Það er meira en að segja það að fá barn í kaupbæti með nýja makanum

ATH. Þessi grein er aðsend. Lesendum er frjálst að senda inn greinar undir nafnleynd í Þjóðarsálina, en þær skoðanir sem birtast hér í Þjóðarsálinni endurspegla hvorki ritstjórnarstefnu né skoðanir HÚN.IS 

Ég sá greinina frá stjúpmömmunni hér á dögunum og mig langaði til að segja ykkur mína sögu: Fósturfaðir minn og ég tengdust aldrei neinum sérstökum böndum. Hann var aldrei meira en kærasti mömmu minnar og samband okkar hefur alltaf verið skrýtið og stirt. Á tímabili var það daglegt brauð að ég gargaði á hann „þú ert ekki pabbi minn,“ strunsaði síðan inn í herbergi og skellti á eftir mér með leikrænum tilþrifum. Því þó að samband foreldra minna hafi ekki verið gott og þau hafi rifist eins og hundur og köttur öllum stundum hélt ég í vonina um að við yrðum einhvern daginn fjölskylda á ný.

Þetta hafði mikil áhrif á mig og ég ákvað snemma að ég myndi ekki ala börnin mín upp við slíkar aðstæður. Seinna meir giftist ég og við hjónin eignuðumst dóttur. Í nokkur ár lék allt í lyndi og ég taldi mig hafa lært af mistökum foreldra minna. Oft er það þó svo að hlutirinir fara ekki eins og maður ætlar sér. Við hjónin skildum þegar dóttir okkar var að hefja nám í grunnskóla. Nú á hún tvö heimili og dvelur viku hjá mér og viku hjá föður sínum í senn. Í fyrstu gekk allt vonum framar, enda ákváðum við að láta barnið ekki verða bitbein okkar. Við tókum á ágreiningsmálum á yfirvegaðan hátt og komumst auðveldlega að niðurstöðu varðandi fjármál og annað slíkt. En þrátt fyrir góðan vilja er stundum auðvelt að fara út af sporinu. Sérstaklega þegar nýir makar koma til sögunnar.

Nú hafa bæði ég og minn fyrrverandi eignast nýjan maka. Barnsfaðir minn á von á barni með konunni sinni og ég er nýverið farin að búa með manni sem á tvö börn af fyrra hjónabandi. Þetta er því flókið mál og oft er alveg hrikalega erfitt að samrýma gildi allra þessara ólíku einstaklinga. Og þó svo ég vildi gjarnan halda því fram að allt sé í lukkunnar velstandi, að dóttir mín hafi grætt nýja mömmu og fengið yndisleg systkini í kaupbæti er það flóknara en svo. Ekki misskilja mig, þetta er allt hið vænsta fólk, en það breytir því þó ekki að þetta nýja fjölskyldumynstur getur tekið á. Ekki aðeins hef ég áhyggjur af líðan dóttur minnar sem hefur nú eignast tvo stjúpforeldra, heldur er ég sjálf komin í stjúpuhlutverkið. Og já ég hef meira að segja þurft að heyra gargað á mig „þú ert ekki mamma mín“ þegar ég var að siða börnin til.

Ég lærði þó eitt af mistökum foreldra minna. Það er betra að leita sér hjálpar í stað þess að vonast til þess að ástandið lagist að sjálfu sér, eða líði hjá. Og þó svo okkur fjölskyldunni hafi tekist ágætlega að vinna úr málum okkar hingað til er engin skömm í því að leita sér aðstoðar fagfólks. Og í raun þykir mér það algerlega nauðsynlegt. Þess vegna höfum við skötuhjúin nú sótt nokkra tíma í fjölskylduráðgjöf. Heimilislífið er enn flókið, stundum er ég alveg búin á því og við það að gefast upp, en ég finn að þetta er allt að þokast í rétta átt. Ekki einungis er ég betur í stakk búin undir móðurhlutverkið, heldur á ég auðveldara með stjúpuhlutverkið og öll þessi flóknu samskipti yfir höfuð.

Ég trúi því að þetta sé allt spurning um þolinmæði, hún virðist vera lykillinn að öllu saman. En eitt hef ég þó grætt – núna skil ég fósturföður minn betur. Það er nefnilega meira en að segja það að fá barn í kaupbæti með nýja makanum.

 

Tengdar greinar: 

Stjúpmamma segir frá sinni reynslu: „Þetta er hægara sagt en gert“

Ert þú stjúpforeldri? – Hér eru nokkur frábær ráð fyrir þig!

Eru allir tilbúnir til þess að verða stjúpforeldrar?

„Stjúpmóður barnanna þinna er annt um börnin þín. Hún gerir sér fulla grein fyrir því að enginn kemur í þinn stað“

„Ég fæddist til að klúðra lífi mínu“

SHARE