„Það er búið að eyðileggja orðið lífsstílsbreyting“

Anna heldur úti fræðandi snapchat-reikningi þar sem hún talar um heilsutengd málefni og markaðssetningu á heilsuvörum, sem hún telur oft villandi og jafnvel falska. Anna er á móti öllum öfgum þegar kemur að líkamsrækt og sýnir fram á að hægt sé að ná árangri án þess að hamast í ræktinni tvisvar á dag.

 

„Stundum er þetta rosalega gaman, eitthvað sem ég hef mikinn áhuga á og tala og tala, en stundum hef ég minni áhuga á efninu. Þrátt fyrir það reyni ég alltaf að standa við loforð mín um að taka eitthvað fyrir. Það er nefnilega rosaleg vinna sem fer í margar umfjallanir, sérstaklega þær sem fjalla um innihaldslýsingar á vörum, þá fer ég í hvert einasta efni,“ segir Anna Þorsteinsdóttir íþróttafræðingur sem heldur úti „snappinu“ Engar öfgar þar sem hún fjallar um heilsutengd málefni og heilbrigt matarræði á upplýstan og fræðandi hátt.

Eins og nafnið gefur til kynna er Anna lítið fyrir öfgar af neinu tagi. „Snappið heitir Engar öfgar því það er engin þörf á öfgum. Ég er sjálf búin að missa átta kíló síðan í janúar, bara með því að hreyfa mig reglulega og borða þokkalega hollan mat. Svo leyfi ég mér ýmislegt í hófi.“

Skapa þörf fyrir óþarfa

Anna segir margt hafa breyst til hins verra á síðustu árum, þegar kemur að umræðu um hreyfingu og heilbrigðan lífsstíl. „Það er búið að eyðileggja orðið lífsstílsbreyting. Það eru komin lífsstílsbreytingarnámskeið sem eru sex vikur. Hvað er það? Maður breytir ekki um lífsstíl á svo skömmum tíma. Ef maður ætlar að taka sig á, borða hollar og hreyfa sig, þá virðist maður þurfa að kaupa kort í ræktinni, ræktarföt, prótein, skó og allt hitt. En þetta á ekki að vera svona. Þetta er það sem markaðssetning fyrirtækja og sumir lífsstílsbloggarar eru skapa þörf fyrir. Þegar maður getur í raun bara farið í úlpuna sína og út í göngutúr.“ Anna bendir á að það sé mun skynsamlegra að byrja á því að fara út að ganga reglulega í þrjár til fjórar vikur og ef fólk endist í því, þá getur það íhugað að kaupa sér líkamsræktarkort. „Þetta er meðal þess sem ég er að reyna að sýna fólki á snapchat.“

Anna starfar í dag sem íþróttakennari, en hún er íþróttafræðingur að mennt með meistaragráðu í heilsuþjálfun og kennslu frá Háskólanum í Reykjavík. Þá er hún lærður endurhæfingarþjálfari og með ýmis önnur réttindi. Hún ætti því að vita hvað hún syngur þegar kemur að heilsu og heilbrigðum lífsstíl.
Hún er einstæð móðir og á eins og hálfs árs gamlan son. Áður en hann kom í heiminn starfaði hún meira við þjálfun og kennslu í líkamsrækt, en íþróttakennarastarfið býður upp á heppilegri vinnutíma. Henni finnst líka gaman að spreyta sig á nýjum vettvangi.

Er bara týpan sem hún er

En hvað kom til að hún ákvað að deila þekkingu sinni á snapchat? „Ég er bara þannig gerð að ég vil hjálpa öllum. Í gegnum mína þjálfun hef ég alltaf verið að gefa ráð. Fólk sem var ekki einu sinni í tímum hjá mér eða einkaþjálfun var farið að biðja mig um ráð. Ég er alltaf að grúska í hinu og þessu og mig langaði að koma upplýsingum til allra, þannig allir gætu séð þetta og nýtt sér. Það eru svo margir sem hafa ekki efni á ráðgjöf eða einkaþjálfun og enn aðrir sem fatta ekki að hverju þarf að huga, eins og hvað markaðssetning fyrirtækja skiptir miklu máli,“ segir Anna og á þar við hvernig vörur eru auglýstar, sérstaklega vörur sem kynntar eru sem heilsuvörur. En hún hefur mikinn áhuga á slíkri markaðssetningu og ræðir hana mikið á snapchat. „Í mörgum tilfellum er um að ræða kolranga og falska markaðssetningu, sem á ekki við nein rök að styðjast. Ég var alltaf að ræða þetta maður á mann og alltaf að tönnlast á sömu hlutunum aftur og aftur.“

Fyrir einu og hálfu ári hvarflaði að henni sú hugmynd að koma þessum upplýsingum frá sér á snapchat, en það var eitthvað sem stoppaði hana. „Ég sá allar þessar glansmyndir á snapchat og hugsaði með mér að ég gæti ekki verið þessi týpa. Alltaf stífmáluð, alltaf ógeðslega hreint hjá mér og barnið mitt alltaf þægt. En svo hugsaði ég þetta lengra. Að ég þyrfti ekki að vera þessi týpa. Ég gæti bara haldið áfram að vera týpan sem ég er. Ég er bara venjuleg einstæð móðir. En þá fékk ég að heyra það frá fólki að ég ætti ekki að gefa vinnuna mína. Þetta er auðvitað eitthvað sem ég hef lært og fæ af því tekjur, en ég hugsaði með mér að ef ég lægi á dánarbeðnum, myndi ég þá sjá eftir að hafa ekki rukkað fleiri fyrir að fá mína þekkingu eða myndi ég sjá eftir að hafa ekki hjálpað fleirum? Þetta hljómar hádramatískt en þetta var nákvæmlega það sem gerði útslagið.“

