Þarf að lifa með neikvæðum hugsunum hvern einasta dag – Líf með geðraskanir

Vegna mikillar umfjöllunar um geðdeildina og fólk með geðraskanir langaði mig að segja mína reynslu af því hvernig er að lifa með geðröskun.

Ég er kona sem er búin að vera með geðröskun í 10 ár núna. Hluta af tímanum hef ég ekki verið neitt rosalega veik, en yfir helminginn af tímanum hef ég upplifað tilfinningar sem ég myndi ekki óska mínum versta andstæðingi. Síðustu 4-5 árin hef ég þurft að taka lyf á hverjum einasta degi, stundum oft á dag, stundum meira, stundum minna. Jafnvel þó ég taki lyfin mín samviskusamlega get ég samt ekki lifað eðlilegu lífi. Ég þarf að lifa með neikvæðum hugsunum hvern einasta dag. Þar má til dæmis nefna órökréttar áhyggjur af nákomnum, stress yfir minnstu hlutum, ruglaðar hugsanir og sjálfsvígshugsanir nánast daglega. Ef ég upplifi meira álag heldur en ég höndla þá fæ ég ofskynjanir, þeas. umhverfið virðist öðruvísi fyrir mér, hlutirnir stærri eða minni, eða jafnvel hreyfast, ég finn lykt af hlutum sem er ekki fræðilegur möguleiki á að sé nálægt mér. Ég hef t.d. staðið inní miðri stórborg og fundið fjósalykt. Líkurnar á að það sé rökrétt eru litlar sem engar. Þegar ég er verst sé ég fólk sem er í rauninni ekki þarna, en fyrir mér er það þarna. Þessar hugsanir koma þrátt fyrir að ég taki lyfin mín reglulega.

Þó svo að margir segja að fordómar og skilningsleysi sé lítið sem ekkert í nútíma samfélagi, þá er það ekki alveg satt. Ég hef sjálf þurft að upplifa alls kyns fordóma vegna minna veikinda, en með aukinni umræðu og upplýsingum vona ég innilega að endastöðin sé uppræting fordóma. Þó svo að ég lifi með sjúkdóm sem ég myndi ekki óska neinum að þurfa að upplifa langar mig samt sem áður að vera jafningi allra. Mín heitasta ósk er að fólk með geðraskanir fái einn daginn að lifa án fordóma og fá skilning á sínum veikindum.

SHARE