Það sem konum er ekki alltaf sagt að gerist EFTIR meðgöngu

Ég birti pistil um daginn þar sem ég hafði safnað saman nokkrum atriðum sem ég hef oftar en ekki heyrt konur tala um í sambandi við meðgöngu. Þar voru talin upp atriði sem konum er ekki alltaf sagt um meðgöngu, þær þurfa að komast að því “the hard way”. Eftir að sá pistill, sem þú getur lesið hér birtist sköpuðust miklar umræður um þessi mál enda erum við misjafnar eins og við erum margar og ég fékk ýmis skilaboð frá konum sem töluðu um að það væri líka fínt að ræða það sem gerist EFTIR meðgöngu. Það eru ýmsir hlutir sem konur hafa oft ekki hugmynd að eigi sér stað eftir meðgöngu. Hér fyrir neðan tel ég upp nokkur atriði sem konur sem gengið hafa í gegnum allt frá einni fæðingu upp í fimm fæðingar hafa talað um við mig, einnig leitaði ég mér upplýsinga á neinu, svo sem á spjallborðum ofl. Ég ætla bara að taka það fram að meirihlutann af þessum atriðum vissi ég ekki um, enda ef við vissum allt áður en við yrðum óléttar myndum við kannski bara hætta við þetta allt saman? að geta varla setið í tvær vikur, samdráttarverkir þegar þú ert búin með meðgönguna og fæðinguna og átt að vera laus allra mála og geirvörtur sem eru við það að detta af? hér eru nokkur atriði sem konur hafa talað um..

1. Að fæða fylgjuna og saumaskapurinn – Þú þarft að fæða fylgjuna.. já það eru alls ekki allar konur sem eru meðvitaðar um þetta. Það vita langflestar konur að þær eru með fylgju, en það eru ekki allar meðvitaðar um að þær þurfa að fæða hana líka. Í einni fæðingarsögu sem við birtum hér á Hún.is talar ung kona um að í henni hafi heyrst þegar komið var að því að fæða fylgjuna “HA? fylgju? það sagði mér enginn að ég þyrfti að fæða einhverja helvítis fylgju!” Svo þegar það er búið er saumaskapurinn eftir hjá þeim sem rifna

2. Donutinn og gyllinæðin – “Ég vissi ekki að ég þyrfti að sitja á Donut eftir fæðinguna útaf hræðilegri gyllinæð” – Donut er hringlaga kútur sem konum er oft ráðlagt að sitja á eftir fæðingu, bæði vegna gyllinæðar og svo vegna þess að algengt er að konur rifni og þá er ekki þægilegt að sitja á sárunum

3. Brjóstagjöfin getur verið erfið –  Brjóstagjöfin getur verið virkilega krefjandi og erfið. Það er bara alls ekki sjálfgefið að gefa brjóst “rétt” og flestar konur sem eru að eignast barn í fyrsta skiptið þurfa aðstoð við að láta barnið sjúga geirvörtuna rétt. Brjóstin geta orðið aum og þú getur fengið slæm sár af brjóstagjöf og þá sérstaklega ef þú hefur ekki fengið aðstoð við hana í byrjun. Það er yfirleitt talað um að brjóstagjöf sé svo eðlileg, falleg og náttúruleg, en brjóstagjöf er vinna, í það minnsta fyrir flestar konur. Það er margt sem getur komið upp eins og sýking, stíflun ofl.  það virðist þurfa að fræða ungar konur mun meira um brjóstagjöf.

4. Samdrættir – Samdráttarverkir þegar barnið er að sjúga brjóstið í fyrstu skiptin, þá getur legið dregist hraðar saman og talað er um að það geti versnað með hverju barni.. verkirnir geta víst verið verri en hríðarnar sjálfar! Það hafa í það minnsta sumar konur upplifað. Stundum þurfa konur lyf til að legið dragist saman og tala um að þá þurfi þær að upplifa hríðarverkina aftur. (þetta hef ég til dæmis bara aldrei heyrt um)

5. Stundum dregst legið ekki saman – Það þarf stundum að hnoða legið eftir fæðingu ef það dregst ekki saman og það getur þurft að gera harkalega og það er VONT að sögn margra kvenna. Þá sérstaklega ef þú hefur farið í keisara og ert enn aum með sauma í þér. Ein kona talar um að í sjúkraskýrslu hennar hafi staðið, eftir keisaraskurð “leg tekið út úr kviðarholi og þurrkað með rakri grisju”

6. Ástin – Já auðvitað verður að taka fram eitthvað gott líka.. það áttar sig líklega enginn á því að hægt sé að elska manneskju svona mikið fyrr en þú eignast sjálf barn! Það tala bæði konur og karlar um..

7. Ástin sem kemur ekki strax – Það eru ekki ALLAR konur sem finna strax þessa miklu móðurást. Það tekur sumar konur einhvern tíma að finna fyrir öllum þeim tilfinningum sem okkur er alltaf sagt að við eigum að fá STRAX og vegna þess að það er ekki alltaf talað um það fá margar konur mikið samviskubit ef þær finna ekki fyrir þessum tilfinningum strax og þær fá barnið í fangið

8. Ofsahræðsla – Já það kemur fyrir að konur verði rosalega hræddar um barnið sitt. Og geti jafnvel ekki sofið vegna þess að þær hafa áhyggjur af því að barnið sé bara hreinlega að deyja.

Það eru alveg klárlega allskyns fleiri atriði sem væri hægt að bæta á þennan lista en þetta eru bara þau sem ég hef heyrt flestar konur tala um, hver upplifun er einstök. Endilega látið í ykkur heyra og bætið við þeim atriðum sem komu ykkur á óvart!

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here