Fyrirtækin þora ekki í hana

En vegna þess hve Anna er gagnrýnin á markaðssetningu ýmissa vara og talar hreint út, þá fær hún gjarnan sterk viðbrögð og ekki alltaf á málefnalegum forsendum. „Það er eitt af því sem ég ákvað að ég yrði að brynja mig gegn þegar ég var í umhugsunarferlinu. Það eru aldrei allir sammála manni og það er bara frábært. Það eru auðvitað margir að fylgjast með mér sem þekkja til þess sem ég er að tala um, en ég reyni að einfalda umræðuna og hef stundum verið gagnrýnd fyrir það. Ég þræti ekki, hvað þá á samfélagsmiðlum. Ég er manneskjan sem segi: „Við verðum þá bara að vera sammála um að vera ósammála.“ Ef fólki finnst ég agaleg vitlaus og líkar ekki við það sem ég segi, þá er því velkomið að hætta að fylgjast með mér. Ég er ekki fullkomin og veit að ég hef sagt vitlausa hluti, en ég viðurkenni mistök mín.“

Fyrirtækin sem selja eða flytja inn vörurnar sem hún ræðir um hafa hins vegar aldrei sett sig í samband við hana. „Ég held að fæstir þori það. Ég gagnrýni nefnilega það sem er að. Og ef þau myndu gefa mér vöru þá myndi ég aldrei lofa hana ef mér líkaði hún ekki. Ég get gefið mitt heiðarlega álit, en ég mun aldrei ljúga upp í opið geðið á fylgjendum mínum.“

Ætlaði í fitness en sá ljósið

Anna, sem er uppalin í Grundarfirði, hafði ekkert sérstakan áhuga á íþróttum og heilsu þegar hún var barn en prófaði sig áfram í ýmsum íþróttagreinum. Áhuginn á lýðheilsu og heilsueflingu kviknaði af alvöru þegar hún var í íþróttalýðháskóla í Danmörku.

„Fyrst var ég bara í líkamsrækt og ætlaði að verða þjálfari en svo þróaðist áhuginn meira í átt að heilsueflingu. Ég lærði að það eru margir aðrir þættir sem skipta meira máli en að hamast í ræktinni tvisvar á dag. Ég byrjaði nefnilega sjálf þar,“ segir Anna en hún ætlaði heldur betur að taka ræktina með trompi og stefndi á að keppa í fitness. „Ég byrjaði í ræktinni tvisvar á dag, borðaði bara kjúkling og brokkolí. En eftir því sem ég fór lengra í náminu þá áttaði ég mig á því að það er ekki leiðin að bættri heilsu. Svona á ekki að gera þetta. Þetta er hvorki heilbrigt né sniðugt til lengri tíma. Með því er maður að svelta líkamann og ofæfa. Þetta getur haft varanleg á áhrif á mann. Þetta virkar fyrir örfáa en það eru þeir sem við sjáum, enda eru þeir mest áberandi. Fyrir langflesta er þetta ekki málið.“

Fer í bakinu við mikla streitu

Anna þarf líka að passa sig sérstaklega vel, en hún lenti í mjög hörðum árekstri fyrir rúmum þremur árum, þar sem hún tognaði meðal annars í baki. Hún taldi sig reyndar hafa jafnað sig á meiðslunum skömmum á tíma, enda truflaði þetta hana ekki mikið.

„Svo komu tímabil þar sem ég var undir miklu andlegu álagi. Eins og þegar ég var í verkefnaskilum og prófum fyrst eftir að ég lenti í slysinu, þá allt í einu fór ég í bakinu. Ég var svo verkjuð að ég þurfti mjög sterk verkjalyf til að halda mér gangandi. En ég tengdi þetta ekki við bakmeiðslin. Svo kláraði ég prófin og jafnaði mig í bakinu. Svo gerðist þetta aftur þegar ég var að skrifa BSc ritgerðina mína og ég endaði uppi á spítala með verkjalyf í æð. Ég var svo kvalin. Þá kviknaði á perunni. Ég er tæp í bakinu og er góð meðan ég æfi rétt, en ef ég missi úr og er að upplifa stress, kvíða og streitu, þá fer skrokkurinn með,“ segir Anna en hún fór einmitt aftur í bakinu nýlega. Þá ætlaði hún sér aðeins of mikið og streitan tók völdin.

„Ég skráði mig aftur í háskólanám og ætlaði að vera fullri vinnu með, líka með fjarþjálfunina mína og snapchatið, sem tekur sinn tíma. Svo er ég auðvitað með lítið barn. Ég hélt ég væri ofurkona og ætlaði að gera allt. En svo fór ég til læknis sem sagði mér að ég væri að gera allt of mikið. Þannig ég ákvað að hætta í skólanum og tveimur dögum síðar var ég orðin betri í bakinu. Sem er ótrúlegt þar sem ég var búin að reyna að gera mig betri í tvo mánuði.“

Hægt er að fylgjast með Önnu á snapchat: engarofgar

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

 

 

SHARE