan við tvö eigum rómantískt kvöld saman. Við erum með börnunum alla vikuna og þau njóta þess að eiga samverustund með ömmu og afa. Ég veit að það væsir ekki um þau þar. Mér finnst við stundum hafa þurft að afsaka okkur þau tvö skipti síðan börnin fæddust sem við fórum í helgarferð til útlanda, þær ferðir hafa að hluta til verið vinnutengdar þannig við höfum getað farið saman án þess að eyða miklum pening.

Ég er mamma, en ég er líka einstaklingur og kærasta. Við erum foreldrar en við erum líka par og makinn minn er mér jafn mikilvægur og börnin mín. Það þýðir ekki að mér þyki ekki vænt um börnin mín, það þýðir bara að mér þykir líka vænt um maka minn sem ég hef þekkt í næstum því tuttugu ár og hefur stutt mig í gegnum súrt og sætt. Ég vil ekki setja makann minn í annað sæti en ekki börnin mín heldur. Það er alveg pláss fyrir makann og börnin í fyrsta sæti.

Mér finnst að maður eigi ekki að gera lítið úr sambandi sínu við makann og oft hitt foreldri barna sinna. Samband okkar við börnin okkar eru ekki einu mikilvægu samböndin í lífi okkar. Ég vil allavega rækta sambönd mín við fleiri en börnin mín og ég ætla bara að hætta að skammast mín fyrir það!

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

SHARE