Það mega bara tvær koma heim til mín – Þjóðarsálin

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

 

Ég á stelpu sem er í 3. bekk í grunnskóla hér á höfuðborgarsvæðinu. Eftir skóla fer hún svo í frístundarheimili ásamt flestum krökkunum í sínum bekk. Einn daginn var ég að sækja hana í frístundarheimilið og þá var hún ásamt fjórum öðrum stelpum í forstofunni á frístundarheimilinu og voru að tala saman. Ég er að taka til dót dóttur minnar og heyri í stelpunum tala saman.

Stelpa 1: Það mega bara tvær koma með mér heim, mamma segir það

Stelpa 2: Má ég koma með þér heim 

Stelpur 3 og 4: Nei má ég? 

Þegar þarna er komið horfa þær allar á Stelpu 1 vongóðar og biðjandi og stelpa 2 spennir greipar.

Stelpa 1: Sko „stelpa 2“ ég ætla að taka þær tvær með mér núna en þú getur bara komið seinna. 

Stelpa 2 verður að sjálfsögðu frekar sár og koma strax tár í augun á henni, hún hafði tapað vinsældakeppninni.

Þarna var ég orðin steinhissa á þessum „áheyrnarprufum“ og ákvað að skipta mér af og spurði stelpu 1: Hvaða hvaða, mamma þín hlýtur að vilja að þú leyfir öllum vinkonum þínum að koma frekar en að skilja eina eftir, er það ekki?

Stelpa 1: Nei ég má bara fá tvær stelpur heim til mín

 

Mér fannst þetta meira en lítið undarlegt og hafði aldrei heyrt svona áður, ekki hafði það hvarflað að mér að setja einhver mörk um það hversu margar vinkonur koma með dóttur minni heim. Ég sagði vinkonu minni frá þessu og  þá hafði sonur hennar einmitt lent í svipuðu atviki. Hann hafði farið heim til vinar síns en ekki verið hleypt inn af því sá vinur var með tvo stráka í heimsókn að leika og þurfti hann þá, greyið, að snúa heim til sín aftur og grét svo í mömmu sinni.

Mig langaði bara að koma þessu hér á framfæri því ég vil endilega að þær mæður sem setja svona reglur hugsi sig aðeins um. Er virkilega svona mikið meira drasl að fara að myndast með þennan eina (jafnvel fleiri) auka krakka? Ef pælingin er að gefa ekki öllu hverfinu að borða að þá hef ég alveg sent vinkonur dóttur minnar heim í kaffitíma ef þær eru mjög margar.

Hugsum frekar um þau litlu hjörtu sem geta særst heldur en að setja einhverja tilgangslausar reglur.

Ein úr Vesturbænum

 

SHARE