“Þegiðu bara & vertu sæt, það eina sem skiptir máli!”

Ég las einhverja grein um daginn þar sem stóð að stelpur sem væru fyndnar myndu síður ná sér í kærasta. „Hvaða bull er nú þetta?“ hugsaði ég. Þetta er bara enn eitt dæmið þar sem okkur konum er talin trú um það að persónuleiki okkar hafi ekkert að gera með hrifningu karlmanna á okkur.

 

Hvað ef við setjum þetta öðruvísi upp – Hvað ef við konurnar höfum bara engan áhuga á að eignast mann sem leyfir okkur ekki að hafa okkar eigin persónuleika og okkar húmor? Er það eitthvað eftirsóknarvert? Mér finnst það ekki.

Reyndar held ég að þetta sé bara algjör vitleysa, karlar hugsa akkúrat frekar út í persónuleika þegar þeir velja sér maka eða þegar við veljum okkur þá sem maka, hvernig sem þú vilt setja þetta upp.

Enn og aftur erum við þarna með dæmi um það að konum er sagt að halda kjafti og vera bara sætar því það kann enginn að meta þær nema bara vegna útlitsins. Í raunverulega lífinu virkar það bara ekkert þannig.

Einnig er minnst á það í þessari grein að til þess að vera líklegri til að ná sér í karlmann ættum við að temja okkur það að hlæja að bröndurum þeirra – vegna þess að karlmenn heillast af því. Afsakaðu, en ég lifi ekki mínu lífi til að þóknast karlmönnum, ef maðurinn reitir af sér lélega brandara hægri-vinstri er ég bara að gera honum greiða með að segja honum að tala um eitthvað allt annað.

Það er áhugavert að spá aðeins í því hversu mikil niðurbrotsstarfsemi er í gangi út um allt sem beinist að konum – þú þarft ekki annað en skoða auglýsingar, sjónvarpsþætti eða hvað það nú er.

Okkur er kennt frá unga aldri að hata líkamann á okkur – við megum ekki vera of feitar en heldur ekki of grannar, við verðum að vera akkúrat í miðjunni á þessari fínu línu sem er dregin fyrir okkur. Stelpur frá 5 ára aldri vita hvað megrun er, hvað er eðlilegt við það ?

 

Það er endalaus pressa á okkur út um allt að segja réttu hlutina, gera réttu hlutina og auðvitað aðalmálið – að líta óaðfinnanlega út, ALLTAF. Er það svo skrítið að litlar stelpur séu sendar til sálfræðinga? Eða að stelpur sem jafnvel hafa ekki náð 8 ára aldri séu lagðar inn á spítala vegna næringarskorts?

Lífið snýst ekki um að heilla sem flesta karlmenn, lífið snýst heldur ekki um að vera horaðasta stelpan í vinkonuhópnum, vera flottust í sundfötum eða með minnstar hrukkur í andlitinu.

 

Því fyrr sem við föttum það því betra.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here